Morgunblaðið - 16.10.2021, Side 16
16 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 16. OKTÓBER 2021
Bí 110
Tr
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Nýr veitingastaður, Gaia, hefur tek-
ið til starfa í húsinu Sólfelli við
Gömlu höfnina í Reykjavík. Þar
verður lögð áhersla á fiskrétti.
Vegna heimsfaraldurs kórónuveir-
unnar hefur engin veitingastarfsemi
verið þarna undanfarna mánuði. Er
gleðilegt að líf færist í húsið að nýju,
en það á einmitt 100 ára afmæli á
þessu ári.
Húsið Sólfell var reist á Kirkju-
sandi árið 1921 af Th. Thorsteins-
syni fiskverkanda. Það var þá stærst
saltfiskvinnsluhúsa sem þar stóðu og
á sinn hátt það tæknivæddasta, að
því er fram kemur í samantekt á
heimasíðu Minjaverndar. Þeir sem
virða fyrir sér þetta glæsilega hús í
dag hafa örugglega ekki getað
ímyndað sér hvar húsið stóð upp-
haflega og hvert var hlutverk þess.
Saltfiskvinnsla var umfangsmikill
atvinnuvegur á þessum árum og
mikil verðmæti fóru um þau hús sem
til þeirrar vinnslu voru notuð. Eftir
standa nú einungis tvö slík hús í
Reykjavík, Sólfell og hús Alliance
við Ánanaust.
Sólfell þurfti að víkja
Eftir að saltfiskvinnsla lagðist af á
Kirkjusandi var húsið notað fyrir
bifreiðaviðgerðir og sem geymsla.
Undir lokin notuðu Strætisvagnar
Reykjavíkur húsið um langt árabil.
Árið 2007 stóð til að byggja höf-
uðstöðvar Glitnis á Kirkjusandi og
Reykjavíkurborg seldi lóð SVR fyrir
þær byggingar. Sólfell var þá fyrir
þeim áformum og þurfti að víkja.
Var húsið þá mjög illa illa farið eins
og meðfylgjandi mynd ber með sér
og mikilla viðgerða þörf. Minja-
vernd, sem um árabil hefur staðið
fyrir endurbyggingu gamalla húsa,
samdi þá við Reykjavíkurborg um að
taka húsið yfir og var það gert á
haustmánuðum 2007. Viðbygging
við það var tekin niður, en húsið
sjálft flutt til geymslu.
Á vormánuðum 2010 var farið að
huga að framtíðarstaðsetningu fyrir
húsið og þótti mikilvægt að það
stæði nálægt sjó. Minjavernd leitaði
til Faxaflóahafna um staðsetningu
og var vel tekið. Var húsinu fundinn
staður og útbúin lóð sem heitir nú
Ægisgarður 2. Húsið var flutt á sinn
framtíðarstað á vorið 2011 og veit-
ingarekstur hófst síðan í húsinu á
haustmánuðum 2011. Það sómir sé
vel við sjóinn, í næsta nágrenni við
gömlu verbúðirnar.
Við endurgerð hússins var lögð
áhersla á að fyrra yfirbragð þess
héldi sér að því marki sem kostur
var, segir á heimasíðu Minjavernd-
ar. Þannig eru gluggar þess í dag
sams konar og áður voru, panell á
veggjum inni var endurnýttur og
innra burðarvirki endurgert. Komið
var fyrir millipalli í gamla húsinu, og
reist nýbygging við norðurhlið þess,
sem hefur sama form og sú viðbygg-
ing sem áður stóð við þá sömu hlið.
Sólfell stendur við hlið grænu ver-
búðanna, sem setja mikinn svip á
hafnarsvæðið. Upphaf verbúðanna
við Suðurbugt má rekja tæp 90 ár
aftur í tímann eða til ársins 1933.
Það ár sótti hafnarstjórn Reykjavík-
ur um byggingarleyfi fyrir 10 ver-
búðum úr á uppfyllingu hafnarinnar
við Tryggvagötu, austan Slippsins.
Vinsælt svæði við höfnina
Með byggingu verbúðanna vildi
hafnarnefndin freista þess að efla
vélbátaútgerð í Reykjavík. Árið 2008
samþykkti stjórn Faxaflóahafna að
heimila breytta og víðtækari nýt-
ingu verbúðanna við Geirsgötu. Nú
má finna í verbúðunum gömlu vin-
sæl veitingahús, verslanir og þjón-
ustufyrirtæki sem hafa dregið að sér
mikinn fjölda manna dag hvern, ekki
síst á sumrin.
Morgunblaðið/Sverrir
Illa farið Gamla saltfiskvinnsluhúsið var farið að láta verulega á sjá þegar það var flutt
brott frá Kirkjusandi. Minjavernd tók húsið yfir og gerði það upp með miklum glæsibrag.
Morgunblaðið/sisi
Sólfell við Ægisgarð Gamla fiskvinnsluhúsið er nú aðsetur nýs veitingastaðar sem heitir Gaia. Húsið
var málað rautt og setur það óneitanlega mikinn svip á Gömlu höfnina rétt við miðbæ Reykjavíkur.
Veitingar í 100 ára gömlu húsi
- Veitingastaður opnaður í Sólfelli við Gömlu höfnina - Var áður saltfiskvinnsluhús á Kirkjusandi
Verkefnastjórar Brothættra byggða
og sambærilegra byggðaþróunar-
verkefna komu saman til fundar í
húsakynnum Byggðastofnunar á
Sauðárkróki dagana 12. og 13. okt. sl.
„Ánægjulegt var að hópurinn gat
loksins hist á staðfundi eftir langan
tíma eftir takmarkanir vegna CO-
VID-19,“ segir í frétt á heimasíðu
stofnunarinnar.
Dagskráin var þéttskipuð. Farið
var yfir verkefnislýsingu Brothættra
byggða og ýmis praktísk málefni
tengd framkvæmd og umsýslu verk-
efna í þátttökubyggðarlögunum. Að-
alsteinn Þorsteinsson forstjóri
Byggðastofnunar kynnti hlutverk og
starfsemi Byggðastofnunar. Fund-
argestum gafst færi á að kynnast
nánar lánamöguleikum Byggðastofn-
unar, ýmissi þróunarvinnu á sviði
byggðamála, s.s. þróun mælaborða
um byggðatengd málefni og aðgerða-
áætlun byggðaáætlunar stjórnvalda.
Dr. Hólmfríður Sveinsdóttir hélt
erindi sem hún nefndi Tækifæri
byggðanna. Í erindi sínu kom Hólm-
fríður inn á margvísleg málefni tengd
frumkvöðlastarfi og mikilvægi breiðs
samstarfs. sisi@mbl.is
Ljósmynd/Kristján Þ. Halldórsson
Byggðastofnun Það var létt yfir þátttakendum þegar þeir stilltu sér upp.
Verkefnastjórar
gátu loksins hist