Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2016, Side 63
og samfélaginu okkar til skammar.
Það voru líka margar skoðanir uppi um
gönguleiðina. Margir töldu of langt
að ætla að labba allan Laugaveginn.
Margsinnis var lagt til að stytta leiðina og
ganga til dæmis frá Hallgrímskirkju, niður
Skólavörðustíginn að Laugavegi 3 þar
sem Samtökin ‘78 voru til húsa. Ég sagði
alltaf nei! Ef við ætluðum að gera þetta
yrði það gert af fullum krafti.
Úrtöluraddirnar voru margar
þetta haustið en frá þeim voru margar
undantekningar, eins og Þorvaldur.
Hann var samt maður með báða fætur
á jörðinni því hann fór strax að hugsa
um peninga. Okkur var ljóst að hátíð
af þessari stærðargráðu gæti falið í sér
fjárhagslega áhættu sem gæti stefnt
starfsemi Samtakanna ‘78 í hættu. Þess
vegna lagði ég til að Hinsegin dagar yrðu
sjálfstætt félag með sérkennitölu. Það var
í raun gæfuspor því hátíðin þarf að vera
sjálfstæð.
Þ: Það sem Heimir nefnir hér er eitt
af því sem mér finnst einkenna allt
grasrótarstarf; að verða að eyða tíma
og kröftum í að mæta úrtöluröddum í
eigin hópi. Þessar raddir eru alltaf þarna
en berast heiminum sjaldnast til eyrna.
Ég verð Heimi seint nógu þakklátur
fyrir að setja stefnuna á göngu niður
allan Laugaveginn og kröfuna á mikla
skrautsýningu. Það vissi enginn hver
árangurinn yrði en ég ákvað að trúa á
þetta því það skiptir mig máli að trúa á
það ómögulega og fara stundum fram úr
sjálfum mér. Jafnvel þótt ég bíði ósigur.
H: Það er algjör tilviljun að á sama tíma
kom boð til Samtakanna ‘78 um þátttöku
á ársþingi InterPride sem þá var haldið
í fyrsta skipti í Evrópu. InterPride eru
samtök pride-hátíða í heiminum en þetta
var í fyrsta sinn sem ársþing þeirra var
haldið utan Bandaríkjanna. Ég var sendur
sem fulltrúi Samtakanna, eða hinnar
nýju hátíðar okkar, á þingið í Skotlandi
og það var þarna í Glasgow sem ég fékk
hugljómun um hvernig gangan gæti
orðið í Reykjavík.
Hvað lærðirðu í Glasgow?
H: Ég sótti margar vinnustofur sem
kenndu hvernig átti að skipuleggja
gleðigöngur, hvernig átti að vinna
með lögreglunni, tryggja öryggi, sækja
um leyfi og svo framvegis. Þetta voru
tæknileg atriði sem frændur okkar og
frænkur í Bandaríkjunum voru búin að
læra fyrir guðs lifandi löngu hvernig ætti
að gera og búin að kenna hvert öðru. Ég
lærði að við þyrftum að gefa fólki flotta
titla, að við þyrftum að skipta með okkur
verkum og ekki ætlast til of mikils af
neinum.
Þ: Og þetta rataði inn í hefðir Hinsegin
daga; þar sátu „stjórar“ á öðrum hverjum
stól: Göngustjóri, sölustjóri, fjármálastjóri,
gas- og blöðrustjóri, sviðsstjóri,
verkstæðisstjóri, öryggisstjóri og ritstjóri
svo fátt eitt sé nefnt. Þannig fundu margir
til mikilvægis síns og það með réttu, allt
framlag skipti máli en líka það að hver
stæði við það sem hún eða hann hafði
lofað að gera og stæði við sitt með stolti.
Því við vorum að biðja fólk um að gera
eitt og annað fyrir ekki neitt.
Hluti af þessari góðu brellu var
að þefa uppi það fólk sem fann sig í
grasrótarstarfinu og bjóða því ábyrgð og
strax á fyrsta ári Hinsegin daga varð til
„samstarfsnefnd“ sem var öllum opin. Þar
nutum við góðs af því að ungliðahópur
Samtakanna ´78 var óvenju öflugur á
fyrstu árum aldarinnar og þau reyndust
Hinsegin dögum betri en engin! Ég
gleymi því seint þegar við blésum upp
fyrsta blöðrusnák gleðigöngunnar með
hjálp ungliðanna uppi á 4. hæð á Laugavegi
3 og þokuðum honum svo niður stigana
og út á götu klukkutíma fyrir göngu. Enn
skil ég ekki hvernig tókst að koma 24
metrum af lúðuneti, gasi og partíblöðrum
niður þessa ómögulegu leið. En oft
snúast manns bestu minningar um
fyrirhyggjuleysið!
H: Svo rann dagurinn upp.
Laugardagurinn 12. ágúst 2000. Við
settum gönguna saman við Rauðarárstíg,
vestan við lögreglustöðina. Allt var mjög
skipulagt, búið að raða atriðunum upp
og kríta staðsetningu fyrir hvern vagn.
Eitt sem ég lagði mikla áherslu á var að
við yrðum að útbúa að minnsta kosti 300
metra langa göngu vegna þess að það
væri ekki til sú myndavél í heiminum sem
næði henni allri í einu skoti. Þess vegna,
sama hvernig færi og þótt enginn myndi
mæta nema við, myndu allar ljósmyndir í
sögunni sýna gönguna eins og hún væri
risastór.
Í öllum hasarnum vorum við svo
upptekin við að skipuleggja að enginn
hafði rænu á að kíkja fyrir hornið á
Hlemmi niður Laugaveginn til að skoða
mætinguna. Almenningur, fjölskylda og
vinir voru svo kurteis að þau vildu ekki
ónáða okkur við samsetninguna. Þegar
við lögðum svo af stað klukkan tvö á
eftirmiðdegi, með mótorhjólalögregluna
í fararbroddi, og komum fyrir hornið
stoppaði í mér hjartað. Okkur biðu um
12.000 manns. Ekki til að stríða okkur.
Ekki til að berja okkur. Ekki til að gera lítið
úr okkur, heldur til að ganga með okkur.
Þá vissi ég að okkur hefði tekist þetta og
tárin streymdu niður kinnarnar.
Þ: Hér áttuðum við okkur á því að nú var
þjóðin loksins mætt og í mínum augum
var hún að biðja um sátt. Fyrstu árin
skynjaði ég það sterkt að gleðigangan var
athöfn sáttar og fyrirgefningar. Eins og
ég sagði áðan þá höfðu fjölskyldur okkar
ekki sýnt mikla reisn og stuðning fyrr á
árum; við höfðum lengi verið óhreinu
börnin í íslenska ættarsamfélaginu, svo
dapurlega sem það hljómar, og því varð
gleðigangan tákn fyrirgefningar og sáttar
án þess að það væri fært í orð. Enda var
mikið um tár í göngunni fyrstu árin; við
vorum að seilast til þeirrar virðingar sem
við áttum sjálfsagðan rétt á.
H: Þetta er rétt sem Þorvaldur segir um
sáttina. Lykilhugtak göngunnar var og
hefur verið stolt – að vera stolt af því hver
við erum – og við buðum ættingjum
okkar að vera stolt með okkur, ekki af
okkur. Enn þann dag í dag kemur alltaf
eitthvert augnablik í hverri göngu þar
sem ég fer að gráta af þakklæti og stolti.
Þ: Um leið má íhuga það að samfélag
samkynhneigðra bar sinn hlut af sökinni
á því hvað íslenska fjölskyldan var fjarlæg
lengi vel. Sú var tíðin að við héldum
fólkinu okkar frá okkur, gáfum því litla
hlutdeild í ástum okkar og tilfinningalífi.
Sú saga snýst um flókið gangverk
kúgunar og sjálfskúgunar og þá varð
gleðigangan, öllum að óvörum, leið til að
brjótast út úr því mynstri.
Hvernig kom það til að þú fórst að vinna
við hátíðina, Eva María?
Eva (E): Eins og gerist oft í hreyfingum
sem snúast um hjartans mál þá sogast
vinir og ættingjar inn í starf sem stendur
manni nærri. Ég byrjaði út af konunni
minni, Birnu, sem hafði verið þátttakandi
í göngunni og hátíðinni í þónokkurn
tíma. Fyrstu árin var ég í samstarfsnefnd
hátíðarinnar og sinnti þar ýmsum störfum
en árið 2011 bauð ég mig fram í stjórn
félagsins.
Eitt sem vakti athygli mína þegar ég
hóf störf var hvað veltan var lítil meðal
sjálfboðaliða. Þau sem voru í stjórn og
samstarfsnefndum höfðu sinnt sínum
störfum í mörg ár, jafnvel áratug, og voru
orðin algjörir sérfræðingar á sínu sviði.
Þ: Við vorum snemma mjög lagin við að
nýta sérsvið fólks. Til dæmis var Heimir
Már þaulreyndur fjölmiðlamaður sem
þekkti marga og vissi þar af leiðandi
hvaða boðleiðir giltu til að þoka málum
áfram. Þegar Eva María hóf störf hjá
ferðaþjónustufyrirtækinu Eldingu
opnaðist enn önnur leið og óvænt; við
fórum að bjóða upp á regnbogasiglingu
um Sundin sem varð strax einn af
vinsælustu viðburðum okkar.
63