Tónamál - 01.02.1977, Blaðsíða 23
Svívirðing við stéttina
segja þeir í Alfa Betu um starf umboðsmanna.
Ágúst Atlason genginn í hljómsveitina
Ágúst Atlason, sem kunnastur er fyrir söng sinn
með Ríó Tríóinu, hefur gengið til liðs við hljómsveit-
ina Alfa Betu - og kemur hann í stað Atla Viðars
Jónssonar, sem lét af störfum í hljómsveitinni nú um
áramótin. Ágúst mun leika á bassa í Alfa Betu, en á
það hljóðfæri lék hann meðan hann var í hljómsveit
Ólafs Gauks fyrir nokkrum árum.
— Ég byrjaði að leika á bassa með Ólafi Gauk,
sagði Ágúst, er Nú-tíminn hitti þá félaga í Alfa Betu
að máli í vikunni, og hafði ekki snert fyrr á þessu
hljóðfæri. Mér finnst ánægjulegt að vera kominn í
hljómsveit aftur, og það er gott að vera með annan
fótinn í þessu, sagði Ágúst, en þeir félagarnir í Alfa
Betu, Guðmundur Haukur, Halldór og Ágúst, vinna
allir með spilamennskunni.
Þeir félagarnir sögðust hafa gefið sér það nýárslof-
orð að verða betri og stéttvísari menn á þessu ári -
og bað Nútíminn um frekari skýringar á þessu loforði.
•—■ Það sem við eigum við með þessu er það stétt-
vísa fyrirbrigði, að segja skilið við umboðsmenn á
þeim grundvelli, sem þeir bjóða okkur. Okkur finnst
það fáránlegt, að menn geti setið einhvers staðar úti
í bæ og beðið eftir að menn hringi í þá og biðji um
TÓNAMÁL
hljómsveit. Síðan hringja umboðsmenn í hljómsveitar-
menn og bjóða þeim starf gegn því að fá 10% af
þeirra launum. Þetta er hrein svívirðing við stéttina.
Við litum á þetta sem atvinnumiðlun í ábataskyni, og
teljum að þetta sé ólöglegt fyrirbrigði samkvæmt
landslögum.
Strákarnir sögðu, að þessir svonefndu umboðsmenn
væru ekki umboðsmenn þeirra, því þeir hefðu ekki
hagsmuni hljómlistarmanna eða tónlistar í huga, held-
ur væri hér um að ræða starf, sem væri unnið fyrst og
fremst í ábataskyni.
Þeir kváðu eðlilegt, að forráðamenn samkomuhúsa
og þeir sem ráða vildu hljómsveit á dansleik, hefðu
beint samband við stéttarfélag hljómlistarmanna, þ. e.
Félag ísl. hljómlistarmanna, sem veitti þessa þjónustu
ókeypis.
— Sú staða getur komið upp, að hljómsveit vilji
ráða til sín mann til þess að vinna eitthvað ákveðið
verkefni, s. s. hljómleikaferð, útihljómleika, og slíkur
maður getur kallast umboðsmaður hljómsveitarinnar.
Hins vegar fordæmum við þessa umboðsmennsku,
sem er við líði í dag.
Þótt mannabreytingar hafi átt sér stað í Alfa Betu,
segja þeir félagar, að þeir muni áfram hafa það að
leiðarljósi að leika skemmtilega tónlist fyrir skemmti-
legt fólk.
Gsal.
P. S. Grein þessi er birt með Ieyfi Nútímans, en hann er hluti
af dagblaðinu TÍMINN.
23