Bjarmi

Árgangur

Bjarmi - 01.06.2017, Blaðsíða 27

Bjarmi - 01.06.2017, Blaðsíða 27
sannarlega svo slegin djúpri hryggð að ég get ekkí trúað neinum manni fyrir sorg hjarta míns. Og ég veit ekki hvað ég á af mér að gera, ég kem engu í verk og get ekki fest hugann við neitt. Ég get hvorki borðað né sofið.“25 Það er erfitt að gera sér fulla grein fyrir því hve stór þáttur Katarínu er í lífsverki Lúthers, einkum siðbótarstarfi hans. Vissulega var hjálp hennar háð vissum annmörkum, en hér ber samt að hafa í huga að hún hafði notið góðrar menntunar í klaustri og var vel að sér. Hún gerði sér líka fulla grein fyrir því hvað siðbótin stóð fyrir. Nægir bara að minna á að það var fyrir rit Lúthers, sem smyglað hafði verið inn í nunnuklaustrið, að hún snerist til liðs við siðbótina. Og þegar hún gekk að eiga Lúther tók hún, eins og áður er sagt, á sig þá bannfæringuna sem hvíldi yfir honum að vissu leyti. Siðbótin var því hjartans mál hennar. Ef að líkum lætur hefur hún lesið yfir handrit Lúthers og komið með ábendingar. í þessu samhengi er rétt að geta þess að fyrir hennar orð skrifaði Lúther andsvar við riti Erasmusar frá Rotterdam, „Um hinn frjálsa vilja“, og reit eitt merkasta guðfræðirit sem skrifað hefur verið, „Um ánauð viljans". Lúther skrifaði og hélt einnig húslestra eða prédikanir og til eru margar frásögur af því þegar hann átti í rökræðum við konu sína. Það er því ekki allskostar rétt að álíta að guðfræðin og starf Lúthers hafi ekki fallið undir starfssvið hennar. Ég leyfi mér að fullyrða að siðbótin var baráttumál þeirra beggja og það er leitt hversu lítið hefur verið gert úr hlut kvenna í siðbótinni að undanförnu. Konur siðbótarmannanna voru oft nunnur og þær vissu vel að með því að ganga í hjónaband stefndu þær lífi sínu í hættu. Hjónaband þeirra var játning sem byggðist á samfæringu þar sem allt var lagt undir. Og margar hverjar veittu siðbótinni lið með guðfræðiskrifum sínum og ortu m.a. sálma sem eru allt til þessa dags í sálmabók lúthersku kirkjunnar í Þýskalandi. Nægir hér að nefna sálma Elísabetar Cruciger (1500-1535), en hún var eiginkona aðstoðarmanns Lúthers. Þessi hefð sálmakveðskapar hefur haldist og nægir að líta í sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar því til staðfestingar. Þetta átti líka við um Katarínu Lúther enda skrifaði hún systur sinni í áðurnefndu bréfi eftir lát eiginmannsins: Að þú finnir tii með mér og börnum mínum veit ég vel, því hver væri ekki hryggur og sorgbitinn vegna fráfalls svo dýrmæts og trausts manns sem minn elskulegi húsbóndi var. Hann sem þjónaði ekkibara borginni eða landinu, helduröllum heiminum. Þess vegna er ég full hryggðar. Síðar segir: Og þótt ég hefði furstadæmi eða keisaradæmi, eða allan heiminn, þá gæfi ég það allt til að fá aftur þennan elskulega og dýrmæta mann.26 Það vekur athygli að Katarína Lúther lýsir með þessum orðum lífsverki bónda síns á svipuðum hátt og Melankton gerði þegar hann hermdi fráfall Lúthers. Katarína grípur einnig til svipaðra líkinga og Lúther hafði notað um hana. Þau kölluðu hvort annað „drottin sinn“, „keisaraynju" eða „keisara". Af því sem ég hef lesið styrkist sá grunur minn æ meir að það verði að huga betur að hlut Katarínu í siðbótinni og horfa á þau hjón sem samstarfsmenn. Lúther hafði lengi átt við vanheilsu að stríða og veikindi hans má að miklu leyti rekja til þess harða meinlætalifnaðar sem stundaður var í klaustrinu forðum. Hann gerði sér því fulla grein fyrir því að hann færi á undan Katarínu. Hann sá því til þess - og þvert á ríkjandi hefðir - að Katarína ein erfði hann svo hún þyrfti ekki að leita til barna sinna, heldur börnin til hennar. Lúther reyndist raunsær í mati sínu og tókst Katarínu að halda heimili og fjölskyldunni saman á meðan hún lifði. Þegar Lúther hélt til Eisleben f febrúar 1546 til þess að miðla málum milli tveggja deiluaðila var heilsa hans svo slæm að hann átti ekki afturkvæmt. Þau hjón skiptust eins og ætíð á bréfum og greinilegt er af þeim að Katarína hefur verið mjög áhyggjufull. Lúther skrifar henni því í næstsíðasta bréfi sínu til hennar: Náð og friður í Kristi! Allra heilagasta! Frú doktor! Ég þakka þér fyrir alla þína umhyggju [...] en áhyggjur mínar eru þær að þú gerir þér svo miklar áhyggjur að þær gleypi alla jörðina. Hefur þú ekki lært fræðin og trúarjátninguna? Þú skalt biðja og láttu Guð um áhyggjurnar, það er ekki þitt verk að sjá endanlega um mig eða hafa áhyggjur. Segir ekki í sálminum: „Varpa áhyggjum þínum á Drottin, hann mun bera umhyggju fyrirþér"? (Slm 55.24).27 Og í öðru bréfi skrifar Lúther: Þú hefur slíkar áhyggjur að ætla mætti að Guð væri ekki almáttugur og gæti ekki skapað tíu aðra doktora Martínusa. Hættu þessum áhyggjum, ég hef einn sem sér um áhyggjur mínar, hann liggur í jötu og er við brjóst móður sinnar, en situr um leið til hægri handar Guði föður almáttugum. Lúther kveður Katarínu með orðunum „náð og friður í Kristi sé með þér, mín gamla ást, og drottning" og hann ritar undir: „Marteinn Lúther, þín gamla ást.“28 Það er vissulega hægt að benda á, þegar rúm fimm hundruð ár eru liðin frá fæðingu Katarínu frá Bóra, að nú á dögum hafi menn aðra sýn á tilveruna en þau hjónin. En í breyttum heimi verðum við líka að ryðja hinu kristnu frelsi leið, bæði inn í lífi okkar og samfélagið. Og í þessu samhengi hefur inntak þessa frelsis, sem er trú og kærleikur - og þakklæti, þar sem það virkar, ekkert breyst. Af lífi þeirra hjóna getum við nútímamenn því lært ýmislegt og umfram allt það hvernig þau tókust á við líf sitt í spennu milli trúar og óvissu. Þau tókust á við lífið í Ijósi þess að maðurinn réttlætist ekki fyrir verk, heldur trúna á Krist. Þau létu þá trú móta líf sitt og í þessu efni eru Katarína og Marteinn Lúther ennþá fyrirmyndir. 25Martin Treu, Katarina von Bora - Biographíen zur Reformation, Wittenberg 1995, 70. 26Martin Treu, Katarina von Bora, 70. 27WA Br. 11,298 (nr. 4206). 2aWA Br. 11,275-276 (nr. 4195 og nr. 4201). bjarmi | júní 2017 | 27

x

Bjarmi

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bjarmi
https://timarit.is/publication/379

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.