Vinnan


Vinnan - 01.08.1948, Blaðsíða 15

Vinnan - 01.08.1948, Blaðsíða 15
GUÐRÚN GUÐVARÐARDÓTTIR : Stöndum vörð um verkalýðssamtökin Ræða flutt á útifundi verkalýðsfélaganna á Akureyri 1. maí 1948 Barátta verkalýðsins og launastéttanna fyrir tilveru sinni, er baráttan um atvinnu og kaupgjald. Þegar at- vinnan er lítil, er þessi barátta oft ákaflega hörð og erfið, því óttinn við yfirvofandi atvinnuleysi lamar baráttukjark alþýðunar öllu öðru fremur. Meðan verkalýðssamtökin voru veik og lítilsmegnug notuðu atvinnurekendur líka þennan ótta fólksins við atvinnuleysi, til að halda kaupinu niðri, án tillits til þess hvort mögulegt væri að lifa af því eða ekki. Barátta verkalýðssamtakanna er því háð gegn at- vinnuleysi og fyrir atvinnu handa öllum, sem vilja vinna, og fyrir kaupgjaldi, sem geri vinnandi fólki fært, að lifa mannsæmandi lífi af vinnu sinni. Sigurmögu- leikar alþýðunnar í þessari baráttu byggjast fyrst og fremst á styrkleika samtakanna á hverjum tíma, en styrkleikur þeirra er fólginn í einingu þeirra og sam- heldi. Islenzk verkalýðshreyfing er ennþá ung að árum miðað við verkalýðssamtök margra annara landa. En þó saga samtakanna sé ekki löng orðin enn á mælikvarða hins stóra heims er sú saga þó rík af dramatískum við- burðum. Það er saga um sára ósigra en jafnframt um marga glæsilega sigra. í hvert skipti, sem alþýðan hefur beðið ósigur, hafa samtök hennar verið veik og sundr- uð og hún sjálf vill á vegamótum. I hvert skipti, sem hún hefur unnið stóra og þýðingarmikla sigra hafa samtök hennar verið sterk og vel skipulögð og laus við innbyrðis deilur. Reynslan hefur því sýnt okkur það, að fullkomin fagleg eining er nauðsynlegasta skilyrðið fyrir sigur- sælli baráttu. Frjálslyndustu og framsæknustu mönnum alþýðunnar á hverjum tíma, hefur ævinlega verið þetta ljóst og þeir hafa kappkostað að innræta alþýðunni trú á mátt samtakanna, á rétt fólksins til mannsæmandi menningarlífs og síðast en ekki sízt trú á framtíðar- möguleika íslenzku þjóðarinnar. Alþýðan er fjölmennasta stétt þjóðfélagsins og jafn- framt sú stétt, sem reynzt hefur þjóðhollust hvarvetna í heiminum. í síðasta stríði var það alþýðufólk, sem skipaði öndvegissess í frelsishreyfingu Evrópulandanna, og óteljandi eru þær hetjudáðir, sem þetta hungraða, klæðlitla og illa vopnaða fólk drýgði í viðureigninni við vélknúinn her þýzku nazistanna. Það er í alla staði eðlilegt að yfirráðastétt þjóðfé- lagsins sæi sér hag í því að alþýðan væri sem allra fá- fróðust og fátækust, svo henni kæmi ekki til hugar að neitt væri bogið við það þjóðskipulag, þar sem tiltölu- lega fámennur hópur eignamanna safnar auði, en allur fjöldinn hefur aðeins til hnífs og skeiðar. Brautryðj- endur verkalýðshreyfingarinnar gerðu sér það strax Ijóst, að einu möguleikar alþýðunnar til batnandi lífs lágu í því, að allir vinnandi menn og konur mynduðu með sér samtök og legðu alla krafta sína fram í barátt- unni fyrir sameiginlegum hagsmunum. Andstæðingar verkalýðshreyfingarinnar sáu hana vaxa og þróast fyrir fórnfúst frístundastarf beztu manna hennar og kvenna, og skildu að við svo búið mátti ekki standa. En þeir ráku sig tiltölulega fljótt á þá staðreynd, að beinar árás- ir á samtökin í gerfi kauplækkunarherferða og atvinnu- kúgunar gerðu lítið annað að verkum en að þjappa fólk- inu fastar saman um sameiginlegan málstað og styrkja þannig samtökin. Þeir gripu því til þess ráðs, sem bezt hafði gefizt erlendis, að reyna að eyðileggja samtökin innan frá. Með aðstoð flugumanna innan samtakanna, tóku þeir að blása að kolum sundrungar og klofnings og reyndu að nota sér til hins ýtrasta sundurleitar skoð- anir manna á stjórnmálum. Sökum andvaraleysis og reynsluleysis alþýðunnar í verkalýðsmálum, tókst að kljúfa verkalýðsfélögin á nokkrum stöðum, til ómetanlegs tjóns fyrir allan verka- lýð landsins. Þessi sundrung og klofningur varð um árabil hemill á allri hagsmunabaráttu í landinu og olli beinlínis mörgum af stærstu ósigrunum. Verkafólki hér á Akureyri mætti vera þetta niðurlægingartímabil sér- staklega minnistætt, því verkamannafélagið hér var meðal þeirra sem lengst voru klofin. Á síðustu árunum fyrir styrjöldina urðu þær raddir stöðugt háværari sem kröfðust þess, að eitthvað raun- hæft yrði gert, til að aflétta þessu ófremdarástandi, og margir einstaklingar og heil félög lögðu á sig mikið og óeigingjarnt starf í þágu sameiningarmálanna. VINNAN 155

x

Vinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vinnan
https://timarit.is/publication/1513

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.