Börn og menning - 01.04.2009, Blaðsíða 5

Börn og menning - 01.04.2009, Blaðsíða 5
Frá ritstjóra 5 Barnabækur fyrir fullorðna eða fullorðinsbækur fyrir börn? í þessu vorhefti Barna og menningar er að vanda bæði fjallað um nýtt efni og litið til fortíðar. Lengstu greinarnar í blaðinu eru um bækur sem eiga það sameiginlegt að höfða jafnt til barna og fullorðinna. Undanfarin ár hafa margar bækur verið gefnar út sem höfða til ólíkra aldurshópa og menn deila jafnvel um hvort börn séu að lesa fullorðinsbækur eða hvort fullorðnir hafi í auknum mæli snúið sér að lestri barnabóka. Þótt ákveðin bylgja í þessa átt sé talin hafa farið af stað með útkomu fyrstu bókarinnar um Harry Potter er auðvitað ekkert nýtt að börn og fullorðnir njóti sama lesefnis. Blaðamaðurinn Tinni, sem einmitt er fjallað um í þessu blaði, er til dæmis sögupersóna sem áratugum saman hefur höfðað til eldri jafnt sem yngri lesenda og það sama má segja um bækur Tove Jansson um Múmínálfana, Litla Prinsinn eftir Antoine de Saint-Exupéry og sögur Lewis Carroll um stúlkuna Alice, sem á íslensku er oftast kölluð Lísa, en hún datt ofan í kanínuholu og lenti í Undralandi. Þótt þessar bækur séu mjög ólíkar þá eiga þær það sameiginlegt að texta þeirra má lesa með ólíkum hætti, þær má kannski segja byggðar á nokkrum hæðum. Hvað Lísu í Undralandi varðar þá lesa þeir sem hafa velt fyrir sér rökfræði, heyra vængjaþyt stærðfræðinnar eða kunna að tefla skék, bækurnar örugglega töluvert öðruvísi en þeir sem ekki eru innvígðir f fyrrnefnda heima. Börn lesa sögu Lísu líklega aðallega sem skemmtilegt ævintýri um furðudýr og einkennilegt fólk en þróunarlíffræðingar nota dæmi úr bókinni gjarnan til að útskýra hvernig stofnar tegunda þurfa að þróast til að halda í við síbreytilegt umhverfið. Þá er vísað í kafla í Through the Looking Glass, seinni bókinni um Lísu, þar sem Rauða drottningin og Lísa þurfa að hlaupa til að standa í stað í umhverfi sem er á fleygiferð. Þess má til gamans geta að sagan um Lfsu í Undralandi kom fyrst út árið 1865. Af þeirri útgáfu eru enn til tuttugu og tvö eintök. Fyrir nokkrum árum var eitt þessara eintaka selt á uppboði fyrir 1,5 milljónir bandaríkjadala, sem miðað við núgildandi gengi eru 180 milljónir íslenskra króna. Það er áreiðanlega hæsta verð sem nokkurntíma hefur verið greitt fyrir barnabók. Myndin á kápu þessa eintaks af Börnum og menningu er úr gamalli útgáfu á Alice's Adventures in Wonderland eftir Lewis Carroll og er hún eftir Sir John Tenniel. Þórdís Gísladóttir ritstjóri

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.