19. júní - 19.06.2018, Side 45
Ársrit Kvenréttindafélags Íslands | 43
Konur í iðngreinum
Kynbundin mismunun, áreitni
og ofbeldi á sér stað í iðngreinum. Við
krefjumst þess að vera teknar alvarlega
og að við getum sagt frá án þess að það
komi niður á okkur í starfi.
Það er mikilvægt að eyða þessu
„konur kunna ekki” viðhorfi úr
iðnaðarstörfum á Íslandi. Við tókum
sama nám og sömu próf og þeir
iðnaðarmenn sem við vinnum með og
í mörgum tilvikum meiri reynslu en
margir aðrir, en samt á að mismuna og
niðurlægja okkur fyrir það eitt að hafa
píku.
Að þurfa að hlusta á athugasemdir
um útlit sitt, hvernig fötum maður
klæðist, uppspunnar sögur, óumbeðnar
snertingar og káf, uppnefni, niður-
læging fyrir framan aðra, óviðeigandi
skilaboð/myndir á Facebook og í
SMS-um, kynferðisleg áreitni frá eldri
mönnum fær mann til að gefast upp.
Í iðnstörfum er það oft þannig
að þegar strákar byrja í vinnu eru þeir
álitnir góðir þangað til annað kemur í
ljós en konur þurfa hins vegar að vinna
hart að því að vera álitnar góðar. Þegar
hópar koma í heimsóknir í fyrirtækin
sem við vinnum hjá upplifum við okkur
sem sýningardýr þar sem er passað upp á
að sýna konurnar á vinnustaðnum.
Við eigum ekki að þurfa að fara
niður á það plan að sætta okkur við
kynferðislega brandara, káf og grín á
okkar kostnað til að geta unnið með
körlum.
Það er mjög erfitt fyrir konur í
iðn greinum að koma fram og greina
frá sínum sögum því afar auðvelt er að
rekja þær til okkar aftur. Við teljum þó
nauðsynlegt að rödd okkar heyrist í stað
þess að ætlast til þess að við séum ekki
með vesen og hundsum kynferðislega
áreitni. Hingað til hafa gerendur sloppið
auðveldlega þegar við þorum að segja
frá meðan við erum jafnvel teknar úr
verkefnum frekar en gerandinn.
Sem betur fer eru fá skemmd epli
í hópnum og við höfum unnið með
frábærum mönnum sem hafa komið
fram af jafnrétti og virðingu, við vonum
innilega að þeir sem koma svona illa
fram við kvenfólk líti í eigin barm og
taki sig á því kynferðisleg áreitni og
niðurlæging er óásættanleg.
Við krefjumst þess að allir
samstarfsmenn okkar taki ábyrgð á að
uppræta vandamálið, að viðeigandi
yfirvöld, stéttarfélög og fyrirtæki í
karllægum iðnaðarstörfum komi sér
upp verkferlum og viðbragðsáætlun
gegn kynbundinni áreitni.