Fiskifréttir


Fiskifréttir - 17.12.1999, Blaðsíða 22

Fiskifréttir - 17.12.1999, Blaðsíða 22
22 FISKIFRÉTTIR 17. desember 1999 FISKIFRETTIR 17. desember 1999 23 Verferðir Verferðir Kalmanstungu í Borgarfirði. Þeir sem fóru á Suðurnes héldu síðan áfram í suður eftir Kaldadal en þeir sem fóru á Snæfellsnes gengu vest- ur Fljótstunguheiði. Fjallvegir Flúnvetninga voru um Tvídægru og Arnarvatnsheiði og lá leið þeirra að Kalmannstungu og eftir að þangað var komið voru ferðaleiðir þeirra svipaðar og Skagfirðinganna. Það var einnig algengt í haustverferð- um Húnvetninga að þeir færu hina hefðbundnu leið yfir Holtavörðu- heiði. Þegar Norðlendingar fóru á vetr- arvertíð var hins vegar oftar farin hin hefðbundna byggðaleið, sem var á svipuðum slóðum og aðal- ferðaleiðir eru nú á dögum. Þing- eyingar þurftu þá að fara yfir þrjár heiðar áður en þeir komust í Húna- vatnssýslu, Vaðlaheiði, Öxnadals- heiði og Stóra-Vatnsskarð, en þessi leið var oft torfarin í vetrarveðrum og ófærð. Versti kafli leiðarinnar var hins vegar Holtavörðuheiði og er að sjá af frásögnum vermanna að hún hefur verið sá farartálmi sem þeir kviðu jafnan mest. Var oft mannmargt á bæjum í Miðfirði og Hrútafirði þegar vermenn söfnuð- ust þar saman og biðu færis að komast yfir heiðina. Gat viðdvöl þeirra á bæjunum þarna jafnvel orðið margir dagar. Stundum þótti Holtavörðuheiði svo viðsjárverð að menn kusu að taka á sig stóran krók til þess að sleppa við hana. Gengu þeir þá út með Hrútafirði að vestan til Borðeyrar, og fóru síðan Laxárdalsheiði suður í Dali yfir Bröttubrekku og niður í Norðurár- dal. Slíkur krókur gat lengt ferðina um tvo daga eða meira. Þótt byggðaleiðin væri oftast farin á veturna kom það líka fyrir að ver- menn fóru þá fjallvegi, einkum Húnvetningar og Skagfirðingar, en þær leiðir voru miklu fljótfarnari ef veður var sæmilegt og færð góð. Þegar komið var suður yfir heið- ar stefndu þeir sem ætluðu á Snæ- fellsnes í vestur frá Dalsmynni, en þeir er héldu á Suðurnesin fóru sumir hverjir á Skipaskaga og fengu sig ferjaða þaðan til Reykja- víkur. Aðrir gengu yfir Dragháls, voru ferjaðir yfir Hvalfjörð og gengu síðan síðasta spölinn til Reykjavíkur þar sem oftast var áð í einn dag eða tvo áður en haldið var á Suðurnes, ýmist fótgangandi eða á bátum. Sigurður slapp við „dóminn“ Margar greinargóðar frásagnir eru til um ferðir vermanna milli landshluta og má þar taka sem dæmi frásögn í Ævisögu Sigurðar Ingjaldssonar frá Balaskarði og þá frásögn Kristleifs Þorsteinssonar sem áður er vitnað til. Sigurður Ingjaldsson var fæddur árið 1845 og fór í sína fyrstu verferð suður þegar á unglingsárum sínum. Eins og margir vermenn gerðu undirbjó hann ferð sína suður m.a. með því að smíða spæni, sem hann seldi síðan á leiðinni og notaði fjármun- ina til að greiða ferðakostnað sinn. I frásögn hans er komið inn á sið sem norðlenskir vermenn tóku upp á ferðum sínum og var eins konar manndómsvígsla þeirra er voru að fara í fyrsta sinn að norðan í verið. Við Hæðarstein á Holtavörðuheiði, þar sem skipti voru talin milli Norður- og Suðurlands, urðu ný- liðarnir í hópnum að veita ferðafé- lögum sínum annaðhvort brennivín eða reykt sauðakjöt. Gætu þeir það ekki voru þeir dæmdir til þess að láta teyma sig þrívegis í kringum steininn. Var þá tekinn út á þeim limurinn og menn teymdir á hon- um. Þótti slíkt hin mesta niðurlæg- ing og er auðséð á frásögn Sigurð- ar að honum létti mikið þegar ferðafélagar hans ákváðu að velja aðra leið en Holtavörðuheiði og hann slapp þannig við „dóminn" því ekki var hann það vel búinn að hann hefði átt möguleika á að greiða brennivíns- eða sauðakets- tollinn. Hér fer á eftir stuttur kafli úr ævisögu Sigurðar sem segir frá suðurferðinni. Er greinarmerkja- setning hans látin halda sér. „Nú héldum við áfram vestur í Víðidal, og var gott veður, og gist- um við á Lækjamóti og áttum þar gott. Svo var gott veður daginn eft- ir, og þá fórum við að Huppahlíð í Miðfirði og komum þar á miðjum degi. Eg man, að mér þótti snemma sest að, en foringinn okkar sagði, að það væri mátulegt. Svo var gott veður daginn eftir, og þá lögðum við á Hrútafjarðarháls. Við lásum (bænir) ætíð á morgnana, þegar við fórum frá hverjum bæ. Okkur gekk vel yfir hálsinn, og héldum að Óspaksstöðum og þaðan ætluðum við að leggja á Holtavörðuheiði morguninn eftir. En morguninn eft- ir var komin ofsahláka á sunnan og nærri óstætt veður, og reif snjóinn, sem þá var orðinn einn krapaelgur, og var nú ekki tilhugsandi að leggja á heiðina. En þegar komið var um hádegi, langaði mig til að vita, hvemig Rauðku minni liði. Var hesthúsið á hól nokkuð fyrir utan bæinn, ég fer þangað, og leið henni vel, og öllum hrossunum. En þegar ég ætla heim aftur, horfi ég út eftir dalnum, og er allt í loga- svelli, og sé, að koma sex menn baksandi á móti veðrinu, og geng- ur þeim illa að komast áfram, sem von var, en allt í einu fýkur af mér húfan og flýgur eins og fugl rétt í fangið á mönnunum, svo ég hélt, að þeir myndu hafa náð henni, svo ég beið eftir þeim. En það var ekki svo vel. Þeir sögðust ekki hafa get- að náð henni, hvað fegnir sem þeir hefðu viljað. Nú kom ég heim ber- höfðaður, og margir kenndu í brjósti um mig að missa húfuna, en ég hló og sagði, að þetta væri mér að kenna, ég hefði getað bundið á mig húfuna, því það voru bönd í henni til þess, og svo hefði ég ekki þurft að vera að flana þetta. Svo skellihló ég, en það var kuldahlát- ur, því það var ekki álitlegt að vera berhöfðaður, og húfan var gott höf- uðfat, en verst þótti mér að missa hana, af því hún systir mín gaf mér hana. Nú streymdu menn að allan daginn, sumir með hesta, en sumir gangandi, og voru þeir orðnir tutt- ugu og þrír um kvöldið og allir ætl- uðu suður. Nú var farið að ráðgast um, hvernig ætti að fara með mig, ekki gæti ég verið berhöfðaður. Þá kom einn með rauðan flókahatt, sem hann sagðist geta misst, og fékk ég hann, en ekki man ég, hvort hann gaf mér hann eða seldi, en ég varð að gera mér hann að góðu, þó hann væri mikið lakara höfuðfat. Nú var glatt um kvöldið, og mikið drukkið af kaffi og margt skrafað. Meðal annars heyrði ég gömlu mennina segja: „Það verður gaman að lifa á morgun, ef við get- um farið heiðina, því það eru svo margir, sem ekki hafa farið suður áður, og má dæma þá hjá Hæðar- steini.“ Eg spyr, hvernig þetta sé. Þeir segja, að það séu gömul lög, að ef einn sé eða fleiri sem ekki hafi farið suður áður, að þegar komið sé að Hæðarsteini, sem sé efst í heiðarsporðinum, þá eigi hver að koma með brennivínspott eða sauðarsíðu og gefa öllum hópnum, en geti hann það ekki, þá sé hann dæmdur. En dómurinn er: Að hann á að láta teyma sig þrisvar rangsælis í kringum steininn. Mér líst ekki á, því ekki hafði ég þetta til, og óskaði að við kæmum aldrei að Hæðarsteini. Loksins var farið að leggja sig fyrir og sofa, fjöldinn lá á gólfinu, en ég var látinn sofa í rúmi og þrír aðrir og hafði ég þar litla hægð. Um morguninn var komin suðvestan hríð og mikil fannkoma, en ekki hvass. Nú voru menn alvarlegir, og var farið að ráðgast um, hvað eigi að gera. All- ir sáu, að það var að hlaða niður fönn, og ef því héldi áfram, yrði heiðin ófær, svo það var tekið það ráð að leggja á heiðina í drottins nafni. Svo lagði allur hópurinn á stað, og var ekki gott, allt fullt af krapi eftir hlákuna. Svo var haldið á heiðina og gengu margir á undan, og kom mönnum saman um að fara yfir Snjófjöll, það væri skemmra og betri færð. Og nú voru valdir sex menn, þrír frískustu og kunn- ugustu til að ganga á undan. „En þá komum við ekki að Hæðarsteini“, sögðu sumir, og glaðnaði yfir mér. Svona var haldið áfram í hríðinni, og var færðin slæm, og oft máttu þeir stansa, sem á undan fóru, svo þeir, sem með hrossin voru, yrðu ekki alveg viðskila við þá, samt komumst við allir að Hlíð og feng- um þar kaffi og kostaði það fjóra skildinga og voru merkurbollar. Þá bjó þar Jósep og Sigríður, sem margir þekktu að öllu góðu. Ef maður bað að lofa sér að vera og bað um mat, þá kostaði það tú- mark, og var gjöf en ekki sala. Við vorum ellefu þar um nóttina, og varð þetta mesti uppáhaldsbærinn minn síðar. Daginn eftir var bjart veður, og héldum við áfram ferð okkar, og segir ekki meira af henni nema okkur gekk seint, því tíðin var stirð og mikill snjór. Við vorum hálfan mánuð á leiðinni. Við kom- um hrossunum fyrir á Kjalarnesi í hagagöngu, en fengum flutning sjóveg til Reykjavíkur. Ég man, hvað mér þótti gaman að sjá þessa miklu húsaþyrpingu. Ég man, að við gengum um margar götur til að sjá sem flest hús, og komum við í bakaríið og keyptum okkur góð smábrauð, en ég hafði ekki mikið að kaupa fyrir, sem von var.“ Vermennskan hafði þroskandi áhrif f riti Kristleifs Þorsteinssonar „Úr byggðum Borgarfjarðar“ er kafli um sjávarútveg og vermenn og þar segir hann ekki einungis frá ferð í verið, heldur fjallar einnig um viðhorf manna til verferða og segir þar: „En þótt vermennska væri eng- inn bókmenntaskóli, hafði hún þó mikil og þroskandi áhrif. í verinu kynntust menn úr ýmsum lands- fjórðungum og fræddust hver af öðrum á margan hátt. Og hin stöðuga barátta á sjónum efldi hug- rekki manna, því að oft var þar mjótt milli lífs og dauða. Sjó- mennskan var miklu meira ævin- týralíf en fjármennskan í fámenn- um fjalladölum. Vildu því flestir ungir menn mikið á sig leggja til þess að feta í spor feðranna og verða sjómenn sem þeir. Almenn- ingsálitið heimtaði það líka. Þeir, sem heima sátu, voru ekki taldir nema hálfir menn. Fullt kaup þurfti ekki sá maður að hugsa til að fá, sem ekki gat farið til sjávar. Á þetta var litið aðeins frá annarri hliðinni. Öll sú vanræksla sem var því sam- fara, að flest allir karlmenn yfir- gæfu heimilið yfir lengri tíma, var ekki lögð til verðs á móti því, sem sjórinn gaf í hreinan ágóða „ Og um ferðir Borgfirðinga í ver- ið segir Kristleifur: „Tíðast vorum við sjö til átta í hóp. Skyldu allir koma saman snemma morguns á Vilmundar- stöðum í Reykholtsdal. Þaðan var gengið suður fjöll, yfir Lundar- reykjadal hjá Reykjum og Englandi, yfir Skorradal hjá Efsta- bæ, þaðan yfir Botnsheiði. Nátt- staður var þá tekinn annað hvort í Botnsdal eða Brynjudal. Þegar þæfingsófærð var alla þessa leið og hvergi fóthvíld, voru flestir orðnir þreyttir, er í náttstað kom. Næsta dag var gengið í Mosfellssveit eða fremst á Kjalarnes, þegar Svína- skarð var ófært, sem oft bar við í fannalögum. Á þriðja degi var komið til Reykjavíkur. Var það leikur einn að ganga spölinn úr Mosfellssveitinni þangað. Þar var þá hvílst til næsta dags. Þó að Borgfirðingar hefðu þá ekki gengið í vínbindindi, kom það naumast fyrir, að þeir fengju sér í staupinu, er til Reykjavíkur kom. Svo voru þeir þá miklir hófsmenn. í Reykjavík var aldrei tafið lengur en til næsta dags. Var þá gengið þaðan til veiðistöðvanna.“ Stöðugur ótti og óvissa Það voru ekki aðeins erfiðar ferðir í og frá veri og sú stöðuga hætta sem vermennirnir voru í við sjóróðrana sem gerðu þessa at- vinnu erfiða. Langar fjarvistir frá heimilum og stöðug óvissa og ótti reyndi mjög á menn. Sumir ver- menn fóru frá heimilum sínum án þess að hafa vissu fyrir að fjöl- skylda þeirra gæti bjargað sér á meðan þeir væru fjarverandi og eiginkonur og unnustur sem sátu heima bjuggu líka við stöðugan ótta, vitandi það að margir þeirra er að heiman fóru í verið myndu ekki eiga afturkvæmt. Ferðir milli landshluta, sérstaklega að vetrar- lagi, voru mjög af skornum skammti. Þó kom það fyrir að menn tóku að sér það hlutverk að bera bréf eða skilaboð á milli og voru það einkum eldri menn sem ræktu það hlutverk og kom oft fyr- ir að þeir voru svo lengi í förum að vermennirnir voru jafnvel komnir heim á undan þeim. Kristleifur Þorsteinsson lýsir hinni nagandi óvissu vel í fyrrnefndu riti sínu, þar sem hann segir: „Á heimilunum ríkti óttabland- Búðirnar sem vermenn bjuggu í á meðan á ver- tíðinni stóð voru hvorki stór né reisuleg húsa- kynni. Myndin er af verbúð í Þorlákshöfn og er tekin um síðustu aldamót. Hún er úr bókinni Sjósókn og sjávarfang. inn dapurleiki alla vertíðina. Fólk- ið, sem heima var, konur, börn og gamalmenni, horfðu á eftir sjó- mönnunum leggja af stað frá heim- ilunum, gangandi með byrðar á baki, oft í ófærð og byljum eða þá rosum og vatnavöxtum. tír því komu engar fréttir frá þeim vikun- um saman. Enginn póstur og engir ferðamenn frá sjó urðu til þess að bæta úr fréttaleysinu. Uppgefnir karlar fóru að flakka um sveitirnar nokkrum vikum eftir að vermenn fóru. Voru þeir þá að snapa saman bréf til þeirra. Röltu þeir svo af stað, suður með öllum veiðistöðv- um, að skila þessum bréfum og buðust jafnframt til þess að taka fréttabréf frá vermönnum heim í sveitirnar aftur. Karlar þessir voru allir af vilja gerðir að leysa starf sitt sem best af hendi. En þessi smalamennska útheimti svo mörg spor, að oft var komið að vertíðar- lokum, er þeir komu aftur úr ferða- laginu. En þeir urðu mjög vinsælir af þessari atvinnu og var jafnan tekið með fögnuði. Ekkert verðlag höfðu þeir á þessari bréfafærslu. Létu hvern og einn ráða borgun- inni. Reyndist þeim sú aðferð oft happadrjúg. Þó voru til stöku heimili, sem engin not höfðu þess- ara góðu gesta af þeirri orsök, að enginn þeirra, sem heima var, kunni að skrifa. Líka voru þeir menn alltaf í og með við sjó, sem ekki lásu skrift og því síður, að þeir kynnu að skrifa. Voru þeir þó stundum formenn og höfðu gott vit á öllu, sem að því laut, þó að bókvitið brysti. En hálf- illa gat sá menntunarskortur komið sér, t.d. ef þeir fengu ástarbréf frá kærustunum eða þá svar við bón- orði og voru milli vonar og ótta, hvort það gengi þeim í vil eða eigi. Stóð þá ekki á litlu að ná í trúan og þagmælskan lesara. Reyndist þá oft sem endranær, að „betra er hjá sjálfum sér að taka, en sinn bróður að biðja.“ En þótt verferðirnar væru erfiðar og hættulegar og sjórinn tæki mik- inn toll hvíldi samt ævintýraljómi yfir þeim og eins og áður er vikið að vildu menn mikið á sig leggja til þess að komast á sjóinn. I sveitum Norðanlands héldu margir í verið þegar á unglingsárum og stunduðu slíka atvinnu meðan heilsa og þrek leyfði. Verferðir og verbúðalíf buðu upp á ýmislegt sem menn höfðu ekki völ á,í fábrotnu sveita- lífinu og voru verbúðirnar eins konar lýðháskóli síns tíma. Þar lærðu menn ekki aðeins handtök við sjómennsku og fiskvinnslu, heldur einnig margs konar aðra iðju. Tómstundir vermanna voru furðumargar, enda ekki hægt að róa nema í því sem menn töldu ör- uggar gæftir og því stundum land- legur dögunum saman. Þá söfnuð- ust menn gjarnan saman, sagðar voru sögur, farið með vísur og kveðnar rímur að því ógleymdu að ungir menn reyndu oft með sér í íþróttum og þá sérstaklega ís- lenskri glímu en vafalaust má þakka verbúðalífinu það að sú íþróttagrein hélt velli í svo langan tíma. Þríbarnaða prófastsdóttirin Annan kost höfðu þessir „þjóð- flutningar“ líka. Blóðblöndun landsmanna varð mun meiri en hún hefði ella orðið. Oft kom fyrir að vermenn settust að og kvonguðust í fjarlægum byggðum og eins gerð- ist það stundum að vermenn sem voru á leið milli héraða kynntust heimasætum eða vinnukonum á þeim bæjum sem þeir gistu á leið- inni. Jafnvel velærubornar höfð- ingjadætur létu fallerast af ver- mönnum og má sem dæmi um slíkt nefna hina skemmtilegu þjóðsögu um Árna Jónsson frá Stað í Hrúta- firði. Þegar hann var fimmtán vetra fór hann í flokki þrjátíu Hrútfirð- inga í verið. Komu þeir að Stafholti í Borgarfirði en þá bjó þar prestur og prófastur, Guðmundur að nafni, og átti hann eina dóttur, sem þá var gjafvaxta og þótti hinn mesti kven- kostur. „Um kvöldið var þeim skipað í rekkjur, þremur í hverja, því að mjög var þröngt; seinast var Árni litli frá Stað einn eftir og segja þá stúlkur í gamni að þær verði að stigna honum einhverstaðar í mis- fellu hjá sér.“ Þetta heyrðu félagar Árna og lofuðu að gefa honum sína tíu dalina hver, ef hann svæfi hjá dóttur prófastsins og gæti sannað það með jarteiknum. Var Árna vís- að í rúm hjá öðrum dreng en þegar ró var komin á í baðstofunni lædd- ist hann í rúm prófastsdótturinnar og hvíslaði að henni hverju fram hefði farið. „Illt mun það,“ segir hún, „að hjálpa þér eigi og máttu skríða hér undir klæðin hjá mér ef þú vilt, því að einu mun gilda hvar þú liggur." Skreið Árni síðan upp í hjá prófastsdóttur og „segir ekki frá hvað þau léku saman.“ Sagan segir síðan að Hrútfirðingarnir hafi verið veðurtepptir í Stafholti í fjóra daga og svaf Árni hjá prófastsdótt- urinni á hverri nóttu. Varð afrakst- ur „leikja“ þeirra sá að stúlkan varð þunguð og fæddi barn í fyllingu tímans. Varð prófasturinn æfur við og lagði þungan hug til Árna, sem vildi ganga að eiga stúlkuna. Rak prófasturinn Árna á braut þegar hann kom að Stafholti, en Árni hafði í heitingum og sagðist myndi barna stúlkuna aftur. Tókst honum það með miklum klókindum og raunar í þriðja sinn er hann kom að Stafholti í dulargervi og þóttist vera biskupsdóttir frá Hólum. End- aði sagan á farsælan hátt, þar sem Ámi fékk að lokum prófastsdóttur- ina og börnin, flutti norður í Hrúta- fjörð og varð þar gildur bóndi og farsæll. Bara hausinn eftir af hestinum Sá dularljómi sem lék yfir ver- ferðum og dvöl í veri kemur hvað skýrast fram í íslenskum þjóðsög- um en þar er aragrúi frásagna af vermönnum og ferðum þeirra. Þær sögur greina frá því að vermenn- irnir þurftu ekki aðeins að glíma við óblíð náttúmöfl á ferðum sín- um í og frá veri, heldur einnig úti- legumenn og jafnvel tröll. Flestar sagnanna hafa yfirbragð ævintýra en bera þess samt merki hversu mjög hefur verið hugsað og rætt um verferðirnar. Þessar sögur eru margar hverjar hreinar ýkjusögur, sem menn hafa sagt sér til gamans, aðrar áttu vafalaust við einhver rök að styðjast. Sem dæmi um ýkju- sögu eða gamansögu má nefna frá- sögn af ferð Bjarna frá Bjargi í Miðfirði í verið, en Bjarni hefur hlotið í sögunni viðurnefnið Bjarni vellygni. Sagt er frá að Bjarni hafi verið formaður suður í Garði og lagði hann af stað að heiman þegar komið var vel fram á vetur og aðr- ir vermenn voru komnir af stað. Reið Bjarni jörpum hesti og teymdi annan. „Er ei getið hvað hann hef- ur í böggum sínum nema tvö hálf- anker af sýru er Þórður frá Meiðar- stöðum hafði pantað hjá honum; fer hann nú á stað og ríður sem leiðir liggja suður á Holtavörðu- heiði, en þá hann kemur norðan til í Norðurárdal fer veður að kólna og hvessa svo valla hafði Bjarni út í hvassara veður komið; en þá hann hafði riðið um hríð lítur hann aftur til hests þess er hann teymdi og sá hann að eigi var annað en hausinn eftir af hestinum; hafði þá veðrið slitið hann úr hálsliðnum; sleppti þá Bjarni hausnum. Hvessti þá enn meir svo hann fauk af þeirri jörpu og kom víðs fjærri niður, en til allr- ar lukku þá náði hann með þumal- fingri í hestfax og dinglaði þar sem strá fyrir straumi í þrjú dægur. Slotaði þá veðrinu svo Bjarni sest á bak og getur ei ferða hans fyrr en hann kemur út á Akranes; hafði þá þar niður komið annað kvartilið og var mjög svo brunnið utan af hita sólar þar það hafði svo nær henni sveimað að það lítt kunni að stand- ast hita hennar.“ Sögur af slíkum köppum sem Bjarna vellygna hafa sjálfsagt ver- ið sagðar á landlegudögum í ver- um. Hver eða hverjir eru höfundar þeirra verður aldrei hægt að upp- lýsa en víst er að margar sagnanna bera miklu hugmyndaflugi og skáldskapargáfu vitni, þannig að þeir sem þær sögðu hafa sannar- lega verið sagnameistarar síns tíma. Hefndist fyrir kirkjuspjöllin Sumar sögur um vermenn sem skráðar eru sem þjóðsögur eiga sér hins vegar stoð í raunveruleikan- um. Sem dæmi um þær má nefna „Hólamannahögg“, þar sem mann- skaði á Tvídægru árið 1588 er und- irstaðan, og söguna um Jón Teits- son á Hafurgrímsstöðum þar sem spunnið er út frá slysi sem líklega hefur orðið á Ijallveginum yfir Haukadalsskarð í Dalasýslu. Sú saga greinir frá ungum manni, Jóni Teitssyni, sem ættaður var frá Starrastöðum í Skagafirði. Fjórtán vetra hafði hann burði á við fullorðinn karlmann og þegar hann var sextán vetra fýsti hann að fara suður til sjóróðra og fékk leyfi föð- ur síns til þess að slást í för með Hólamönnum, en sagt var að í þá tíð hefðu Hólamenn verið ódælir og illgjarnir og oflátar miklir. Fóru Hólamenn átján saman og var Jón sá nítjándi. Á leiðinni vestur byggðir úr Skagafirði fóru Hóla- menn illa að ráði sínu, fóru með ránskap og yfirgangi, en Jón ungi var aldrei í flokki þeirra heldur ætíð á eftir og borgaði fyrir nætur- greiða sinn. tít yfir tók þó er Hóla- menn komu að Stað í Hrútafirði. „Þar var þeim fengin kirkjan að sofa í og létu þeir nú sem verst og frömdu ýmsar svívirður og árnuðu allir þeim illa. Morguninn eftir var dimmt og drífa mikil, og líka var þeim sagt að Holtavörðuheiði væri ófær og höfðu nokkrir vermenn þar úr fjörðunum áður farið vestur Haukadalsskarð og Bröttubrekku til Borgarfjarðar, en þó bjuggust þeir á stað. Jón hafði þessa nótt verið á bæ þar skammt frá og kynnt sig vel sem fyrr. Vildi bóndi ekki hann færi um morguninn, en Jón lét ekki letjast og bað bóndinn vel fyrir honum. Hitti Jón Hólamenn og fór með þeim. Höfðu þeir illt auga á honum, en þó þorðu þeir ekki að ráða til hans. Þegar þeir komu upp á skarðið skall á blind- hríð með stórviðri og fannkomu. Þeir tóku nú stefnu eftir veðurstöðu og voru hinir áköfustu. Jón var á eftir sem vant var og teymdi báða hesta sína, gekk nú þannig um stund þar til allt í einu að Jón sá þá hverfa, og var hann þá kominn á fjallsbrún eina og höfðu þeir farið þar fram á snjóhengju og hún svo hlaupið niður undan þunganum af mönnunum og hestunum öllum og fóru þeir þar allir því þar voru þverhníptir klettar og hengiflug ofan; er þar síðan kallaður Bani og er hann í fjallinu fyrir norðan Haukadalsskarð; þar neðan undir er urð stór og hafa nú fyrir skömmu sést þar hestabein allmik- il.“ Þótt ósennilegt sé að þarna hafi farist fjöldi manna gæti vel verið að vermenn sem þarna voru á ferð hafi villst af leið og gengið fram af fjallsbrúninni. Allavega er þarna til örnefnið Vermannabani eða Bani. Höggþungir Hólamenn Þjóðsagan um „Hólamanna- högg“ á hins vegar örugglega rætur að rekja til hörmulegs atburðar er varð í janúarmánuði árið 1588, er 13 norðlenskir vermenn urðu úti á

x

Fiskifréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fiskifréttir
https://timarit.is/publication/1594

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.