Árbók Hins íslenzka fornleifafélags - 2014, Blaðsíða 55
ÁRBÓK FORNLEIFAFÉLAGSINS54
Samanburðarefni
Þó nokkrir silfurpeningar slegnir fyrir Aðalráð ráðlausa hafa fundist á
Íslandi. Einn þeirra, sem var sendur til Kaupmannahafnar árið 1842,
fannst í Flagbjarnarholti í Landmannahreppi í Rangárvallasýslu,13 og flestir
engilsaxnesku peninganna 172 (tveir eru núna týndir) í silfursjóðnum frá
Gaulverjabæ voru einnig slegnir fyrir Aðalráð konung.14 Þeir peningar í
sjóðnum sem líkjast mest peningnum frá Bjarnastöðum eru þeir sem Kristján
Eldjárn hefur gefið númerin 148 og 149.15
Þó að sjá megi að margir peninganna sem hafa varðveist á Íslandi
hafi verið notaðir í kingu stað, þar með taldir nokkrir sem á eru göt
í Gaulverjabæjarsjóðnum,16 hefur aðeins einn annar varðveist (einnig
engilsaxneskur) þar sem lykkjan er enn áföst. Þetta er lausafundur frá
Valþjófsstöðum í Fljótsdal (Þjms. 10941), sleginn fyrir Játvarð helga (Edward
the Confessor) Englakonungi (1042-1066).17 Í lykkjunni er hringur sem er
riflaður þvert á.
Peningar af ýmsum gerðum notaðir sem kingur eru vel þekktir í
Skandinavíu, flestir frá Gotlandi undan strönd Svíþjóðar þar sem þeir hafa
fundist í kirkjugörðum frá elleftu og tólftu öld.18 Nokkrir hafa einnig fundist
uppi á landi í Svíþjóð, í víkingaaldargrafreitnum í Birka,19 en sumir þeirra
höfðu verið festir á hálsfestar með perlum og silfri.20
Í rannsókn sem gerð var í Svíþjóð21 er hugleitt af hverju fólk bar peninga
í kingu stað. Niðurstaðan er sú að eðalmálmurinn og krossinn, sem kristið
tákn, hafi verið nógu góð ástæða til að bera þessa peninga sem skraut. Mynt
var ekki notuð sem gjaldmiðill í Skandinavíu á þessum tíma. Þegar hún var
notuð sem gjaldmiðill var það silfurinnihaldið og þyngdin sem skipti máli.22
Sænska rannsóknin sýndi að peningar frá víkingaöld sem voru notaðir sem
kingur finnast aðallega í gröfum kvenna og í silfursjóðum. Rannsóknin virðist
sýna fram á að kingur með peningum hafi verið gerðar heima á bæjum,
ekki endilega af vönum smiðum, og að til þess hafi tiltækir peningar verið
notaðir. Þetta hafi sem sagt verið fljótleg og auðveld leið til þess að gleðja
13 Kristján Eldjárn 2000, bls. 423.
14 Kristján Eldjárn 2000, bls. 424; Anton Holt 2005, bls. 220.
15 Kristján Eldjárn 1948, bls. 50.
16 Anton Holt 2005, bls. 219.
17 Kristján Eldjárn 2000, bls. 385.
18 Thunmark-Nylén 1995, bls. 184.
19 Arwidsson 1989.
20 Graham-Campbell 1980, bls. 29.
21 Eriksson 2002.
22 Malmer 1968, bls. 12-13.