Tölvumál - 01.01.2016, Page 8
8
Fyrsta upplifun mín af íslensku tungutaki í kringum tölvutækni var sjálft
orðið tölva. Móðir mín var meðal þeirra fyrstu sem útskrifuðust sem
tölvunarfræðingar frá Háskóla Íslands á upphafsárum tölvunarfræðinnar
sem sérstaks fags hér á landi. Var því farið að tala um tölvur og þá tækni
sem þeim tengdust á mínu heimili fyrr en gerðist að öllu jöfnu í kringum
mig. Sérstaklega var hamrað á því að rétta orðið væri „tölva“ en ekki
„talva“.
Það var ekki fyrr en síðar að ég öðlaðist fullan skilning á því hversu mikið
snilldarorð það er og hef aldrei mismælt mig síðan. Þessum nýju vélum,
sem höfðu þann eiginleika að vinna hratt og vel með tölur og að nýta
reiknigetu til að fá útkomu sem ekki hefði verið hægt að sjá fyrir á pappír
nema með gríðarlegri handavinnu, var líkt við hinar forspáu formæður
okkar, völvurnar. Það bar bæði vott um hugmyndaauðgi við útfærslu
orðsins og virðingu fyrir sagnaarfinum okkar.
Af vef Orðabókar Háskólans
Það er ekki hægt að segja að allar nágrannaþjóðir okkar hafi lagt sama
metnað í að finna sín eigin tölvuorð og hafa ensku orðin gjarnan runnið
inn í önnur tungumál sem tökuorð. Það er þróun sem gerir vissulega
ákveðna hluti auðveldari, til dæmis að greiða fyrir flæði starfsfólks milli
landa án þess að málakunnátta sé mikið til trafala, en er það samt ekki
svolítið dapurlegt? Auðvitað viljum við að íslenskt starfsfólk sé
samkeppnishæft þegar það sækir störf og fagráðstefnur erlendis, en
þýðir það að við getum slakað á kröfunum um að halda okkar eigin
sérkennum sem þjóð sem talar eitt elsta tungumál í heimi?
ÞAÐ LÆRA BÖRNIN SEM FYRIR ÞEIM ER HAFT
Eitt er víst að ef við sem fullorðið fólk leggjum okkur ekki fram við að tala
kjarnyrt og gott mál, þá er alveg öruggt að börnin okkar eiga ekki eftir
að taka það upp hjá sjálfum sér að krefjast betri orða með tengingu við
íslenskan uppruna. Þau læra nefnilega það sem fyrir þeim er haft. Svo
ef við erum löt við að nota íslensk orð, þá læra þau ekki annað en
sletturnar okkar.
Nú heyri ég marga mótmæla í huganum og segja: „Já, en það er ekki
hægt að þýða öll tölvuhugtök svo vel sé“, eða: „Þetta hljómar kjánalega
á íslensku“.
Ég get alveg tekið undir það að mín eigin upplifun hefur að einhverju
leyti ratað inn á þær brautir í gegnum tíðina svo ég skil þá sem segja
slíkt. Sérstaklega fannst mér lífið erfitt þegar Windows 98 leit dagsins
ljós á íslensku. Maður þekkti einungis stýrikerfið á ensku og fann ekki
réttu valmöguleikana, flýtilyklarnir voru bundnir öðrum stöfum en vant
var á ensku og sum orðin voru beinlínis skrýtin og óþjál. En það þýðir
ekki að öll þessi orð hafi verið vonlaus.
NÝR HEIMUR, NÝTT TUNGUMÁL
Þarna var nefnilega kynnt til sögunnar nánast nýtt tungumál.
Tölvutæknin hafði litið dagsins ljós einungis örfáum áratugum áður með
algjörlega sjálfstæðu tungutaki sem átti sér enga hliðstæðu fram að því.
Ekki hjálpaði heldur til að loks þegar tæknin barst til Íslands var
framþróunin orðin ansi ör, sem þýddi að við hér á landi fengum yfir
okkur súpu af nýjum orðum og hugtökum sem þurfti að þýða og
meðtaka öll í einu. Þetta ásamt fleiru leiddi til þess að Windows 98 varð
ekki vinsælt, enda einnig í harðri samkeppni við Windows 97 sem að
flestra mati var stöðugra og þægilegra í notkun og umfram allt á ensku.
Taka skal fram að þýðingar tölvutengdra orða yfir á íslensku hófust
fljótlega eftir að tölvutæknin fór að ryðja sér til rúms úti í hinum stóra
heimi. Það var þó einungis afmarkaður hópur hér á landi sem þekkti vel
til hennar. Það var því ekki fyrr en einkatölvurnar urðu almenningseign á
Íslandi sem fólk fór raunverulega að kynnast þeim flókna og fjölbreytta
heimi sem tengdist tölvum og upplýsingatækni. Stýrikerfin voru svo
auðvitað á ensku og var því það sem fólk vandist.
ORRUSTAN TAPAÐIST EN STRÍÐIÐ GETUR
UNNIST
Hafandi sagt þetta þá vil ég samt ekki meina að baráttan sé töpuð. Ég
hef t.d. tekið eftir því að mér finnast mörg þeirra orða sem við sáum í
Windows 98 bara alls ekkert svo slæm í dag. Þökk sé ötulu fólki, sem
ekki lét deigan síga og lagði metnað sinn við að nota íslensku orðin sem
til eru, þá hef ég vanist þeim mörgum. Eins er margt að snúa aftur, t.d.
í valmyndum snjallsíma, Office, Chrome, Google og Facebook svo
eitthvað sé nefnt og kemur því ekki lengur jafnspánskt fyrir sjónir.
Ég hef þó alveg mátt gæta mín á að verða ekki löt. Ég reyni að grípa
frekar til íslenska orðsins heldur en að sletta á ensku, en það er ekki
alltaf auðvelt. Ég játa það að stundum er slettan auðveldari og ég
freistast til að nota hana. Sérstaklega líka þegar ég er í þannig félagsskap
að ég telji fólk einfaldlega ekki skilja íslenska hugtakið.
Ég skrifa hins vegar ekki sletturnar, eða reyni a.m.k. að gera það ekki.
Ég veit ekki hversu oft ég hef staðið sjálfa mig að því að demba inn
HVENÆR VERÐUR HIÐ
ILLSKILJANLEGA
AUÐMELTANLEGT?
Heiða Dögg Jónsdóttir, tölvunarfræðingur hjá TM Software