Morgunblaðið - 29.03.2021, Page 15
15
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 29. MARS 2021
Leikur Hestar eru félagslynd dýr. Ekki má misskilja það þótt hestar, sérstaklega ung hross, sjáist kljást. Það geta verið jákvæð samskipti. Þeir geta verið að mynda ný tengsl.
Eggert
Fjórum sinnum á
undanförnum árum hef
ég heimsótt tyrknesk
mannréttindasamtök
ásamt fréttamönnum,
fræðimönnum, stjórn-
málamönnum, fólki úr
verkalýðsbaráttu, lög-
mönnum og ein-
staklingum sem hafa
látið sig mannréttindi
varða.
Við höfum verið um
það bil tíu talsins hverju sinni og hef
ég þarna kynnst mjög áhugaverðu
fólki. Áhugaverðast hefur þó verið
að hlusta á mál fólks sem brotið hef-
ur verið á eða kemur frá samtökum
sem berjast fyrir hönd þess. Ferð
okkar að þessu sinni, sem nú er ný-
afstaðin, var aldrei farin í þeim
skilningi að öll vorum við heima en
sátum engu að síður sameiginlega
fundi sem fram fóru á netinu.
Þess vegna Imrali
Þessar sendinefndir hafa verið
kenndar við Imrali en það er heitið á
eynni í Marmarahafi skammt frá
Istanbúl þar sem leiðtoga Kúrda,
Abdullah Öcalan, hefur verið haldið í
einangrunarfangelsi síðan 1999 eða í
alls 22 ár. Þá var hann tekinn hönd-
um í Nairóbí í Kenía þegar hann var
á leið til Suður-Afríku í boði Nelsons
Mandela, þáverandi forseta þess
lands, en einnig hann hafði setið í
fangelsi í heil 27 ár, lengst af á
Robben-eyju.
Það áttu þeir sammerkt Mandela
og Öcalan að hafa tekið þátt í vopn-
aðri baráttu gegn ofbeldisstjórnum
og síðan talað fyrir friðsamlegum
lausnum. Það var gæfa Suður-
Afríkumanna að Mandela skyldi
leystur úr haldi og honum gert kleift
að leggja sitt af mörk-
um til að koma á friði
og binda enda á óöld í
landinu. Þetta hefði
kynþáttastjórninni í
Suður-Afríku aldrei
tekist einni.
Sama á við um Tyrk-
land. Þar þurfa að
koma sameiginlega að
borði tyrknesk stjórn-
völd og fulltrúar Kúrda
sem eru sá hluti þjóð-
arinnar sem beittur
hefur verið mestu of-
beldi í landinu um langt
skeið. Á því var þó undantekning því
á árabilinu 2013 til 2015 var þíða í
samskiptum, og samningaviðræður,
sem þeir leiddu Erdogan, æðstráð-
andi í Tyrklandi, og Öcalan, tals-
maður Kúrda, úr fangelsisklefa sín-
um á Imrali. Kom ég þá til
Diyarbakir í Suðaustur-Tyrklandi
sem er fjölmennasta borg Kúrda og
fann fyrir þeirri gleði og bjartsýni
sem sveif þá yfir vötnum.
Þáttaskil til hins verra
Vorið 2015 skipuðust veður í lofti.
Flokkur Kúrda, HDP, fékk yfir 13%
í kosningum til tyrkneska þingsins
en árið áður hafði flokkurinn sótt í
sig veðrið í bæjarstjórnarkosningum
og stýrðu Kúrdar – alltaf kona og
karl hlið við hlið – nú fjölda borga,
bæja og sveitarfélaga í suðaustan-
verðu Tyrklandi. Í þessum þing-
kosningum missti Erdogan meiri-
hluta á þingi en í þann mund að séð
varð hvert stefndi var öllum friðar-
viðræðum slitið og látið til skarar
skríða gegn Kúrdum. Var ljóst að
valdaöflin töldu það þjóna sínum
hagsmunum best að styrkja öfgaöfl
fremur en þau sem vildu friðinn.
Hófst nú hrikalegt tímabil gegnd-
arlauss ofbeldis í garð Kúrda. Heilir
bæir og borgarhlutar voru jafnaðir
við jörðu, hálf milljón manna fór á
vergang, allra sem mótmæltu beið
fangelsisvist ef þá ekki dauðinn.
Ég heimsótti í ársbyrjun 2018
sömu borg, Diyarbakir, þar sem ég
áður hafði fundið fyrir bjartsýninni.
Hún var með öllu horfin, svo og þrír
fjórðu hlutar hinnar fornu mið-
borgar, Sur, og þar með mörg þús-
und ára fornminjar á verndarskrá
Sameinuðu þjóðanna. Nú voru jarð-
ýtur og önnur vinnutæki að jafna við
jörðu það sem enn þótti standa í vegi
fyrir nýjum hótel- og skrifstofu-
byggingum. Aldrei hef ég heyrt
aukatekið orð um þennan menning-
arglæp frá stofnunum Sameinuðu
þjóðanna né öðrum alþjóðastofn-
unum sem þykjast vilja verja mann-
réttindin og menninguna.
Evrópuráðið og Mannréttinda-
dómstólinn setur niður
Vorið 2019 mótmælti að vísu sú
nefnd Evrópuráðsins sem gæta á
þess að pyntingar séu ekki stund-
aðar í fangelsum aðildarríkja ráðs-
ins, því að gróflega væri brotið á
fanganum á Imrali-eyju og krafðist
þess að þetta og sambærileg ein-
angrunarvist í fangelsum landsins
yrði endurskoðuð og lagfærð þegar í
stað. Tyrknesk yfirvöld svöruðu með
því að herða á einangruninni og taka
fyrir öll samskipti við fangann á Im-
rali-eyju sem voru þó nánast engin
áður! Ekki hefur heyrst stuna frá
Evrópuráðinu til að mótmæla þessu.
Þvert á móti fór sjálfur forseti
Mannréttindadómstólsins í Strass-
borg til Tyrklands til að taka við sér-
stakri viðurkenningu, og það í sama
háskóla og verst hefur orðið úti í
hreinsunum og fangelsunum, lét
mynda sig með valdhöfunum og til
að kóróna allt þá fór hann til Kúrda-
borgarinnar Mardin, skammt frá
Diyarbakir, og átti þar viðræður við
leppana sem settir höfðu verið til
valda í stað þeirra lýðræðislega
kjörnu fulltrúa sem hraktir höfðu
verið úr embætti.
Allt þetta fengum við að heyra á
netfundum okkar í febrúar frá
fulltrúum samtaka lögmanna og há-
skólakennara, kvennasamtaka,
fréttamanna og mannréttinda-
samtaka. Var þessu fólki mjög mis-
boðið.
Viðmælendum okkar bar einnig
saman um að ástandið í Tyrklandi
færi að nýju versnandi, fangelsun
fréttamanna væri tíðari, lögmenn
sakfelldir fyrir að verja skjólstæð-
inga(!), fólk svipt ferðafrelsi, margir
þeirra sem við ræddum við gátu ekki
ferðast út fyrir landsteinana, gagn-
rýnin samtök kvenna hefðu verið
bönnuð, fyrirsjáanlegt væri að Tyrk-
ir myndu segja sig frá Istanbúl-
samþykkt Evrópuráðsins um vernd
gegn kynbundnu ofbeldi, nokkuð
sem nú er orðið að veruleika.
Berum við ábyrgð?
Já við berum ábyrgð. Þögn Ís-
lands jafngildir samsekt. Jens Stolt-
enberg, framkvæmdastjóri NATÓ,
lýsti reyndar ábyrgð á hendur okkur
þótt þannig hafi hann ekki orðað það
eftir fund bandalagsins sem haldinn
var í Brussel 28. júlí 2015 í þann
mund sem versta ofsóknarhrinan
gegn Kúrdum hófst. Tyrkland hafði
óskað eftir fundinum til að fá grænt
ljós á fyrirhugaða baráttu gegn
„hryðjuverkum“: „Öll bandalags-
ríkin styðja Tyrkland. Við stöndum
öll saman í samstöðu með Tyrk-
landi,“ sagði þessi talsmaður Ís-
lands.
Öllum mátti þá ljóst vera hvað
fram undan var.
Orð á bak við lás og slá
Þegar gluggi Öcalans í fangelsinu
á Imrali-eyju var opnaður eitt and-
artak í maí 2019, eftir víðtæk hung-
urmótmæli í fangelsum landsins,
kom hann út þeim skilaboðum að
hefja bæri friðarviðræður á ný:
„Atburðir líðandi stundar minna á
hve mikil þörf er á að ná víðtækri og
djúpri sátt í samfélaginu. Við þurf-
um á að halda lýðræðislegri nálgun
við samninga þar sem í stað átaka á
milli gagnstæðra póla er horft til
þess vanda sem þarf að leysa. Við
getum leyst úr vandamálum Tyrk-
lands og jafnvel alls þessa heims-
hluta með mýktinni, það er að segja
með vitsmunum okkar, samskiptum
á milli stjórnmálafylkinga og menn-
ingarheima í stað valdbeitingar. Á
Imrali-eyju stendur vilji okkar ein-
dregið til þess að taka upp friðar-
viðræðuþráðinn þar sem skilið var
við hann. Frá okkar sjónarhóli skipt-
ir öllu máli að koma á friði með
mannlegri reisn og með lýðræðis-
legum og friðsamlegum hætti.“
Ríkisstjórnin álykti
Ísland á ekki að standa með þeim
sem vilja loka slík orð inni. Við eig-
um að standa með þeim sem vilja
frið með mannlegri reisn. Hvernig
væri að álykta um það á næsta fundi
ríkisstjórnarinnar og senda síðan þá
ályktun á viðeigandi heimilisföng?
Eftir Ögmund
Jónasson » Við eigum að standa
með þeim sem vilja
frið með mannlegri
reisn. Hvernig væri að
álykta um það á næsta
fundi ríkisstjórnarinnar
og senda síðan þá álykt-
un á viðeigandi heim-
ilisföng?
Höfundur er fyrrverandi
dómsmálaráðherra.
Hlýtt á tyrknesk mannréttindasamtök
Ögmundur
Jónasson