Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2018, Síða 9

Hinsegin dagar í Reykjavík - aug. 2018, Síða 9
ára hafði líka áhrif á margt í mínum aðferðum og röksemdafærslum og ég á henni sitthvað að þakka.“ En hver var munurinn á íslensku og dönsku samfélagi þessara ára eins og það sneri að Þorvaldi sem homma? „Til að skilja þennan mun beita fræðimenn í okkar hópi oft hugtökunum metropolis og province, borgin og dreifbýlið. Staðan á Íslandi fyrir fjörutíu árum var um margt svipuð því sem var og er í dreifbýli erlendis, í Bretlandi, Bandaríkjunum og á meginlandi Evrópu. Það fólk sem stendur á jaðrinum átti og á enn erfitt uppdráttar í þorpum og smábæjum Vesturlanda og þess vegna flykktist mín „þjóð“ í stórborgirnar og gerir enn. Styrkur borgarinnar er sá að þar ratar maður í samfélag sinna líka en getur þó leynst eins lengi og maður vill leynast. Þessi leynd er okkur flestum nauðsynleg á meðan við erum að styrkja vitund okkar og sjálfsvirðingu sem samkynhneigðar manneskjur. Með öðrum orðum, Reykjavík fyrri ára var hreinræktaður próvins miðað við borgirnar í nágrannalöndunum. Þar voru alls staðar skemmtistaðir, barir, félög, hreyfingar og klúbbar sem hægt var að rata inn í án þess að afhjúpa eigin kynhneigð á fyrsta degi. Vandi okkar homma og lesbía á Íslandi var ekki síst sá hvað okkur var erfitt að fara fetið til að styrkja vitund okkar og vilja. Þjóð veit þá þrír vita.“ Þorvaldur víkur síðan talinu að löngu liðinni fortíð: „Allt aftur til 1920 á ég í fórum mínum heimildir um fólk, samkynhneigða karlmenn og stöku lesbíu, sem yfirgáfu Ísland. Þetta fólk hafði svo sem ekki mörg orð um það hvers vegna það kvaddi en það er nokkuð ljóst að hér var fólk að leita að möguleikum til að njóta kynlífs og ásta þegar það gerði sér grein fyrir upplagi sínu. Enda er dagljóst að möguleikar þessa fólks voru snöggtum meiri meðal milljónaþjóða en hér á skerinu. Ég held þó ekki að margir hafi fyrr á árum litið á sig sem flóttamenn, hommar og lesbíur fortíðarinnar voru eins og svo margir ungir Íslendingar í leit að möguleikum í lífinu og þau vissu fæst hvað biði þeirra. Þegar sýnileiki samkynhneigðra vex svo um munar erlendis á áttunda áratugnum átti vitund fólks um að það væri á flótta eftir að skýrast til muna.“ Þorvaldur segist hafa fyrst heyrt Guðna Baldursson, fyrsta formann Samtakanna ‘78, nefna hugtakið „kynferðispólitískur flóttamaður“ í sín eyru um samkynhneigða Íslendinga og fundist það merkilegt. Hann kannaðist að vísu við hugtakið úr umræðu heimsins um hlutskipti homma á Kúbu á þessum árum en hafði aldrei fyrr tengt það við eigin þjóð. Hann sannfærðist um að með því mætti brýna vopnin í baráttunni hér á landi. „Íslenska þjóðin hafði á þessum árum litla hugmynd um hvað hún var að gera þegnum sínum, að hér var um að ræða flóttamannastraum úr landi. Slík gjá var orðin til milli þess lífs sem í boði var á Íslandi og þess lífs sem hommar og lesbíur lifðu úti í hinum stóra heimi. Sýnileiki, stolt og baráttuhugur, allt var þetta í dásamlegri uppsveiflu vestan hafs og austan á áttunda og níunda áratug aldarinnar. Ísland hafði ekki kveikt á perunni, þar ríktu slíkir fordómar að ekki var við unað þótt þjóðin væri að vísu sundurleit í þeim efnum. Styrkur fordómanna í hverju samfélagi ræðst af svo mörgu, til dæmis aldri, búsetu og menntun og þar var þjóðin margklofin í viðhorfum sínum. En hér voru á ferð merkilegar þversagnir. Svo lengi sem samkynhneigðir fóru með veggjum fengu þeir að lifa sínu lífi nokkurn veginn óáreittir, enda þótti mörgum af eldri kynslóðunum í okkar hópi það nánast frekja og tilætlunarsemi þegar við hin yngri kröfðumst réttarins til að lifa okkar samkynhneigða lífi í dagsbirtu og ætla okkur sama rétt og aðrir þegnar þegar kom að ástar- og fjölskyldulífi. Þá upphófust átök við íslenskt samfélag sem stóðu í þrjá áratugi í einni eða annarri mynd. Þrjátíu ára stríðið hefur það verið kallað. Um þetta snerist glíman, að ætla sér skilyrðislausan rétt til að gefa sig til kynna og afþakka þá kúgun að leyna tilfinningalífi sínu og bestu tilveru fyrir öðrum.“ „Þegar ég fluttist heim frá Kaupmannahöfn að námi loknu árið 1982,“ segir Þorvaldur, „fannst mér ég ekki eiga neitt val, ég hlaut að taka þátt í baráttu homma og lesbía. Það líf sem mætti mér á Íslandi var eiginlega fáránleikinn uppmálaður í ljósi þeirra framfara sem þá höfðu orðið á Vesturlöndum. Feluleikurinn var slíkur og höggin sem dundu á félögum mínum, andleg og líkamleg, voru grófari og harðari en svo að við væri unað. Um leið er vert að muna að Ísland var á þeim tíma ótrúlega fordómafullt gagnvart öllu, smáu og stóru, sem vék frá hversdagslegri meðalhegðun, jafnvel klæðaburði og hártísku fólks.“ Þorvaldur var í þrjátíu ár virkur í hreyfingu homma og lesbía og þrívegis var hann formaður Samtakanna ‘78, alls í tíu ár. Þá var hann forseti Hinsegin daga í Reykjavík í rúman áratug. Í félagi við vini sína vann hann ötullega að þeim lagabótum sem samkynhneigt fólk hefur öðlast á sviði fjölskylduréttar og hann hefur lengi fengist við rannsóknir á sögu samkynhneigðra hér á landi. Eftir að hafa slitið sambúð við sambýliskonu sína til sjö ára kom hann út úr skápnum í Kaupmannahöfn og starfaði í tvö ár að fræðslu í skólum þar í borg með samtökum lesbía og homma. Heim kominn gerðist hann bókmenntaritstjóri og starfaði næstu tvo áratugi á nokkrum af helstu bókmenntaforlögum landsins. „Þegar ég fluttist heim var það með þeim ásetningi að læðast ekki með veggjum heldur að lifa sem opinn hommi á Íslandi. Auðvitað var það erfitt en ég lét mig hafa það og reyndi að hrista af mér stöku högg eins og að vera sagt upp húsnæði, neitað um vinnu og mæta svívirðingum fólks í hverfiskjörbúðinni á Laugavegi. Ég naut þess reyndar að eiga létt með að koma fyrir mig orði og lærði snemma að stinga upp í næsta mann ef þörf krafði. En auðvitað litar þetta líf persónu manns. Einhvers staðar innra með mér ber ég alla tíð merki þess að hafa orðið fyrir óþarflega þungum höggum og að hafa of lengi leynt því besta sem ég á, gáfunni til að elska mína eigin kynbræður. En svo sannarlega stóð ég ekki einn, ég starfaði alla tíð í hópi fólks sem var ótrúlega gáfað og hugrakkt. Þá naut ég þess að læra bestu baráttuleiðir af félögum mínum í Norðurlöndum sem studdu okkur vel á þessum árum. Kvennahreyfing þessara 9

x

Hinsegin dagar í Reykjavík

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Hinsegin dagar í Reykjavík
https://timarit.is/publication/1512

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.