Vinnan


Vinnan - 01.08.1948, Blaðsíða 14

Vinnan - 01.08.1948, Blaðsíða 14
Agnar Jóhann heilsaði hlutakonunni með handa- bandi. Síðan fékk hann sér sæti á völtum þrífætlingi við eldhúsborðið. Hvað heitirðu og hvaðan ertu og hverra manna ertu? spurði Þórður eins og þjóðlegur einyrki á íslenzku af- dalakoti. Agnar Jóhann gaf góð og skilmerkileg svör, en dró þó ýmislegt undan viðvíkjandi flakki sínu um landið. En hann gaf það svona í skyn, að hann væri allmjög lærður á bók og leitaði sannleikans. Hér höfum við ekkert með sannleikann að gera í henni Hvalavík, mælti Þórður og saug úr skegginu. Hér er það bara sá guli og svo rollurnar. Þorskurinn er okk- ar sannleikur og á vertíðinni étum við ýsu og graut og hinn tíma ársins graut og saltsoðningu. Hvurn and- skotann eigum við að gera með sannleikann, hah — ég er hræddur um að hann hefði nú lítið að segja í askana. Nýi hásetinn játti því, að ekki lifði maður lengi á einum saman sannleikanum. En það er þó alltaf betra að halda sér við hann, vilji maður vera heiðarlegur borgari, sagði hann, rétt til þess að brúa djúpið er lá á milli hugsjónarinnar og veruleikans. Sannleikann! Þórður hentist upp frá kaffibollanum, þreif tóbakstugguna úr vasanum og stakk henni upp í sig með þjósti: Sagðirðu sannleikann. Ég veit ekki bet- ur en að þeir hafi komizt lengst í þorpi hér, sem frakk- astir hafa verið að ljúga og stela. Ég er nú búinn að eiga part í úthaldi hér í tíu ár, og ég tapa meira og minna á hverju ári, en Gvendur í Tröð setur upp lifr- arbræðslu og stórgræðir á hverju ári. Þú hlýtur að hafa verið allvel efnum búinn, þegar þú byrjaðir, skaut Agnar Jóhann inn í. Nei og aftur nei og himinnei, ég var bláfátækur. Það eru rollurnar sem haldið hafa í mér líftórunni. En nú hrökkva þær upp af úr mæðiveiki og alls konar helvítis pest. Ég sé ekki betur en að ég verði að vera í vega- vinnu allt næsta vor. Vegavinnu! át Agnar Jóhann eftir. Já, ég sagði vegavinnu — ef stjórnarhelvítið svíkur ekki eins og endranær. Hún hefur lofað okkur, sem hýs- um mæðiveikina, pestarvinnu að vori — en það er eins og hún svíki alltaf. Hvernig var það ekki með fisktöku- skipið í fyrra. Það átti að koma, en kom aldrei, svo við urðum að kaupa bíla undir fiskinn til Reykjavíkur — og svo lofa þessir andskotar brimbrjóti fyrir hverjar kosningar. Ég veit ekki betur en að brimið hafi drepið hér sextán fullhrausta karlmenn síðan þeir byrjuðu að lofa og lofa. Nú, það ætti að lofa þeim að fara í einn róður með honum Stjána mínum formanni og lenda síðan í brimi — ég gæti trúað að það yrði fleira en sjórinn sem vætti þá herrana. Er hann nauðsynlegur, þessi brimbrjótur? spurði hásetinn. 154 Að þú skulir spyrja svona, maður, sagði Þórður móðgaður. Brimbrjóturinn er okkur bara lífsnauðsyn- legur. Það getur verið blæjalogn en haugabrim, svo ekki sjái út úr því, og þá verða menn að liggja í landi þótt mokafli sé úti fyrir. En ef brimbrj óturinn væri kominn, væri alltaf hægt að róa nema í aftökum. Þeir segja, að hann muni kosta um þrjú hundruð þúsundir — en það eru bara engir peningar til, segja þeir, og því eins er nú þetta mikla atvinnuleysi um allar jarðir: það er ekkert til að borga með. Já, þvílíkur andskoti, og Þórður blés inæðinni. En það eru nú samt komnar einar fimmtíu þúsundir í brimbrjótssjóðinn — þeir hafa fleygt í hann nokkrum krónum í hvert sinn sem bátur hefur farizt. Hlutakonan hellti í þriðja bollann hjá hásetanum, og gaf honum undir fótinn um leið. Hann roðnaði og fann blóð sitt ólga af löngun eftir kvenlegri blíðu. Það var líka langt síðan síðast. Þá var það rauðhærð bóndadóttir með mjólkurhvít læri -— í rómantísku landslagi. Hann mundi það svo vel. Það var vor og ilmur gróandans hafði örvandi áhrif og friður ungrar nætur veitti þeim öryggi. Hér var ekkert slíkt, og Magga hafði ljóst hár en ekki rautt, en hann sá á baksvip hennar, að hún var ástleitin. Skyldi hún vera alin upp í „þorpi hér“? I dag þurfum við að umstafla fiski, sagði Þórður. Þú ættir að leggja þig þangað til, ég sé að þú ert þreytt- ur. Hún Magga setur fötin þín við yl á meðan þú sefur. Ég verð sannarlega feginn, mælti hásetinn og dró ýsur. Búðu um hann uppi á kamesinu, Magga mín, bauð Þórður. Ég þarf að fara út og skera hana Höttu, áður en hún olgnast út af sjálf. Þetta er sú önnur síðan á jólaföstu. Við fáum þá vonandi í súpu, sagði hlutakonan glað- hlakkandi. Ég held að ýsan sé nógu andskotans góð í þig. Það er ekki svo mikið sem maður hefur, að manni sé of gott að fá eitthvað fyrir rolluskrokkana. Hver heldurðu að vilji kaupa þessa horskrokka af þér, sagði stúlkan. Láttu mig um það, rýjan mín, sagði húsbóndinn og fékk sér nýja tóbakstuggu. Ég set það í reyk og síðan sel ég Hólsfjallahangikjöt — það er ekkert verra en helvítis skranið, sem þeir eru sí og æ að pranga í okkur með uppsprengdu verði, ég segi bara það. Og með það fór hann, en Magga hlutakona bauð Agnari Jóhanni útgerðarmanni og háseta upp í kamesið. Munið að gjalddagi Vinnunnar var 1. marz sd. VINNAN ♦

x

Vinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vinnan
https://timarit.is/publication/1513

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.