Hinsegin dagar í Reykjavík - aug 2016, Qupperneq 64
Gleðiganga Hinsegin daga hefur
verið gagnrýnd bæði fyrir að vera
of fjölskylduvæn og ekki nægilega
fjölskylduvæn. Hvar liggja mörkin þarna
á milli?
E: Í dag eru Hinsegin dagar sex daga
hátíð og gleðigangan bara einn dagur
í þeirri veislu. Þetta er jákvæð þróun að
mínu mati því það gefur okkur tækifæri
til að kafa dýpra í hinsegin menninguna á
Íslandi og varpa ljósi á þætti sem rúmast
ekki innan gleðigöngunnar. Þetta er
samt flókið því margir gera kröfu um að
gleðigangan, og hátíðin öll, eigi að þjóna
öllum og höfða til allra. Sumir telja að
gleðigangan eigið að vera fjölskylduhátíð
en ekki hátíð með pólitískan boðskap eða
nekt. Því er ég ekki sammála en hins vegar
má ekki gleyma því að hátíðin er haldin
undir berum himni og aðgengileg öllum,
þar á meðal börnum.
Þ: Mér líður alltaf ónotalega þegar ég
heyri fólk úti í bæ andskotast út í nektina
fyrstu vikuna í ágúst. Ég veit ekkert
fallegra en mannlega nekt, með og
án aukakílóa; í henni felst mikilvægur
réttur til persónulegrar tjáningar og
hún er oftar en ekki ótrúlegt pólitískt
afl í frelsisbaráttu hinsegin fólks.
Kommentakerfi fjölmiðlanna ber fyrir sig
andlega velferð barnanna okkar en ég hef
aldrei heyrt börn amast við nöktu holdi á
vögnum gleðigöngunnar. Eitt árið kvað
ein lítil stelpa upp úr með það í viðtali
í Morgunblaðinu að leðurhommarnir á
vagni MSC Íslands væru langflottasta
atriði gleðigöngunnar! Þar sást að vanda
í þó nokkrar geirvörtur og stöku rasskinn.
En vissulega er þetta mörgum viðkvæmt
mál og mikilvægt að hlusta á ólíkar
raddir. Mér finnst þó öllu máli skipta
að við þorum að taka þessa umræðu
sem snýst umfram allt um togstreituna
milli heiðarlegrar líkamstjáningar og
tepruskapar.
H: Það er ekki bara hér sem fólk veltir
þessu fyrir sér. Í Berlín er gangan mjög
nakin, sums staðar í Bandaríkjunum er
hún það einnig en annars staðar ekki.
Í upphafi var það stefna stjórnarinnar
að leyfa ekki ber brjóst og rassa í
gleðigöngunni heldur láta gleðina vera
okkar megináherslu enda hefur hún
reynst okkar sterkasta vopn í baráttunni
fyrir sjálfsögðum mannréttindum.
E: Mín persónulega skoðun sú að við
megum ekki vera svo fjölskylduvæn að
við séum að fela okkar eigin menningu.
Okkar kúltúr snýst að miklu leyti um
kynhneigð sem tengist líka kynlífi. Við
erum sannarlega ekki að fara að leyfa
þátttakendum að sýna kynfæri í göngunni
en við megum heldur ekki leyfa göngunni
að verða getulaus vegna þess að við séum
að reyna svo mikið að falla inn í normið.
Mér finnst setningin „við þurfum að rækta
öfuguggann í okkur“ skipta máli í þessu
samhengi. Við megum ekki gleyma hver
við erum og hvaðan við komum.
Ég þarf oft að minna fólk á að ég er
ekki að biðja um að fá að vera eins og það,
ég er að krefjast þess að við höfum sömu
mannréttindi. Þetta er hátíð hinsegin
fjölskyldunnar og allir eru velkomnir sem
styðja okkar málstað – á okkar forsendum.
H: Ef við eigum ekki þetta samtal munu
aðrir skilgreina okkur og hvað við
stöndum fyrir. Dragdrottningarnar mega
til dæmis aldrei hverfa úr göngunni því
það voru þær sem stóðu í fremstu víglínu
í marga áratugi. Það voru þær sem voru
barðar, myrtar, hrækt var á, flæmdar
úr íbúðum og misstu vinnuna í þessari
baráttu.
Þ: Gleymum heldur ekki menningu
leðurhomma og leðurlesbía heimsins. Í
þeim hópi er að finna fólk sem lagt hefur
ómældan skerf til baráttunnar fyrir stolti
og sýnileika, hér á landi og annars staðar.
E: Þetta er hárrétt. Annars yrði
gleðigangan flöt eins og gæti allt eins
verið eins og aðrar miðborgarhátíðir. Þetta
er ákveðið jafnvægi sem þarf að ná og er
í sífelldri vinnslu. Við megum ekki glata
okkar sérstöðu.
Mun gleðigangan lifa að eilífu?
Þ: Því má velta fyrir sér. Gleðigöngur okkar
tíma munu eflaust missa merkingu sína
og annað taka við. Allt fölnar og deyr,
ekki bara jurtirnar og manneskjurnar, og
annað rís upp. Hnötturinn er á stöðugum
snúningi.
H: Gleðigangan mun alltaf breytast með
nýjum kynslóðum sem hafa aðra sýn á
hlutina. Hvort hún lifi eða deyr veltur á
því að gangan sé skipulögð og unnin
af heilindum. VIð höfum til dæmis alltaf
verið heppin hvað peningahliðina varðar,
passað að halda þessu sem sjálfboðavinnu
en ekki sem launaðri vinnu. Við höfum
öll lagt allt okkar sumarfrí og orlof í þetta
starf sem tryggir að peningaöflin ná ekki
völdum við skipulagningu hennar. Þá
eyddum við aldrei peningum nema hafa
aflað þeirra fyrst. Margar gleðigöngur í
útlöndum hafa farið á hliðina vegna erja
um fjármál.
64