Börn og menning - 01.04.2009, Blaðsíða 26

Börn og menning - 01.04.2009, Blaðsíða 26
Eflaust hafa fá verk verið sett upp jafn oft í Þjóðleikhúsinu og Kardemommubærinn eftir Thorbjörn Egner en það er nú sett upp í fimmta sinn á tæplega fimmtíu árum og þeir eru því eflaust ófáir foreldrarnir og afarnir og ömmurnar sem eiga góðar minningar sem tengjast þessu verki. Sjálf sá ég þetta verk sem barn og man nú satt best að segja mest lítið eftir því en hinsvegar var hljómplatan með tónlistinni mikið spiluð á mínu heimili og lögin því í fersku minni. Hvers vegna Kardemommubær? Það má spyrja sig að því af hverju verið sé að setja Kardemommubæinn upp aftur og aftur. Það verður auðvitað að segjast eins og er að þetta er nokkuð skothelt val á verkefni, ef svo má að orði komast. Hér er verið að spila á nostalgískar tilfinningar foreldranna, við erum jú einhvern veginn þannig gerð að finnast stundum allt miklu betra sem gert var einu sinni. Sjálf held ég iðulega ræður sem snúast um það hvað allt hafi verið miklu sannara og fegurra þegar ég var barn, þá var nú ekki horft endalaust á sjónvarpið eða farið í tölvuleiki, ónei, þá var sko ekki verið að kaupa neitt Disney-drasl handa börnum og MacDonalds var ekki til og Latibær fjarri góðu gamni. Þá voru börn bara úti að leika sér í brennó og kýló á sumarkvöldum, og lásu þess á milli uppbyggilegar barnabókmenntir og horfðu svo á tékkneskar brúðumyndir í Stundinni okkar einu sinni í viku. Þetta var sko lífið. Eða þannig. Ég velti hinsvegar fyrir mér hvort Kardemommubærinn eigi erindi til barna í dag. Umfjöllunarefni verksins eru að sumu leyti sígild, það er jú alltaf ágætt að benda á að heiðarleiki borgar sig og umburðarlyndi gagnvart þeim sem hafa misstigið sig á lífsleiðinni er ágætis viðhorf líka. En hér eru menn einnig að stela konum til heimilishjálpar og mæra sérstaklega mat sem konur búa til. Hörkutólið Soffía frænka bráðnar eins og smjör þegar ræninginn Kasper er tilnefndur slökkviliðsstjóri í Kardemommubæ og samþykkir að giftast honum án nokkurra málalenginga. Öll verk eru auðvitað börn síns tíma og endurspegla viðhorf samtíma síns en ég er ekki viss um að Kardemommubærinn sé nægilega gott verk til að réttlæta allar þessar yfirhalningar. Það er spurning hvort börn eiga ekki að fá að spegla sig í sínum eigin samtíma í stað þess að upplifa nostalgíu foreldra sinna í sífellu. Ég efast hinsvegar ekki um að skoðanir á þessu séu skiptar. Sykursætur heimur og Ijúfir glæpamenn Sýningin sem er boðið upp á hér er afar skrautleg og litrík. Selma Björnsdóttir leikstýrir henni, Brian Pilkington hannar leikmynd, María Ólafsdóttir hannar búninga og Lárus Björnsson og Ólafur Ágúst Stefánsson sjá um lýsingu. Kardemommubærinn er auðvitað ævintýrabær, þar eru pálmatré innan um litrík húsin, búningarnir eru úr ýmsum áttum, sumir minna á alpana en aðrir hafa spænskt yfirbragð og svo framvegis. Allt er sykursætt og óraunverulegt nema hjá ræningjunum blessuðum, þar er bara allt í drasli eins og hjá okkur mörgum í raunveruleikanum.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.