Börn og menning - 01.04.2014, Qupperneq 35
Eldar kveiktir í Gerðubergi
35
fyndnar og skemmtilegar barnabækur. Þetta
hefði síðan orðið að kröfu sem hún hefði
á endanum orðið þreytt á að uppfylla og
þess vegna hefði hún snúið sér að því að
skrifa fyrir fullorðna. Hún væri stundum
spurð að því hvort ekki væri miklu erfiðara
að skrifa fullorðinsbækur en barnabækur
en auðvitað væri það mikill misskilningur.
Lítill munur væri á ritstörfunum því þættirnir
væru þeir sömu; sögupersónur, sögusvið og
söguþráður.
Yrsa sagðist hins vegar finna mikinn mun
á áhuga fjölmiðla eftir að hún hefði farið
að skrifa fyrir fullorðna. Það hefði stundum
komið fyrir að tekin voru við hana viðtöl sem
barnabókahöfund en það væri ekkert í líkingu
við það sem nú væri. Líklega endurspeglaði
áhugi fjölmiðla viðhorf almennings, áhuginn
á barnabókum væri ekki almennur. Yrsa
kom líka inn á samskiptin við lesendur og
sagði að börnin væru mjög óvægin. Ef
sagan næði þeim ekki samstundis færu þau
bara að hugsa um eitthvað annað. Börnin
væru hrein og bein og spyrðu krefjandi og
áhugaverðra spurninga. Fullorðnir lesendur
spyrðu hins vegar klassísku spurningarinnar:
„Where do you get your ideas from?" Þeir
ættu það til að gefa óspart hrós en líka að
rífa niður, sérstaklega ef þeir væru undir
áhrifum áfengis. Oft vildu þeir líka gauka
að höfundum alls konar söguefni. Yrsa
lagði ríka áherslu á að góð og breið flóra
barnabóka væri hagsmunamál allra höfunda
og það væri mikilvægt að barnabækurnar
hættu að læðast meðfram veggjum.
Yrsa var spurð að því úr sal hvort hún
gæti hugsað sér að fara að skrifa aftur
barnabækur. Hún svaraði því til að það
kæmi vel til greina. Hún hefði þörf fyrir
að skipta reglulega um bókmenntategund,
hefði fikrað sig frá spennusögum yfir í
hrollvekjur og aldrei væri að vita nema
barnabækurnarfæru aðfreista hennaraftur.
Af bleiku skýi í blákaldan veruleikann
Marta Hlín Magnadóttirog Birgitta Elín Hassell,
stofnendur bókaútgáfunnar Bókabeitunnar
ehf., voru síðastar á mælendaskrá. Þær
fjölluðu um þær áskoranir sem nýgræðingar
í útgáfu unglingabóka standa frammi fyrir,
en eins og titillinn á erindi þeirra gefur til
kynna hefur lendingin úr bleika skýinu verið
allharkaleg. Þær stöllur kynntust í námi
í náms- og kennslufræðum og beindist
áhugi beggja að bókmenntakennslu. 1
rannsóknarvinnu fyrir M.ed.-ritgerðir sínar
komust þær báðar að þeirri niðurstöðu að
besta leiðin til að efla yndislestur barna og
unglinga væri að láta þau hafa spennandi og
skemmtilegar bækur. Annað sem skipti máli
væri að þau hefðu sjálf eitthvað um það að
segja hvað þau læsu sér til ánægju. Val væri
lykilatriði í að efla lestraráhuga og þær teldu
að í vali á bók væri fólgin ákveðin sköpun.
Undirstaða þess að börn og unglingar
geti valið bækur eftir áhugasviði er að
bókaflóran sé mikil að vöxtum og fjölbreytt.
Mörtu og Birgittu fannst sárlega vanta
afþreyingarbækur í flóruna og þær settust
því niður, fullar af eldmóði og hugsjón, og
hófu ritstörf. Árangurinn af þeirri vinnu var
fyrsta bókin í Rökkurhæðaflokknum, sem
þær líta sjálfar á sem lestrarþjálfunarbækur
fyrir stráka og krakka sem lesa lítið. Þær hafa
þá sannfæringu að þarna úti sé hin eina og
sanna bók sem kveiki lestraráhuga hvers og
eins. Þess vegna sé mikilvægt að gefa út
margar og fjölbreyttar bækur.
Með hugsjónina að leiðarljósi stofnuðu
Marta og Birgitta útgáfufyrirtækið
Bókabeituna, þar sem þær eru allt í
öllu; rithöfundar, þýðendur, ritstjórar og
starfsmenn á plani. Þrátt fyrir að þær gegni
öllum þessum störfum án þess að taka fyrir
þau laun er staðan sú að útgáfan stendur
ekki undirsér. Birgitta sýndi ráðstefnugestum
svart á hvítu alla verkþætti sem tilheyra útgáfu
einnar bókar og kostnaðinn sem þeim fylgir.
Blákaldur veruleikinn blasti við; þrátt fyrir
prýðisgóða sölu á Rökkurhæðabókunum
standa tekjurnar ekki undir kostnaðinum.
Einhvern veginn þarf að auka söluna og
áskoranirnar sem þær standa frammi fyrir
eru meðal annars þessar: Hvernig á að
markaðssetja efni sem neytandinn kaupir
ekki sjálfur? Hvernig er hægt að gera lestur
samkeppnishæfa tómstundaiðkun?
Umræðurnar sem fóru i hönd snerust
einkum um þessar áskoranir því það eru ekki
einungis forleggjararnir sem standa frammi
fyrir þeim heldur allir þeir sem vinna við að
efla lestraráhuga barna og unglinga. Þrátt
fyrir góða viðleitni tókst ekki að leiða málin
til lykta á þessari Gerðubergsráðstefnu en
það leyndi sér ekki að umræðurnar kveiktu í
þátttakendum.
Gerðubergsráðstefnan er viðburður
í Reykjavík bókmenntaborg UNESCO. Að
ráðstefnunni standa Rithöfundasamband
íslands, IBBY á íslandi, Skólasafnamiðstöð
Reykjavíkur, Borgarbókasafn Reykjavíkur,
Félag fagfólks á skólasöfnum, Upplýsing -
félag bókasafns- og upplýsingafræða og
Menningarmiðstöðin Gerðuberg.
Guðlaug Richter