Morgunblaðið - 31.12.2021, Blaðsíða 8
8 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 31.12. 2021
Umferðin í Reykjavík nálgast það að vera jafn
mikil og árið 2019, árið þegar tvær milljónir er-
lendra ferðamanna sóttu landið heim og
spændu upp göturnar með okkur hinum. Áfeng-
issalan er í blóma og sólarþyrstir Íslendingar,
sem láta hræðsluáróður um kórónuveiruna ekki
á sig fá, þyrpast til Tenerife. Þótt flug-
samgöngur séu skrykkjóttar segir ólyginn mér
að vélarnar sem stefnt er að Snjófjallinu (eins
ótrúlegt og það kann að hljóma er eyjan kennd
við einmitt það) séu sneisafullar og allir í hátíð-
arskapi.
Flest ber þetta þess merki að aðlögunar-
hæfni mannsins sé mikil. Hagkerfið tekur svip
af því og það er með ólíkindum að rýna í opin-
berar tölur um stöðu þess. Þótt stærsti atvinnu-
vegur þjóðarinnar hafi svo gott sem þurrkast út
á einni nóttu bendir flest til þess að efnahagur
landsins standi styrkum fótum.
Engin óviðráðanleg verkefni
Áskoranirnar eru sannarlega margar, en engin
þeirra virðist tröllaukin eða óviðráðanleg.
Þegar rýnt er í sömu tölur og marga alþjóð-
lega mælikvarða bendir flest til þess að á árinu
2021 hafi íslenskt samfélag búið við meiri vel-
sæld en nokkru sinni fyrr í sögu sinni. Nýju ári,
sem nú gengur í garð, gætu fylgt enn frekari
framfarir, flestum landsmönnum til heilla.
Landsframleiðslan tók eðlilega á sig þungt högg
á árinu 2020. Samdráttur mældist 6,5% sem er
gríðarhögg á flesta mælikvarða og annar mesti
samdráttur í lýðveldissögunni. Aðeins árið 2009
dróst verg landsframleiðsla meira saman, eða
um 7,7% og aftur 2,8% 2010.
Í dag gerir Seðlabankinn ráð fyrir að hag-
vöxtur þessa árs mælist 4% og sennilegt að
hann verði 5% á komandi ári. Þar þurfum við
hins vegar að njóta loðnunnar og ferðamann-
anna en báðir hóparnir hafa lítið látið á sér bera
þegar hér er komið sögu.
Þegar ferðaþjónustan þurrkaðist út, og allar
hennar fjölmörgu stoðgreinar misstu spón úr
aski sínum, jókst atvinnuleysi mjög hröðum
skrefum og þegar verst lét í byrjun þessa árs
voru ríflega 20 þúsund manns á atvinnuleys-
isskrá. Með samstilltu átaki stjórnvalda og
sveigjanleika íslensks vinnumarkaðar eru at-
vinnutölur að nálgast fyrri mörk, þótt enn sé
nokkuð í land. Fari ferðaþjónustan í gang á
nýju ári verður lítið annað eftir en leitar-
atvinnuleysi sem er eðlilegur fylgifiskur heil-
brigðs efnahagslífs. En þrátt fyrir þetta gjörn-
ingaveður á vinnumarkaði hefur launaþróunin
öll verið upp á við, sem er þvert á allar kenn-
ingar um hvert hún ætti að leita við viðlíka að-
stæður. Launavísitala Hagstofunnar hækkaði
um 6,3% í fyrra, í storminum miðjum, og tölur
nóvembermánaðar (þær nýjustu sem við höfum
við höndina) sýna að sama vísitala hefur hækk-
að um 7,5%, mælt 12 mánuði aftur í tímann.
Auki um það sem ekki jókst
Að einhverju leyti skýrist þetta af því að þótt
eftirspurn eftir vinnuafli hafi þorrið þá jókst
hún mjög í öðrum greinum, enda hefur
einkaneysla og fjárfesting verið á talsverðri
siglingu í mörgum geirum. Annað sem skýrir
þessa þróun, sem er í aðra röndina óheppileg
þegar hagkerfið gengur í gegnum jafn
krefjandi tíma, er vinnumarkaðsmódelið.
Kjarasamningar voru undirritaðir árið 2019 í
skugga falls WOW air. Atvinnurekendur, allir
sem einn, eru fastir inni í þeim samningum þótt
flestar forsendur hafi brostið. Firringin nær svo
hámarki þegar ákvæði um hagvaxtarauka virkj-
ast á nýju ári. Ákvæðið var sett inn til að
tryggja jafna skiptingu aukinnar framleiðni í
hagkerfinu (mælt í hagvexti á mann) ef hún yrði
einhver. Þegar hagkerfið skrapp skyndilega
saman eins og blaðra sem loft fer úr er senni-
legt að viðsnúningurinn í hagkerfinu geti orðið
hraður, eins og raunin hefur orðið (V-laga þró-
un hagvaxtar) og þá myndast hagvaxtarauki
sem er enginn auki, heldur endurheimt þess
sem glatast hafði. Enn munu laun aukast í byrj-
un árs.
Vopnaskakið er áhyggjuefni
Gerist það á grundvelli kjarasamninga sem svo
munu renna sitt skeið á enda undir lok ársins.
Fátt bendir til að vinna við gerð nýrra samninga
sé komin á nokkurn rekspöl og miðað við vopna-
glamur sem berst úr herbúðum verkalýðshreyf-
ingarinnar er fátt sem bendir til annars en að
knýja eigi á um enn frekari launahækkanir,
þvert á alla geira, algjörlega óháð því hvort inn-
stæða sé fyrir því eða ekki. Nýverið tjáði for-
stjóri Festar sig um þessa stöðu og benti á
óþægindin sem fylgi því að þurfa að deila við
fólk um það hvort það sé í raun fimm stiga hiti
úti fyrir glugganum, jafnvel þótt allir mælar
staðfesti það. Sennilega munu slíkar deilur hins
vegar rísa og mikilvægt að atvinnurekendur og
stjórnvöld standi í lappirnar. Það er rétt sem
seðlabankastjóri benti á í viðtali við undirrit-
aðan í ViðskiptaMogganum 13. október síðast-
liðinn, að það eru fáir ef nokkrir líklegri til að
skemma fyrir okkur en við sjálf. Mistök við
kjarasamningagerð sem draga úr samkeppnis-
hæfni hagkerfisins er sennilega efst á blaði þeg-
ar listað er upp hvar pyttirnir helst dyljast í
þeim efnum.
Samanburðurinn afar hagfelldur
En aftur að spurningunni um lífsgæðin í land-
inu. Þau eru að sjálfsögðu ekki fullkomin hjá öll-
um og enn þarf að gera betur til að tryggja að
almannatryggingar nýtist þeim sem á þeim
þurfa að halda. Ótrúlegt er að heyra frásagnir
af því að hálaunamenn frá fornu fari þiggi fullan
ellilífeyri upp á nokkur hundruð þúsund á mán-
uði úr almannasjóðum á sama tíma og þeir taki
jafnvel milljón krónur á mánuði út úr séreignar-
sjóði sínum innan almenna lífeyriskerfisins. Þar
hafa „kerfisfræðingar“ fundið holur eða galla í
kerfinu sem kveða á um að séreign skuli ekki
skerða rétt til bóta. Löggjafinn sá þar aldrei
fyrir sér að menn sætu til ára og jafnvel áratug-
ar á sameignarrétti í lífeyrissjóði og gengju
þess í stað einvörðungu á séreign sína. Þarna er
dæmi um kerfisgalla sem mætti laga til að beina
stuðningi til þeirra sem í raun þurfa á honum að
halda. Mikil er skömm þeirra sem misnota kerf-
ið.
Líkt og meðfylgjandi tafla sýnir raðar Ísland
sér í efstu sæti ríkja með mesta þjóðarfram-
leiðslu á mann, mælt í dollurum. Landið vermir
ekki fyrsta sætið en taka þarf tillit til ýmissa
þátta, t.d. þeirrar staðreyndar að Bandaríkja-
menn taka mun styttra sumarleyfi en við. Þá
skipta aðrir þættir miklu máli, t.d. öryggi og
frelsi. Þar skorar íslenskt samfélag hærra en
flest önnur. T.d. er morðtíðni hér lægri en ann-
ars staðar, er í kringum 0,2 á hverja 100 þúsund
íbúa. Hlutfallið er 5 í Bandaríkjunum, 1,2 í Sví-
þjóð og ríflega 1 í Danmörku. En það er fleira
sem felst í öryggi en lág morðtíðni. Ungbarna-
dauði er minni hér en nokkurs staðar á byggðu
bóli og í því felst ómetanlegt öryggi fyrir nýbak-
aða foreldra. Eins er tryggingaréttur mjög rík-
ur, t.d. þegar Íslendingar ferðast erlendis, og
kemur fólki oft á óvart hversu vel við stöndum í
þeim efnum, þegar slys eða veikindi henda utan
landsteinanna. Þessir mælikvarðar og fjölmarg-
ir aðrir vitna um einstaka stöðu þjóðfélagsins.
Þá var nýlega greint frá því að alþjóðleg vísitala
yfir styrkleika lífeyriskerfa sýndi fram á að
ekkert kerfi væri sterkara en það sem hér hefur
verið byggt upp af miklu harðfylgi síðustu 50
árin rúm. Til framtíðar litið mun sú staða
tryggja forystu Íslands í lífskjarasókninni enn
frekar í sessi.
Tækifærin liggja við hvert fótmál
Hrein orka og nýtanleg er síst af skornum
skammti í landinu. Fiskistofnanir, eins hvikulir
og þeir eru, gefa heilt yfir mjög vel af sér og
virðast sjálfbærir. Ferðaþjónustan á mikið inni
enda Ísland spennandi og framandi áfanga-
staður, þótt hann sé á sama tíma svo að segja í
alfaraleið.
Það eru forréttindi að búa á Íslandi og hefur
verið um langt skeið. Börn sem nú líta dags-
ljósið í fyrsta sinn, og njóta þess að gera það á
Íslandi, eru í flestum tilvikum heppnustu börn í
heimi. Sennilega einnig þau ríkustu.
Næsta stóra lífskjarasókn er aukinn frítími sem fólk getur nýtt til lífsins lystisemda. Aukin sjálf-
virkni og áhersla á framlegð starfa í stað vinnutíma breytir lífsháttum okkar gríðarlega.
1
9
17
2
16
50
21
1
11
26
19
4
17
1
21
157
193
197
42
189
216
148
164
172
84
197
169
194
253
152
Staða Íslands á lista Fjöldi landa á lista
Staða Íslands
í alþjóðlegum samanburði
Landsframleiðsla
á mann árið 2020
Mælt í dollurum að teknu
tilliti til kaupmáttarjafnvægis
Kynjajafnrétti (WEF)
Alþjóðlegur friðarvísir (IEP)
Lýðræðisvísir (The Economist)
Vísitala yfir lífeyriskerfi (Mercer)
Þróun mannkyns (SÞ)
Framfaravogin (SPI)
Efnahagslegt frelsi (HF)
Fjölmiðlafrelsi (RFS)
Umhverfisvísir (YALE)
Spilling (Transparency Int.)
Eignarréttarvísir (IPRI)
Alþj. nýsköpunarvísir (INSEAD)
Samkeppnishæfni (IMD)
Einfaldleiki viðskipta (Alþjóðab.)
Alþjóðavæðing (KOF)
Bandaríkin
Noregur
Danmörk
Holland
Ísland
Svíþjóð
Þýskaland
Finnland
Kanada
Bretland
Japan
Ítalía
Heimild: Viðskiptaráð Íslands, Hagstofan
og heimasíður viðkomandi stofnana
63.415
63.293
60.566
59.334
55.213
54.913
54.315
51.095
48.090
44.929
42.939
41.491
Ríkasta fólk í heimi
Eftir tvö ár í faraldri þar sem höfuðatvinnugrein þjóðarinnar þurrkaðist út virðist íslenskt samfélag aldrei hafa staðið styrkari fót-
um. Færa má þungvæg rök fyrir því að engin þjóð hafi nokkru sinni búið við sömu velsæld og sú íslenska um þessar mundir.
STEFÁN EINAR STEFÁNSSON
er fréttastjóri viðskipta á Morgunblaðinu
Þá var nýlega greint frá því að alþjóðleg vísitala
yfir styrkleika lífeyriskerfa sýndi fram á að
ekkert kerfi væri sterkara en það sem hér hefur
verið byggt upp af miklu harðfylgi síðustu 50 árin rúm.
TÍMAMÓT: EFNAHAGUR LANDSINS STENDUR AF SÉR BYLMINGSHÖGG VEGNA KÓRÓNUVEIRUNNAR
’’