Hinsegin dagar í Reykjavík - ágú. 2016, Blaðsíða 56
Alþjóðlegur samkomustaður
Inn af Gyllta sal á neðstu hæð staðarins
var dæmigerður hótelbar, lengi sá eini
í bænum þar til aðrir slíkir barir tóku að
veita honum samkeppni upp úr 1960.
Þess vegna hafði hann þá sérstöðu að
vera einn af fáum stöðum í Reykjavík
sem minntu erlenda gesti á næturlíf
heimsborganna. Veturliði Guðnason kom
fyrst á barinn á Borginni þegar hann var
að vinna í Reykjavík sumarið 1965, þá 19
ára menntaskólanemi vestan af Ísafirði:
„Það merkilegasta við Borgina var
heimsborgarabragurinn á öllu, ferðafólk
úr öllum heimshornum, hermenn
af Vellinum í borgaralegum fötum,
listamenn og listaspírur, ungt, miðaldra
og gamalt fólk, öllu ægði saman á
einhvern heillandi hátt. Allir karlmenn
að sjálfsögðu í jakkafötum og með bindi
og þjónarnir í einkennisbúningum.
Þetta var líkast því að vera staddur á
hótelbar í útlöndum. Barinn á Borginni
var alþjóðlegur samkomustaður eins og
þeir gerast bestir þrátt fyrir málverkið sem
setti sinn svip á staðinn.“
Skálað við sjófuglana
Málverkið sem hér um ræðir var
gríðarstórt og fellt inn í vegginn inn af
barborðinu, Esjan í mildum litum við
sólsetur. Undir henni lónaði fiskiskip og
fremst á myndinni sátu skarfar, mávar og
lundar í flæðarmáli og biðu næsta dags.
Þessi sundurleita fjölskylda myndaði
eins konar þrívídd því hún var máluð á
sérstakan flöt sem elti útlínur fuglanna
og stóð framan við Esjuna og Sundin.
Undir sjófuglunum sat fólk svo í samlyndi
kvöldsins og drakk – og hér drukku
margir stíft. Á barnum voru bara sterkir
drykkir á borðum, bjór var hvergi að
hafa á íslenskum veitingahúsum fyrr en
árið 1989 og létt vín þóttu ekki við hæfi
á þessum tíma kvölds. Allir voru með
long drinks í höndum enda sveif hratt á
mannskapinn og nóttin á barnum talsvert
styttri en nú tíðkast því klukkan hálftólf
var útidyrum lokað og engum hleypt
inn eftir það. Svo stóð gleðskapurinn til
klukkan eitt um nóttina, en klukkutíma
lengur um helgar þegar dansað var í
Gyllta sal. Þaðan bárust kunnuglegar
raddir inn á barinn því þar léku ýmsar
vinsælustu hljómsveitir landsins fyrir
dansi gegnum tíðina og margir af bestu
dægurlagasöngvurum okkar komu
við sögu í salnum. Seint á kvöldi fór
hljómsveitin í sína samningsbundnu pásu
og þegar aftur var tekið til við músíkina
voru flekarnir sem skildu að bar og sal
yfirleitt dregnir frá. En inni á barnum
héldu fastagestir sínu striki.
Hvernig var umhorfs þar árið 1965?
„Auðvitað sá maður strax,“ segir Veturliði,
„að þarna var talsvert um karla í leit að
körlum en samt var sterkur hjónasvipur
yfir staðnum og margt um roskið fólk, á
fimmtugs- og sextugsaldri, að minnsta
kosti fannst manni það þegar maður
var nítján. Nú sér maður varla fólk yfir
fertugu á börum. Okkur strákunum utan
af landi fannst þetta ógurlega skrýtið allt
saman. Ég man að einu sinni horfði ég í
augun á konu með rauða augnskugga og
fjólubláar varir og hugsaði í sakleysi mínu:
Ætli konan sé litblind? Aðra konu man
ég litríka, nýkomna frá Bandaríkjunum
til að leita upprunans. Hún talaði jöfnum
höndum íslensku og ensku og kynnti sig
sem skáld og leikkonu: „I’m an actress on
radio and stage.“ Svona nokkuð fannst
manni ægilega fyndið. Þegar ég fluttist
heim til Íslands eftir nám í útlöndum
árið 1974 og kom aftur á Borgina var
hjónafílingurinn að mestu horfinn og
yngra fólk fyllti staðinn, nýir leikarar á
vettvangi en sviðsmyndin sú sama.“
Worth visiting
Það var haustið 1971 að Jón Þorsteinsson
rataði í fyrsta sinn á barinn á Borginni, rétt
að verða tvítugur, nýfluttur til Reykjavíkur
norðan úr landi og orðinn starfsmaður á
sjúkrahúsi: „Þá þegar átti ég mér dálitla
reynslu með öðrum karlmönnum, hafði
líka verið skiptinemi í Bandaríkjunum
það sögulega ár 1969 og vissi alveg hvað
ég vildi. Þegar í bæinn kom fór ég strax
að leita að mínum líkum og fann þá í
Klúbbnum við Borgartún og á Óðali við
Austurvöll, en betra var að finna sér stráka
í Glaumbæ við Fríkirkjuna því staðurinn
var stór og meiri friður til að nálgast
sína líka. Oftast fór ég þó á Borgina um
helgar og þar fann ég mitt tengslanet
og kynntist mörgum. Sumir urðu góðir
kunningjar, aðrir vinir til lífstíðar en ég
man líka eftir mörgum sem ég kynntist
aldrei. Oft var margt um manninn og
hommarnir stundum allt að helmingur
gestanna sem töldu 100–150 á kvöldi.
Langflestir þessara manna lifðu mjög
aktífu kynlífi og þeir urðu á sinn hátt
bjargvættir mínir í lífinu. Með þeim lærði
ég að þekkja sjálfan mig.“
Jón minnist ekki bara Íslendinga
á barnum, heldur líka homma í hópi
útlendinga, enda ekki fyrir tilviljun að þeir
rötuðu þangað. Í Spartacus International
Gay Guide, ferðabiblíu homma, voru tveir
staðir í Reykjavík sagðir „worth visiting“
á áttunda áratug aldarinnar, Sundlaug
Vesturbæjar og Hótel Borg, „the rear bar“.
Brátt var Jón orðinn fastagestur á Borginni
en þurfti stundum að gera ráðstafanir til
að komast inn. „Ég vann oft vaktavinnu til
miðnættis og þá hringdi maður niður eftir
og sagðist ekki koma fyrr en eftir lokun.
Því var tekið af skilningi og mér hleypt
inn um bakdyrnar refjalaust. Yfirleitt var
það fyrir orð kvennanna í fatahenginu því
að þær reyndust okkur hommunum vel
að ógleymdri henni Hjördísi á barnum.
Allar urðu þær vinkonur okkar. Ég man
eina í fatahenginu sem alltaf gekk með
hárkollu, dálítið spes, og ég man aðra þar
sem hafði eignast dóttur með Ameríkana
og var enn að bíða eftir unnustanum. Aldrei
kom hann.“
Þar var gerður mannamunur
Hvernig komu svo gestirnir þeim
nýkomna fyrir sjónir? „Hommarnir voru
úr ýmsum áttum,“ segir Jón, „ungir piltar
og miðaldra karlar, menntaðir menn og
fáfróðir unglingar, virðulegir borgarar
og alþýðustrákar. Ég man líka vel eftir
togarasjómönnum sem sóttu sitt þangað.
Þeir voru góðir elskhugar. Aldrei kynntist
ég að ráði amerísku hermönnunum sem
sóttu staðinn, en þetta voru fínir strákar
sem áttu stundum bágt því þeir gátu
56