Tölvumál - 01.01.2016, Síða 20
20
Tölvueign íslenskra heimila eykst með ári hverju auk þess sem netnotkun
Íslendinga færist sífellt í vöxt. Alls 97% þjóðarinnar notar netið reglulega
sem er Evrópumet en meðaltalið er 75% í löndum Evrópusambandsins
(Tölvu og netnotkun á Íslandi og í öðrum Evrópulöndum 2014, 2015).
Það er deginum ljósara að upplýsingatækni hefur sífellt meiri áhrif á
íslensku þjóðina og þá ekki síst á íslenskt mál og málnotkun. Ómálga
smábörn leika sér í smáforritum og börn kanna ævintýraheim
veraldarvefsins áður en þau læra að reima skóna sína. Það er því ekki
að undra að spjaldtölvuvæðing íslenskra grunnskóla hefur verið ofarlega
á baugi undanfarin misseri. Langstærstur hluti þess efnis sem við
nálgumst í gegnum tölvur og tækni er á ensku og leiðir það til töluverðar
samkeppni ensku og íslensku í hinu hversdagslega málumhverfi okkar.
Skoðanir eru vissulega skiptar, sumir óttast þessa þróun en aðrir fagna
þeirri hagnýtingu og framþróun sem fylgir upplýsingatækni. Vissulega er
margt gott um hana að segja en hún er líka tvíeggjað sverð, þá fyrst og
fremst hvað varðar íslenska tungu, og því er nauðsynlegt að hafa varann
á. Sumir líta reyndar svo á að íslenskan sé nú þegar svo lítið og
veikbyggt tungumál að það séu óumflýjanleg örlög hennar að lúta í
lægra haldi fyrir enskunni. Það hefur hins vegar verið sýnt fram á að í
raun er það ekki stærð tungumáls sem skiptir meginmáli þegar litið er til
lífslíkna þess. Virðing þjóðarinnar fyrir málinu og sú rækt sem lögð er við
það ræður helst úrslitum í varðveislu sérhvers tungumáls. Með öðrum
orðum, „ef móðurmálið er notað á öllum sviðum daglegs líf, [og] það á
bæði vandað rit og talmál, stendur því engin hætta af utanaðkomandi
málum þótt sterk séu.“ (Guðrún Kvaran, 2008) Við þurfum því í raun
ekki að óttast tæknina eða áhrif hennar heldur aðeins að gæta þess að
standa vörð um íslenska tungu í gegnum þennan stríða straum
breytinga samhliða því að snúa vörn í sókn og tryggja stöðu íslenskunnar
innan upplýsingatækninnar. Tæknin er komin til að vera en við getum til
dæmis ekki boðið íslenskum grunnskólabörnum upp á enskt
málumhverfi í skyldunámi sínu. Því er mikilvægt að leggja áherslu á
hentugan íslenskan hugbúnað og okkar sterkasta vopn, íslenska
máltækni.
Máltækni (e. language technology) felur í sér samvinnu tölvutækni og
tungumála. Hún miðar fyrst og fremst að því að þróa búnað sem getur
bæði skilið og unnið með tungumál. Tilgangurinn er tvenns konar og
felst annars vegar í því, sem hér skiptir mestu máli, að hagnýta tækni í
þágu tungumála og hins vegar í notkun tungumálsins í þágu tækninnar
(Eiríkur Rögnvaldsson, 2014). Íslensk máltækni stendur ekki vel að vígi
þrátt fyrir að talsvert hafi áunnist frá aldamótunum. Samkvæmt skýrslu
METANET (Eiríkur Rögnvaldsson, Kristín M. Jóhannesdóttir, Sigrún
Helgadóttir og Steinþór Steingrímsson, 2012) um stöðu evrópskra
tungumála í hinum stafræna heimi stendur íslensk tunga verulega
höllum fæti. Til að unnt sé að tryggja framtíð hennar er mikið starf
óunnið. Hvað varðar grundvallarbúnað og málföng mætti segja að
staðan sé nokkuð ásættanleg, t.d. hvað varðar textagreiningu og
málheildir. Hið sama er þó ekki hægt að segja um flóknari svið en ekki
er til háþróaður máltæknibúnaður og málföng fyrir íslensku (Eiríkur
Rögnvaldsson o.fl., 2012).
Grundvöllur þess að íslenskir málnotendur geti notað íslenska tungu á
öllum sviðum daglegs lífs er að allur almennur hugbúnaður sé tiltækur á
íslensku. Hér má nefna þýðingaforrit, leiðréttingarhugbúnað og að hægt
sé að tala við tölvustýrð tæki á íslensku. Auk þess er mikilvægt að
málnotendur hafi aðgang að hugbúnaði sem getur leitað í gagna og
textasöfnum og unnið úr þeim flóknar upplýsingar (Eiríkur Rögnvaldsson,
2014). Tæknin spilar sífellt stærri hluta í lífi landsmanna og ljóst er að í
náinni framtíð munu talandi, tölvustýrð tæki verða sífellt fyrirferðameiri
og þá liggur ekki ljóst fyrir hvað verður ef við þurfum að tala við þau á
ensku.
Þó virðast ýmsar blikur vera á lofti og má meðal annars nefna að
síðastliðið haust fékk Google til liðs við sig tuttugu íslenska sjálfboðaliða
til að vinna með fyrirtækinu í íslenskri máltækni. Markmiðið er að mynda
tvær íslenskar raddir, kvenmanns og karlmannsrödd, svo leitarvélin
geti talað við notendur. Þetta gæti komið til með að verða einkar
þýðingarmikið í kennslu, ekki síst fyrir þá sem læra íslensku sem annað
mál (Sigríður Hagalín, 2015). En betur má ef duga skal og líkt og hér
hefur komið fram er staða íslenskrar máltækni heldur bágborin. Það eru
grundvallarmannréttindi íslenskra málnotenda að geta notað íslenska
tungu á öllum sviðum daglegs lífs, og sér í lagi þegar um grunnskólabörn
í skyldunámi er að ræða. Ef við viljum að íslensk tunga haldi velli í
komandi framtíð má ekki sofna ekki á verðinum og efla þarf þróun
íslenskrar máltækni verulega. Ráðamenn þjóðarinnar mega ekki sofa
fljótandi að feigðarósi heldur verður að leggja fjármagn í íslenska
máltækni og það strax. Okkur þykir ljóst að ef ekkert verður að gert sé
íslenskri tungu voðinn vís.
MIKILVÆGI
MÁLTÆKNI:
AF FRAMTÍÐ
ÍSLENSKRAR
TUNGU
Steinunn Valbjörnsdóttir, Tinna Frímann Jökulsdóttir og
Þorgerður Edda Eiríksdóttir