Víðförli - 01.11.2004, Qupperneq 16
16
VÍÐFÖRLI
23. ÁRG. 3. TBL.
Starfshópur um fjölskyldu,
hjónaband og kynlíf
Ein af ákvörðunum stjórnar Lútherska heimssambands-
ins á fundi hennar í Genf í haust var að setja á laggirnar
starfshóp um fjölskyldu, hjónaband og kynlíf (Task Force
on Family, Marriage and Sexuality). Af hálfu stjórnarinnar
situr sr. Kristín Þórunn Tómasdóttir í starfshópnum og á
hún að leiða vinnu starfshópsins. Víðförli vildi forvitnast
nánar um málið og tók Kristínu Þórunni tali:
Hvers vegna er þörf á starfshóp um þetta málefni?
Það er vegna þess að málefni sem tengjast fjölskyldulífi,
sambúð og kynferði, eru í auknum mæli til umfjöllunar í
lútherskum kirkjum um heim allan. Þessi mikla og oft
stormasama umfjöllun virðist að vissu leyti eiga rætur sín-
ar í breyttum kynjahlutverkum og auknum sýnileika sam-
kynhneigðra í kirkjunum. Flvoru tveggja veldur togstreitu
og deilum um atriði sem oft hafa verið álitin sjálfsögð og
einföld. Hugmyndir okkar um hjónaband karls og konu
hafa til að mynda breyst og ótal gerðir af fjölskyldum sem
finnast í samfélögum okkar eru sífelld hvatning til að styðja
við og hlúa að fjölskyldum í hvaða mynd sem þær eru.
Hverjir sitja í starfshópinum?
í honum sitja átta einstaklingar alls staðar að úr heimin-
um. Sjö koma að málum vegna sérþekkingu sinnar á mál-
efnunum og áttundi er fulltrúi stjórnar LH í starfshópnum,
og leiðir hann vinnuna sem starfshópnum er ætlað að inna
af hendi. Auk mín, en ég er þessi fulltrúi stjórnarinnar, sitja
í starfshópnum dr. Ken Rhin Þang frá Malasíu, prófessor
Otieno Mallo frá Keníu, sr. Manuela Tokatli frá Austurríki,
Mindaugas Sabutis biskup frá Litháen, prófessor Jan Olav
Henriksen frá Noregi, Kristin Anderson-Ostram lögfræð-
ingur frá Bandaríkjunum og dr. Lothar Carlos Hoch frá
Brasilíu.
Þetta fólk kemur sem fulltrúar síns svæðis, tilnefnt af að-
ildarkirkjunum og kosið af stjórn Ih.
Hvað á svo starfshópurinn að gera?
í erindisbréfi starfshópsins er tekið fram að vinnan eigi
að miða að því að aðstoða stjórn Ih við að fjalla á upplýst-
an og nærgætinn hátt um þessi málefni. Það á að gerast
með því að safna saman og fara yfir efni og afstöðu ein-
stakra kirkna á þessu sviði, flokka og bera saman, í þeim
tilgangi að draga fram hvar mismunandi skilning á við-
fangsefninu er að finna. Vinnan á að taka mið af biblíuleg-
um, guðfræðilegum, sögulegum og siðfræðilegum for-
sendum sem kirkjan byggir umfjöllun sína um ofangreind
efni á. Einnig á hún að draga fram hvernig hægt er að
bregðast við þegar ólíkar nálganir og niðurstöður um mál-
efni fjölskyldna, hjónabands og kynlífs fara að hafa áhrif á
einingu kirkjunnar. Stefnt er að því að starfshópurinn skili
niðurstöðum sínum til stjórnar Lútherska heimssambands-
ins eftir tvö ár.
Hvers er þá ætlast til af aðildarkirkjunum?
í bréfi sem nýverið var sent til aðildarkirkna Lútherska
heimssambandsins er vinnuferli starfshópsins útskýrt og
kirkjurnar beðnar um að senda til Genfar, á skrifstofu Lúth-
erska heimssambandsins, allt það efni sem þær hafa unn-
ið með og sent frá sér, og þær telja að gagnist í þeirri vinnu
sem nú er að fara af stað. Auðvitað er afar misjafnt hvað
og hvernig kirkjurnar hafa fjallað um í þessu samhengi, t.d.
um málefni samkynhneigðra. Þess vegna er það látið
kirkjunum sjálfum eftir að senda inn það sem þær telja að
eigi erindi í umræðuna, frekar en að biðja um eitthvert til-
tekið efni. Það sem kirkjurnar vilja að tekið sé með í vinnu-
ferlið, þarf að vera komið til Genfar ekki seinna en 20. des-
ember núna í ár.
Á starfshópurinn að skera úr um hvernig lútherskar kirkj-
ur fjalla um málefni samkynhneigðra?
Forseti Lútherska heimssambandsins, Mark Hanson
biskup evangelísk-lúthersku kirkjunnar í Bandaríkjunum,
tók það skýrt fram þegar starfshópurinn var skipaður, að
hlutverk hans sé ekki að skera úr um hvernig lútherskar
kirkjur eigi að haga sér þegar kemur að málefnum fjöl-
skyldu, hjónabands og kynlífs. Hlutverk starfshópsins er
að undirbúa og aðstoða hið alþjóðlega, lútherska samfélag
innan LH að ræða þessi mál, þannig að ólíkar nálganir og
sýn á fjölskyldur, hjónaband og kynlíf, valdi ekki þeim
klofningi sem núverandi titringur í kringum þessi mál gefur
okkur tilefni til að hafa áhyggjur af. Það er aukinheldur
bjargföst trú okkar sem að þessum málum koma að sam-
tal og skilningur á aðstæðum náungans hjálpi til við að
brjóta niður múra sem okkur hættir til að reisa í kringum
okkur í ótta og fordómum út í hvert annað.
Er eitthvað að gerast í þessum málum í íslensku þjóð-
kirkjunni?
Hér eru þessi mál ofarlega á baugi, eins og í svo mörg-
um öðrum kirkjum, lútherskum og öðrum. Mikil umræða
hefur átt sér stað um málefni samkynhneigðra innan þjóð-
kirkjunnar, sérstaklega hvað varðar möguleika þeirra til
kirkjulegrar athafnar í kringum sambúðarstofnun. Þá hefur
Biskup íslands nýlega skipað starfshóp sem á að huga að
málefnum samkynhneigðra innan þjóðkirkjunnar. Ekki má
svo gleyma ýmiskonar fræðsluefni um fjölskylduna og fyr-
ir fjölskylduna, sem kirkjan vinnur og gefur út. Fjölskyldu-
starf kirkjunnar á sér ekki síst stað á vettvangi sóknarinnar,
í sálgæslu prestanna, viðtölum og fræðslustarfi sem þar er
unnið.