19. júní - 19.06.2018, Síða 85
Ársrit Kvenréttindafélags Íslands | 83
Í upphafi þessa árs hélt leshringur
Kvenréttindafélagsins upp á 25 ára
starfsafmæli sitt. Snemma í janúar 1993
var samþykkt í stjórn félagsins að stofna
til leshrings meðal félagskvenna með
áherslu á að lesa kvennabókmenntir.
Ragnhildur Vigfúsdóttir, sem þá sat í
stjórn félagsins fyrir hönd Kvennalistans,
var valin til að veita hópnum forystu.
Hún boðaði til fyrsta fundar leshringsins
á skrifstofu félagsins 29. janúar 1993,
sem telst því stofndagur þessa lífseiga
félagsskapar. Á fundinn mætti ein
félagskona auk Ragnhildar sjálfrar. Það
var Björg Einarsdóttir sem enn starfar
með hópnum af fullum krafti, komin á
tíræðisaldur.
Mjór er mikils vísir og þótt fáliðað
væri á fyrsta fundinum fjölgaði fljótt
í hópnum. Þegar í byrjun stóð hann
einnig opinn konum utan félagsins
og komu þær úr ýmsum áttum, úr
bókmenntanámi við Háskóla Íslands
og víða að úr atvinnulífinu með margs
konar bakgrunn og menntun. Eins og
konurnar úr Kvenréttindafélaginu voru
þær á ýmsum aldri og þannig skapaðist
strax í upphafi fjölbreytileiki sem hefur
auðgað og mótað starf leshringsins æ
síðan. Félagatalið hefur að sjálfsögðu
breyst á þessum langa tíma. Um tuttugu
konur voru skráðar í hópinn þegar mest
var þótt aldrei kæmu svo margar á fund
samtímis. Nú eru 17 konur skráðar í
leshringinn og hefur meirihluti þeirra
verið með í starfinu í tvo áratugi eða
lengur. Kjarni tíu til tólf þessara kvenna
sækir flesta fundi og viðburði á snærum
hópsins. Tengslin við upprunann í
Kvenréttindafélaginu hafa vissulega
dofnað með tímanum en aldrei rofnað
að fullu.
Þegar í upphafi voru lagðar línur
um hvaða lesefni skyldi vera á dagskrá
leshringsins, þ.e.a.s. kvennabókmenntir
í rúmum skilningi. Bækur eftir konur
og um konur hafa alla tíð verið í aðal-
hlutverki, mest íslenskar skáld sögur en
einnig hafa þýdd verk erlendra kven-
rithöfunda frá ýmsum tímum verið
lesin. Auk skáldverkanna hefur hóp-
urinn tekið fyrir annars konar ritverk
kvenna, t.d. leikrit, ljóð og fræðirit
um sögu kvenna og listsköpun. Þegar
ástæða hefur þótt til hafa rit eftir
karla einnig fengið að fljóta með,
einkum bækur þar sem líf eða staða
kvenna er í brennidepli. Hugtakið
kvennabókmenntir hefur því fengið
annað og rýmra inntak hjá leshringnum
en almennt er viðtekið.
Fundir og fyrirkomulag
Starfið í leshringnum hefur verið
með svipuðu sniði alla tíð. Fundir
eru haldnir einu sinni í mánuði frá
september og fram á vor og fara þeir
yfirleitt fram að loknum vinnudegi á
einhverju góðu veitingahúsi í borginni
eða jafnvel í nágrannabæjum. Í
desember hafa fundir þó oftast verið
haldnir á heimili einhverrar í hópnum
og þar hafa konur iðulega lagt til
frumsamið efni eða efni að eigin vali sem
tengist jólum. Í byrjun starfsárs er lagt á
ráðin um lesefni fram að áramótum en
þegar komið er saman á nýju ári segir
hver og ein frá nýútgefnum bókum sem
hún las um jólin. Oft vaknar þá áhugi
á að taka einhverja þeirra bóka fyrir á
vormisserinu en að öðru leyti er lesefni
skipulagt fram í maí. Venjulega lýkur
starfsárinu síðan með skemmtiferð út
fyrir borgina í sumarbyrjun.
Lengi framan af voru fundirnir
haldnir á sama stað, á loftinu á
Lækjarbrekku, en einnig lagði hópurinn
undir sig sparistofu á veitingastaðnum
Caruso til fundahaldsins um nokkurra
ára skeið. Nú ríkir meiri nýjungagirni
í vali fundarstaða. Oft hefur ein úr
hópnum tekið að sér að hafa stutta
framsögu um verkið sem er á dagskrá
og höfund þess og leiða síðan umræður.