Morgunblaðið - 06.04.2021, Blaðsíða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 6. APRÍL 2021
Nýtt föðurland
Hvernig skyldi þeim vera innan-
brjósts sem leggur út í algjöra
óvissu, allslaus og fjarri vinum og
vandamönnum, í óvinveittum heimi
sem rambar á barmi heimsstyrj-
aldar með ofsóknum og ofbeldi?
Hvernig skyldi Wilhelm Beck-
mann hafa liðið um borð í Brúarfossi
á siglingu yfir
Atlantshafið í
maí 1935 á leið
til Íslands í
dumbshafi
hins óþekkta?
Hvaða hug-
myndir skyldi
hann hafa gert
sér um land
elds og íss og
fólkið sem þar bjó? Næsta fullvíst er
að hann hafði ekki í hyggju að setj-
ast þar að til frambúðar en átti ekki
annarra kosta völ en fara til Íslands.
Vonaðist vafalaust til þess að geta
innan tíðar snúið aftur til ættlands
síns, Þýskalands, og hitt þar fjöl-
skyldu sína á ný. Sjálfsagt ímyndaði
hann sér að aðeins þyrfti að þrauka í
nokkra mánuði eða kannski ár í
framandi landi þar til ástandið batn-
aði í heimalandinu og hann gæti snú-
ið þangað aftur.
Flóttamenn á þessum tíma og
sennilega á öllum tímum hafa ekki
lagt í vana sinn að láta mikið á sér
bera. Þeir fara helst huldu höfði,
forðast að vekja á sér athygli, gefa
sig ekki endilega á tal við annað fólk.
Og enda þótt Wilhelm hafi átt
vandamenn og ef til vill vini í Dan-
mörku var ekki á vísan að róa þar,
landið landtengt Þýskalandi og of
stutt milli vina og óvina. Í Dan-
mörku voru líka þjóðernissósíalistar,
nasistar.
Hið eina sem Wilhelm hafði með-
ferðis var flokksskírteini þýskra
jafnaðarmanna og megn andúð á
Adolf Hitler og nasismanum. Hann
hafði ríka réttlætiskennd og í hjarta
hans ólguðu hugsjónir jafnréttis og
bræðralags. Þýska var móðurmálið
en hann hafði líka nokkur tök á
dönsku og ensku, var afar listfengur
með ríkt fegurðarskyn og góða
menntun í listgrein sinni.
Wilhelm var flóttamaður á Ís-
landi og leit á sig sem slíkan. Ýmsir
hafa talið fyrr og síðar að Wilhelm
hafi verið gyðingur og slíkt er jafn-
vel fullyrt í textum sagnfræðinga.
Það er ekki rétt og rétt skal vera
rétt. Hann var ekki gyðingur.
Ísland - kaflaskipti á æviskeiði
Á Íslandi hófst nýr kafli í ævi
Wilhelms Ernst Beckmanns. Hann
skrifaði ættingjum sínum 25. októ-
ber 1935:
„Eins og málum mínum er nú
háttað hér mun ég geta verið hér
áfram. Hér gildir ekki hið sama og í
Danmörku. Nú hef ég tekið á leigu
litla íbúð og greiði fyrir hana, með
ljósi, hita, hreingerningu ásamt
fjórum máltíðum á dag, kr. 110. Það
telst ódýrt á íslenskan mælikvarða.
Þarna eru tvö falleg herbergi, ann-
að er án húsgagna og með rennandi
vatni. Ég hyggst setja upp mynd-
höggvaravinnustofu í auða herberg-
inu. Þá hef ég allt sem ég þarfnast í
útlegð minni.
Ekki á ég kvennaláni að fagna og
er því aftur kominn með einmana-
kenndina. Í daglegri vinnu minni er
nóg að gera, ég þéna núna 200 krón-
ur á mánuði. Sjálft starfið er leiðin-
legt. Við búum til allskyns leikföng
úr tré, brúðuvagna, bíla og hvaðeina
sem viðgengst í þessum bransa. Ég
smíða aðallega nýju módelin og nú
þegar segja menn að í engu öðru
landi sé að finna svo listræn leik-
föng og á Íslandi. Það er þó alltént
mér til hróss og vegur upp á móti
frekar neikvæðu umtali um mig.
Ég el með mér þá hugsun að
verða sjálfstæður. Margir hér í
hærri stöðum ráðleggja mér það en
í reynd verð ég að hafa búið á Ís-
landi sem útlendingur í eitt ár.
Hvað sem öðru líður, kæra fjöl-
skylda, er ég mjög hamingjusamur
hér.
Ég get ekki lýst hve fagur vetur-
inn er hér á Íslandi. Fyrsti snjórinn
var hér í 14 daga en næsta dag var
ekkert nema vatn. Hér er hlýrra um
hávetur en í Þýskalandi. Það sem er
þó fegurst við veturinn er norður-
ljósin. Þau verður maður að sjá,
þeim er ekki hægt að lýsa með orð-
um.“
Margt var sem fyrr mótdrægt
flóttamönnum. Flokksskírteini jafn-
aðarmanna frá Þýskalandi og tengsl
við Alþýðuflokksmenn virðast hafa
opnað Wilhelm ýmsar dyr sem ella
hefðu verið honum luktar. Honum
gekk hins vegar upp og niður að fá
ýmis réttindi í íslensku samfélagi
viðurkennd eftir komuna hingað, til
dæmis leyfi til að starfa sem tré-
skurðarmeistari. Hann átti þá meðal
annars samskipti við lögreglustjór-
ann í Reykjavík sem tjáði honum að
það skipti ekki máli hvort hann hefði
skjalfest réttindi eða ekki. Það þótti
Wilhelm heldur kuldalegt svar og á
að hafa svarað efnislega eitthvað á
þessa leið:
„Af hverju ertu svo mikið á móti
Þjóðverjum núna. Þú varst það ekki
þegar þú marséraðir hér um í
nasistabúningi!“
Wilhelm var þannig óhræddur við
að bjóða valdsmönnum byrginn.
Hreinskilni hans hefur tæplega gert
honum auðveldara fyrir að fóta sig í
nýja landinu.
Öruggt skjól með skilyrðum
Wilhelm taldi sig sjálfsagt vera
kominn í býsna „öruggt“ skjól á
Íslandi en svo brast á stórstyrjöld á
meginlandi Evrópu og breiddist út
um lönd, álfur og höf.
Þegar styrjöldin hófst var enn
opið sendiráð Þýskalands í Reykja-
vík með diplómötum sem gengu
erinda Hitlers, eðli máls samkvæmt.
Auk þess að standa í stappi við ríkis-
valdið um vist og réttindi til dvalar
og starfs þurfti Wilhelm líka að berj-
ast gegn þeim sem hann upphaflega
flúði frá í Þýskalandi og svo gegn
íslenskum fordómum sem létu á sér
kræla.
Þegar Bretar hernámu Ísland 9.
maí 1940 gengu þeir rösklega til
verks, handtóku Þjóðverja í Reykja-
vík og sendu í fangabúðir í Englandi.
Wilhelm Beckmann var hins vegar
ekki á meðal þeirra sem fluttir voru
utan. Hermt er að hann hafi verið
sendur með hlerunarbúnað á Snæ-
fellsnes til að njósna um samskipti
og ferðir þýskra um hafið milli
Grænlands og Íslands. Þarna hafi
hann notið þess að vera kvæntur
íslenskri konu af Snæfellsnesi, að
hafa lært radíótækni í Hamborg og
ekki síst að hafa veitt Bretum upp-
lýsingar um landa sína á Íslandi.
Einar Beckmann, sonur
Wilhelms, segir að fullyrðingar um
njósnaleiðangur á Snæfellsnes séu
hreinn uppspuni. Hins vegar veit
hann fyrir víst að faðir hans gaf
Bretum upplýsingar um aðra Þjóð-
verja á Íslandi. Það var meðal skil-
yrða sem Bretar settu Wilhelm og
margir vina hans sneru við honum
baki vegna þessa.
Víst er að Wilhelm þekkti til
flestra Þjóðverja sem búsettir voru í
Reykjavík á þessum tíma og vissi
væntanlega hverjir þeirra voru hall-
ir undir nasismann.
Listfengur og
skapandi snillingur
Wilhelm Beckmann opnaði eigin
vinnustofu að Laugavegi 100 í
Reykjavík í marsmánuði árið 1946
og vann þar að margs konar tré-
skurði og myndhöggvaralist.
Alþýðublaðið birti frétt um málið og
segir meðal annars:
„Síðan Beckmann opnaði vinnu-
stofu sína á Laugavegi 100 hefur
hann aðallega unnið að tréskurði og
búið til ýmsa listmuni til tækifæris-
gjafa, einnig vinnur hann í ígripum
að útskurði á húsgögnum og fleiru.
Myndhöggvaralistinni hyggst Beck-
mann þó einnig helga sig jafnframt
tréskurðinum og er hann nú um
þessar mundir að vinna að mynd af
Jóni heitnum Baldvinssyni og mun
hann hafa í hyggju að gefa alþingi þá
mynd.“
Þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennsl-
an hefur hvorki tekist að hafa upp á
myndinni af Jóni Baldvinssyni né fá
staðfest að hann hafi lokið við hana.
Wilhelm vann einnig um skeið á
vinnustofu sem hann hafði í Tré-
smiðjunni Víði og í ævisögu Guð-
mundar Guðmundssonar, forstjóra
og eiganda fyrirtækisins, er haft eft-
ir honum:
„Það jók svo á fjölbreytnina, að
vandaðri húsgögn voru skreytt með
útskurði. Wilhelm Beckmann,
útskurðarmaður, skar allt út fyrir
okkur. Hann hafði aðstöðu hjá mér á
verkstæðinu og skar þar einnig út
fyrir aðra. Hann var ákaflega list-
fengur maður, hámenntaður í iðn
sinni og skapandi snillingur, sem
vann hratt og vel.“
Skapandi
snillingur
Bókarkafli | Tréskurðarmeistarinn Wilhelm
Ernst Beckmann gekk á land í Reykjavík einn
síns liðs vorið 1935 á pólitískum flótta undan
nasistum í heimalandi sínu aðeins 26 ára gam-
all. Ísland varð skjól róttæka jafnaðarmannsins
sem átti eftir að gera skírnarfonta, altaristöflur
og fleiri stórfengleg verk fyrir íslenskar
kirkjur. Í bókinni Beckmann, sem Atli Rúnar
Halldórsson ritstýrir, er saga Beckmanns rakin
og ljósi varpað á listaverk hans.
Listamaður Wilhelm Beckmann með útskorna veggmynd af engli. Ofan við
engilinn er áletrunin „Vakið og biðjið“ og undir myndinni stendur „Til
Búðakirkju árið 1951“. Myndin er varðveitt í Búðakirkju á Snæfellsnesi.
Jafnaðarmaður Auglýsing sem Wil-
helm Beckmann gerði fyrir Alþýðu-
flokkinn á fjórða áratugnum.