Hinsegin dagar í Reykjavík - 01.08.2003, Qupperneq 27
GOMUL GULLKORN
f gamla bænum f Barcelona má finna
veitingastað þar sem salernin eru
merkt „gordos" og „flacos", eða feitir
og mjóir. Ekki það að ég sé ginnkeypt-
ur fyrir því að skipta mannkyninu upp í
feita og mjóa þó að vissulega geti það
verið nærtækt á matsölustað. Það er
aftur á móti hressandi að standa frammi
fyrir svona óvenjulegum valkosti þegar
sinna skal jafn venjubundinni athöfn
og að ganga örna sinna.
Hm, feitir og mjóir. Allt í einu skiptir
ekki máli hvoru kyninu maður tilheyrir
heldur fer valið á salerni eftir sjálfs-
mynd hvers og eins. Grindhoraður
maður getur til dæmis skemmt sér við
að fara á salernið sem merkt er feitum.
Feitur maður getur Ifka ímyndað sér
sem snöggvast að hann sé tággrannur
og skellt sér á mjóa básinn. Þeir
þybbnu geta tvístigið og svo kann að
vera viss léttir fyrir suma að sjá að gert
er ráð fyrir þeim, að þeir eru ekki út-
skúfaðir.
Þó að greina megi ýmsar hættur í
þessari skiptingu eins og annarri tví-
skiptingu var ólýsanlegur léttir fyrir
Norðurlandabúa að losna undan blý-
þungu kynhlutverkinu sem snöggvast.
Regnbogans litir
Þau eru ekki mörg augnablikin í lífinu
sem maður losnar af klafa kynsins,
hvað þá kynhneigðarinnar. Vitundin
um þessa eðliseiginleika hvílir á manni
alla daga með tilheyrandi kvöðum og
kröfum. Karnívalstemmningin sem
ríkti í Gleðigöngu homma og lesbía í
sumar veitti hins vegar kærkomið tæki-
færi til að gerast svolítill umskiptingur,
þó ekki væri nema nokkur augnablik í
senn. Maður gat keypt sér regnboga-
fána homma og lesbía og stungið sér
inn í gönguna hér og þar. Maður gat
þrammað með leðurbuxnahomm-
unum svolítinn spöl. Maður gat farið í
dragg og gerst austurlensk dansmey.
Og svo gat maður hoppað út úr röð-
inni hvenær sem var og gerst áhorfandi,
lagt blessun sína yfir þann allsherjar
kynusla sem þarna fór fram. Eina
dagstund fóru öll hefðbundin viðmið á
usl og busl, enginn gat verið viss um
kynhneigð neins.
Ó, sú náð, ó, sá léttir!
Draumsýn um samkennd
Það væri stundum gott að geta gleymt
því hvers kyns maður er og þá ekki
síður hver kynhneigð manns er og
verið bara manneskja. Það er líklega til
of mikils mælst, að minnsta kosti til
lengdar, en til vara væri gott að geta
gert þá kröfu að vera ekki kerfisbund-
ið minntur á hvers kyns maður er. Það
má til dæmis spyrja hvort átak eins og
Auður I krafti kvenna, sem stendur
meðal annars fyrir því að mismuna
drengjum og stúlkum með því að taka
stúlkurnar með í vinnuna en skilja
drengina eftir heima, hafi tilætluð
áhrif, hvort það stuðli ekki fremur að
því að árétta kynjaskiptinguna, auk
þess sem það getur vakið gremju
foreldra, ekki síst þeirra sem eiga ein-
ungis drengi, svo ekki sé nú talað um
aðstöðu þeirra sem eiga tvíbura, hvorn
af sínu kyni. Þarna er athygli barnanna
sérstaklega beint að því hvers kyns
þau eru og að jafnt skuli ekki yfir þau
ganga enda sé annað kynið hálffatlað.
Börnin læra fljótt að haga sér í sam-
ræmi við það.
Væri ekki nær að drepa þessari
hvimleiðu tvíhyggju á dreif og demba
sér í karnivalíska gleðigöngu, leyfa
öllum að vera það sem þeir vilja vera,
enginn amist við því þó að kona dragi
dám af karli eða karl af konu, nú eða
einhverju þar á milli, fólk sé bara eins
og það er, hafið yfir flokkanir. Hvað er
svona merkilegt við kyn okkar og kyn-
hneigð? Við erum öll af öðru hvoru
kyninu og hneigjumst öll hvert að
öðru á einhvern hátt svo varla getur
það verið tiltökumál þegar upp er
staðið; stórmerkilegt að nokkrum skuli
detta í hug að taka mið af þvíumlíku
við gerð kostnaðaráætlana og ráðn-
ingarsamninga.
Upphaflega birt í DV 5. september 2002.
Umburðarlyndi - nei takk!
„Á erfiðum tímum er fátt eins hættulegt
þeim sem eiga undir högg að sækja og
lítilþægnin. Þá er skammt í það að menn fari
að rugla saman hugtökunum umburðarlyndi
og frelsi. Má ég sem hommi afþakka þetta
blessaða umburðarlyndi. Svo kann að virðast
sem það feli í sér nokkra viðurkenningu. En í
afstöðu umburðarlyndisins er alltaf dulinn
fyrirvari: Það er allt í lagi með ykkur... en ...
en. Þess háttar viðurkenning vísar enga leið
til frelsisins og reynslan sýnir að umburðar-
lyndið gildir aðeins meðan við þegjum og
læðumst með veggjum. Það sést best að um
svikalogn er að ræða þegar við hommar og
lesbíur tökum til máls og leitum sjálfsagðra
mannréttinda. Þá rísa varðmenn ríkjandi
ástands upp og reiða til höggs."
Þorvaldur Kristinsson i Þjóðviljanum 1986
Ég er ekki að básúna neitt
„Það er fullt af hommum úti í bæ sem hafa
hvorki sagt einum né neinum frá því að þeir
séu hommar. Og i rauninni kemur engum
það við. Kynhneigð þín á að vera þitt einka-
mál og ég skil ekkert í sjálfum mér að vera að
blaðra um þetta við þig. En ef það verður til
þess að sumt fólk þarf ekki að þykjast vera
eitthvað annað en það er alla sína ævi þá er
mér nákvæmlega sama þótt ég segi til mín,
að minnsta kosti. Mér finnst nákvæmlega
ekkert rangt við það. Ég kom ekki bara úr
felum eins og hendi væri veifað, 27. júní eða
eitthvað i þá áttina. Ég sneri vissulega við
blaðinu og fór að segja fólki frá þessu ein-
göngu vegna þess að það spurði. Ég hef ekki
verið að básúna neitt um samkynhneigð
mína."
Páll Óskar Hjálmtýsson í Mannlifi 1991
Siðareglur á Moulin Rouge
„Hvað er svo að gerast á Mulinni Rúst? Á
venjulegu kvöldi ber íslensku kjarnafjölskyld-
una auðvitað hæst, það eru gestirnir sem
kallaðir eru „sama fólkið". Þótt nokkur daga-
munur sé á, er gamla ættarmótsstemningin
oft ríkjandi nokkuð fram eftir kvöldi. Allir
þekkjast en vilja ekki endilega hittast, og
heilsast því samkvæmt afar flóknum en
ákveðnum siðareglum. Sumum eiga allir að
heilsa og sumir eiga að heilsa öllum og allt
þar á milli; sumir eiga eiginlega ekki að heilsa
neinum en heilsa öllum tvisvar og það er líka
orðin hefð."
Veturliði Guðnason í Sjónarhorni 1992