Morgunblaðið - 13.05.2022, Síða 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. MAÍ 2022
ilvæga tæki í baráttu við sjúk-
dóma og ójöfnuð sem embættið
er nú. Landlæknar síðari tíma
tóku við góðu búi.
Nánust urðu kynni okkar
Ólafs eftir að hann lét af stöfum
sem landlæknir um síðustu alda-
mót. Ólafur hóf þá nýjan kafla á
farsælli starfsævi sinni. Fór að
leysa okkur af heimilislækna í
Reykjavík. Hafði áður leyst af
lækna í héraði, gjarnan í af-
skekktum og erfiðum héruðum.
Og nú kynntist ég manni sem
hafði fegurst hjartalag, dýpstu
velvild og skörpustu sýn á sjúk-
dóma og mannlega þjáningu.
Sjúklingarnir elskuðu Ólaf.
Gat verið hrjúfur í tilsvörum, en
við skynjuðum ávallt djúpa
elsku hans og nú koma skjól-
stæðingar tárvotum augum og
sakna manns sem var hreinn
mannvinur, algerlega góður
maður.
Börn mín færðu mér fyrst
fregnina af andláti Ólafs, með
einlægri samúð.
Þeirri samúð deili ég með að-
standendum og vinum Ólafs.
Fari vel sá göfugi maður, sá
góði vinur.
Jón Gunnar Hannesson.
Fyrir allmörgum árum datt
Ásmundi Brekkan röntgenlækni
í hug að fá nokkra gamla félaga
sem komnir voru á eftirlaun til
að borða saman hádegisverð.
Hann hóaði í þá Ólaf Ólafsson
landlækni, Jón Þorsteinsson
gigtlækni og Davíð Á. Gunnars-
son ráðuneytisstjóra og þeir
fóru að hittast vikulega. Fljót-
lega vildu þeir fjölga í hópnum
og þá bættumst við Guðmundur
Bjarnason barnaskurðlæknir
við. Þetta voru skemmtilegir
fundir, margt skeggrætt og
menn ekki alltaf sammála. Alltaf
þó rökrætt, aldrei rifist! Síðan
hefur hópurinn stækkað og við
hittumst áfram vikulega. Þeir
Jón og Ásmundur kvöddu fyrir
nokkrum árum og nú er Ólafur
einnig horfinn okkur. Allir kom-
ust þeir vel yfir nírætt. Það er
mikill sjónarsviptir að Ólafi.
Hann var leiðtogi hópsins eftir
lát Ásmundar og hélt uppi góð-
um aga. Mér eru minnisstæð
fyrstu kynni okkar Ólafs. Ég
var nýtekinn til starfa á Vífils-
stöðum undir stjórn Hrafnkels
Helgasonar. Hann var mikill
vinur Ólafs og þegar Ólafur var
skipaður landlæknir haustið
1972 sagði hann: „Nú held ég
veislu til heiðurs Ólafi og ég
skal bjóða ykkur Öglu.“ Við vor-
um aðeins átta í veislunni sem
var vegleg að hætti þeirra
hjóna. Þar hitti ég Ingu og Ólaf
í fyrsta sinn og eftir það vorum
við vinir. Ég þekkti Ólaf mun
betur sem mann en sem emb-
ættismann. Gerði mér þó vel
grein fyrir því að hann var langt
frá því að vera venjulegur emb-
ættismaður. Það sem einkenndi
hann var mikil útgeislun og
ótrúlegir persónutöfrar. Þetta
hjálpaði honum vitanlega sem
embættismanni, en gat flækt
hlutina og hefði verið hægt að
misnota. Aldrei vissi ég til að
Ólafur gerði það. Hann lýsir at-
viki í ævisögu sinni þegar hann
var tíu ára heima í Brautarholti.
Hann fór til móður sinnar og
bar upp við hana vandamál
vinnumanns á bænum. Móðir
hans sagði þá við hann: „Óli
minn, þú finnur svo til með
fólki.“ Ég get ekki hugsað mér
betri lýsingu á Ólafi en þessi orð
móður hans. Við söknum hans
við borðið þegar við félagar hitt-
umst. Börnum hans og öðrum
ættingjum sendum við innilegar
samúðarkveðjur. Blessuð sé
minning Ólafs Ólafssonar.
Tryggvi Ásmundsson.
Ólafur Ólafsson var maður
hávaxinn. Það sama átti við um
hugsjónir hans. Þeim lyfti hann
í hæstu hæðir með gerðum sín-
um án þess að missa jarðsam-
band. Velferð allra var honum
hvort tveggja hugsjón og leið-
arljós í daglegu starfi. Í þeim
efnum var hann kappsamur en
þó ætíð með forsjá.
Ólafur var heimsborgari og
opinn fyrir straumum samtíð-
arinnar, víðsýnn, frjálslyndur,
umburðarlyndur og kærleiksrík-
ur. Hann þekkti vel til breyt-
inga sem höfðu orðið á heil-
brigðiskerfum grannríkja okkar,
sér í lagi Svía og Englendinga. Í
embættistíð hans sem landlækn-
ir urðu einnig mikil umskipti í
íslenska heilbrigðiskerfinu og
því sniðinn stakkur, sem við bú-
um við enn í dag. Þar má nefna
breytingar á heilsugæslu, sem
átti að verða fyrsti viðkomustað-
ur sjúklinga, en einnig samstarf
og skýr verkaskipting milli
heilsugæslunnar, sjúkrahúsa og
sjálfstætt starfandi sérgreina-
lækna. Hjúkrunarheimili komu
á þessum tíma í stað „elliheim-
ila“, sem voru börn síns tíma. Í
hans tíð sem landlæknir voru
stigin raunveruleg skref í átt að
velferðarmarkmiðum aldraðra. Í
hans tíð sem landlæknir skipti
máli að stíga raunhæf skref í átt
að velferðarmarkmiðum aldr-
aðra í stað þess að elta á gul-
rótina líkt og asninn.
Sem landlæknir var Ólafur
réttur maður á réttum stað.
Hann tók sjálfan sig ekki mjög
hátíðlega en öðru máli gegndi
um skyldur hans sem embættis-
manns. Gilti þá einu þótt hann
træði ekki alltaf hefðbundnar
leiðir stjórnenda í Arnarhváli ef
almannaheill var annars vegar.
Víst er að samskipti hans við
einhverja ráðuneytisstjóra voru
á stundum lífleg og óneitanlega
brosleg fyrir þá sem að urðu
vitni.
Undir handleiðslu Ólafs steig
ég mín fyrstu spor í opinberri
stjórnsýslu á Íslandi og fyrir
það góða veganesti stóð ég í
þakkarskuld við hann.
Börnum hans og fjölskyldu
sendi ég hugheilar samúðar-
kveðjur.
Hallgrímur Óskar
Guðmundsson.
Í árdaga fyrirbyggjandi
læknisfræði á sjöunda áratug
síðustu aldar starfaði ungur
læknir, Ólafur Ólafsson, með
Sigurði Samúelssyni á lyflækn-
ingadeild Landspítalans. Á
þessum tíma var undirbúningur
hafinn að stofnun Hjartavernd-
ar, landssambands hjartavernd-
arfélaga enda höfðu læknar séð
hratt vaxandi nýgengi krans-
æðasjúkdóma árin þar á undan.
Ólafi var fljótlega falin aukin
ábyrgð í því uppbyggingastarfi.
Hann fór til sérnáms í lyflækn-
ingum og hjartalækningum við
Karólínska sjúkrahúsið í Stokk-
hólmi og kynntist þar faralds-
fræði hjartasjúkdóma. Síðar
nam Ólafur faraldsfræði hjarta-
sjúkdóma og lýðheilsuvísindi við
London School of Hygiene and
Tropical Medicine. Samstarf
tókst með þeim Ólafi og Sigurði
við Evrópudeild Alþjóða heil-
brigðismálastofnunarinnar í
Kaupmannahöfn um skipulag og
framkvæmd Reykjavíkurrann-
sóknarinnar. Þar með var lagð-
ur grundvöllurinn að merkustu
faraldsfræðirannsókn í hjarta-
sjúkdómum sem gerð hafði ver-
ið í Evrópu á þeim tíma. Ólafur
var ráðinn yfirlæknir Rann-
sóknarstofu Hjartaverndar við
stofnun hennar árið 1967 og
gegndi því starfi þar til hann
var skipaður í embætti land-
læknis 1972. Á upphafsárum
Reykjavíkurrannsóknarinnar
var sett upp rafræn sjúkraskrá,
sú fyrsta sinnar tegundar á Ís-
landi og keypt tæki til blóðrann-
sókna af fullkomnustu gerð. Er
það til marks um framsýni og
stórhug Ólafs og samstarfs-
manna hans. Afraksturinn hefur
ekki eingöngu legið í því merki-
lega gagnasafni sem enn þann
dag í dag er uppspretta vísinda-
legra athugana sem veita okkur
mikilvæga innsýn í meingerð
kransæðsjúkdóma. Hitt var ekki
síður mikilvægt framlag Ólafs
að vekja íslenska þjóð og ráða-
menn til vitundar um mikilvægi
heilbrigðs lífsstíls, reykleysis,
heilsusamlegs mataræðis og
hreyfingar. Árangur þessa
brautryðjendastarfs sést hvað
gleggst í því að nýgengi og
dauðsföll af völdum hjarta- og
æðasjúkdóma hefur farið stöð-
ugt lækkandi á undanförnum
fjórum áratugum og erum Ís-
lendingar nú í fararbroddi í
heiminum hvað það varðar.
Ólafur vann einnig ötullega að
bættri lýðheilsu þjóðarinnar á
þeim 26 árum sem hann gegndi
starfi landlæknis. Með ævistarfi
sínu hefur Ólafur Ólafsson átt
stóran þátt í að hindra fjölda
ótímabærra dauðsfalla á Íslandi.
Þeir fjölmörgu vísindamenn
sem hafa tekið við kyndlinum í
baráttu við hjarta- og æðasjúk-
dóma minnast Ólafs sem stór-
huga brautryðjanda sem vísaði
veginn með framsýni og stað-
festu að vopni. Íslensk þjóð
stendur í þakkarskuld við Ólaf
og hans merka ævistarf. Fyrir
hönd starfsfólks Hjartaverndar
kveðjum við vin og félaga til
margra áratuga með djúpri
virðingu.
Karl Andersen,
Vilmundur Guðnason.
Við Ólafur landlæknir þekkt-
umst frá þeim tíma að hann tók
við því embætti haustið 1972.
Hann kom þá fljótlega á fund
Sambands sveitarfélaga í Aust-
urlandskjördæmi sem haldinn
var í Neskaupstað og gerði
grein fyrir sýn sinni til heil-
brigðismála. Hann var óhefð-
bundinn í ræðustól og ég man
eftir að Eysteinn Jónsson þá
forseti Sameinaðs þings hafði
orð á hversu líkur hann væri
föður sínum. Tengsl mín við
heilbrigðissviðið voru alla tíð
veruleg vegna starfa konu
minnar við Fjórðungssjúkrahús-
ið í Neskaupstað og síðar í
margháttuðu samhengi á Al-
þingi í tvo áratugi á meðan Ólaf-
ur gegndi sínu starfi sem land-
læknir. Viðveru hans var mjög
oft óskað í nefndum þingsins
þegar heilbrigðismál og margt
sem þeim tengdist var til skoð-
unar. Þar var einstaklega gott
til Ólafs að leita, bæði vegna
fjölþættrar reynslu hans og víð-
tækrar menntunar. Á þessum
áratugum brunnu heilbrigðis-
málin á fólki um allt land, m.a. á
Austurlandi, þar sem sam-
gönguerfiðleikar gerðu oft erfitt
fyrir um þjónustu. Sem land-
læknir með afar víðtæka
reynslu lagði Ólafur jafnan gott
til mála. Fyrir störf sín að heil-
brigðismálum og sem landlækn-
ir í röskan aldarfjórðung á hann
miklar þakkir skildar. Léttleiki
hans og gamansemi í daglegum
kynnum bættu síðan um betur
og settu mark sitt á samræður
við hann eftir að embættistörf-
um lauk. Slíkra samferðamanna
er gott að minnast.
Hjörleifur Guttormsson.
Ólafur Ólafsson fyrrum land-
læknir er látinn. Hann var kær
vinur og samstarfsmaður í ára-
tugi.
Mér eru minnisstæð okkar
fyrstu kynni sem voru þegar ég,
þá læknanemi, gekkst undir
rannsókn á vegum Hjartavernd-
ar á áhættuþáttum hjarta- og
æðasjúkdóma en Ólafur stýrði
henni. Ólafur lýsti því yfir að
lokinni rannsókn að ég væri í
þokkalegu lagi en væri of feitur.
Þyrfti að megra mig. Bætti svo
við: „Það getur þú ekki.“ Hann
reyndist sannspár eins og oft.
Næst lágu leiðir okkar saman
1974 þegar ég leitaði til Ólafs,
sem þá var orðinn landlæknir,
um ráð um framhaldsnám í
læknisfræði í Svíþjóð. Ólafur
stakk þá upp á því að ég hæfi
nám í smitsjúkdómum, tók upp
símann og hringdi í Rolf
Lundström, dósent og yfirlækni
við smitsjúkdómadeild í Eskil-
stuna, sem vildi fá mig umsvifa-
laust. Þar hafði Ólafur starfað
og fleiri íslenskir læknar við
góðan orðstír. Ég hafði lítið
hugað að smitsjúkdómum sem
voru ekki ofarlega á blaði í
læknanáminu hér á landi á þess-
um tíma enda töldu margir að
sigur hefði unnist á þeim með
tilkomu sýklalyfja. Ég tók að
hans ráði ákvörðum um að
leggja þessa sérgrein fyrir mig
án þess að óra fyrir því vægi
sem sem smitsjúkdómar áttu
eftir að fá. Kannski skynjaði
Ólafur það.
Þegar ég sneri heim frá Sví-
þjóð 1983 var alvarlegur heims-
faraldur, AIDS eða alnæmi, að
grafa um sig. Lokastig sjúk-
dómsins var þá undantekninga-
laust banvænt. Fyrst í stað voru
hópar sem áttu undir högg að
sækja í sérstakri hættu á að
smitast. Ólafur hafði einstakt
lag á því að nálgast þessa hópa,
þ.m.t. Samtökin 78, og einnig að
brjóta upp fordóma í samfélag-
inu. Landlæknisembættið komst
þá svo sannarlega á kortið með
víðtækri upplýsingaherferð og
hispurslausri umræðu.
Vorið 1986 skipaði ráðherra
farsóttanefnd, sem skyldi hafa
það hlutverk að fylgjast með
farsóttum og gera tillögur til að
hindra útbreiðslu þeirra. Ólafur
var frá upphafi formaður nefnd-
arinnar en ég var ritari hennar.
Nefndin var lögð niður 1995,
enda voru þá í burðarliðnum ný
sóttvarnalög sem ætlað var að
sinna þessum málum.
Af og til var ég settur aðstoð-
arlandlæknir og kynntist þá
ýmsum hliðum Ólafs en hann
hafði jafnan mörg járn í eld-
inum. Hann var pólitískur land-
læknir og hafði sterkar skoð-
anir. Óhjákvæmilega sló því
stundum í brýnu við pólitísk öfl
en alltaf komu menn standandi
niður með reisn. Annað sem ein-
kenndi Ólaf var einlæg sam-
kennd með þeim sem minna
mega sín. Hann hikaði ekki við
að heimsækja og ræða milliliða-
laust við heilbrigðisstarfmenn
og sjúklinga sem töldu á sig
hallað. Ekki alltaf vinsælt hjá
stjórnendum. Ólafur var
heillandi persónuleiki sem náði
vel til þjóðarinnar.
Hin síðari ár hélt Ólafur fast
utan um hóp náinna vina, sem
hittust reglulega og snæddu há-
degisverð. Gerði hann það svo
lengi sem heilsan leyfði. Hélt
áfram að hafa samband um síma
til að ræða mál en þegar hann
hljóðnaði á þessu ári var ljóst
hvert stefndi. Það tók mikið á
Ólaf að missa eiginkonu sína
Ingu-Lill Marianne árið 2013 en
þau voru alla tíð mjög náin. Við
Snjólaug samhryggjumst inni-
lega börnum Ólafs og fjölskyld-
um þeirra.
Haraldur Briem.
Nú kveðjum við heiðurs-
manninn Ólaf Ólafsson, fyrrver-
andi landlækni, hinstu kveðju.
Íslenskt þjóðfélag á honum mik-
ið að þakka.
Það var mjög lærdómsríkt
og gefandi að starfa um 13 ár
við hlið hans hjá Embætti land-
læknis. Það var góður tími,
fastráðnir starfsmenn aðeins
um tíu. En Ólafur vildi vanda
alla ákvarðanatöku og leitaði
því ráða hjá ýmsum aðilum.
Hann hafði lag á að fá til sín af-
burðafólk með sérþekkingu á
ýmsum sviðum til að taka að
sér tímabundin verkefni. Ólafur
var einstakur samstarfsmaður,
var hlýr og mat samstarfsfólk
sitt mikils. Hann hugsaði stórt,
var hugmyndaríkur og kom
mörgum brýnum verkefnum í
höfn þótt á móti blési. Ýmiss
konar forvarnir og þættir sem
snúa að gæðum og öryggi í
heilbrigðisþjónustunni svo og
geðheilsa, geðvernd og geðheil-
brigðisþjónusta voru alltaf of-
arlega á blaði hjá honum. Notk-
un bílbelta í aftursætum,
notkun hjálma á reiðhjólum, að
draga úr tóbaksnotkun og Sið-
aráðum landlæknis á Ólafur
heiðurinn af, svo nokkuð sé
nefnt. Ólafur var mikill mann-
vinur, mátti ekkert aumt sjá og
talaði alltaf máli þeirra sem
minnst máttu sín. Næstum dag-
lega leituðu til hans einstak-
lingar sem áttu erfitt vegna
ólíkra vandamála, ekki einvörð-
ungu heilsufarslegra vanda-
mála heldur vegna fátæktar,
slæms aðbúnaðar, ósættis við
einhvern eða hvernig samfélag-
ið mætti þeim. Hann gaf þeim
öllum tíma, ráðlagði þeim og
reyndi sjálfur að liðsinna þeim
á ýmsa vegu. Á þeim árum sem
ég vann með Ólafi var skrif-
stofa landlæknis á Laugaveg-
inum, á móti Hlemmi. Þá var
þar samastaður margra sem
ekki áttu í önnur hús að venda.
Þegar Ólafur var að koma eða
fara af skrifstofunni fór hann
alltaf yfir götuna til að heilsa
þessum einstaklingum með
handabandi. Það var mann-
rækt. Þetta var Ólafur.
Ólafur var alltaf í vinnunni,
heima sem heiman. Hann var
vakinn og sofinn yfir verkefn-
unum og hringdi gjarnan um
klukkan níu á kvöldin til að
ræða einhver mál. Hann fór
heldur ekki í sumarfrí, sagðist
vera í fríi, kom þá seinna en
vanalega á skrifstofuna, ekki í
jakkafötum heldur í brúnum
mittisjakka. Auðvitað kom hann
með vínarbrauð með sér, eins og
svo marga aðra daga og deildi
með öllum, starfsmönnum og
þeim sem erindi áttu á skrifstof-
una. Um hátíðar, svo sem á jól-
um og páskum, þótti Ólafi rétt
að hann færi og leysti af lækna í
fjarlægum sveitum. Í Grímsey
eitt árið, í miðri svokallaðri vísi-
tasíu á Norðurlandi, dró hann
upp hlustunarpípu til að hlusta
sjúkling því þangað hafði læknir
ekki komist í eina viku. Þetta
var Ólafur.
Ólafur var mikill fjölskyldu-
maður og voru börn hans og
önnur ættmenni tíðir gestir á
skrifstofu landlæknis. Það var
yndislegt að sjá kærleikann sem
ríkti milli þeirra allra. Þar fór
fremst Inga kona Ólafs, einstök
manneskja sem stóð þétt við
bak Ólafs og var án efa hans
helsti ráðgjafi.
Við Leifur vottum börnum
Ólafs og öðrum ættingjum og
vinum hans okkar innilegustu
samúð.
Blessuð sé minning Ólafs
Ólafssonar.
Vilborg
Ingólfsdóttir.
Ólafur Ólafsson var einstakur
maður, Dalamaður að lang-
feðgatali, þar sem afi hans og
amma bjuggu við rausn í Hjarð-
arholti í Laxárdal og stóðu fyrir
merku skólahaldi. Um langafa
hans, séra Pál Mathiesen, var
sagt í ættfræðibókum að hann
væri „tápmaður mesti og rögg-
samur í búskap og embætti“.
Slík lýsing á einnig vel við um
mannvininn, frumkvöðulinn og
hugsjónamanninn Ólaf land-
lækni.
Ólafur var kallaður til starfa
að loknu framhaldsnámi á
Rannsóknarstöð Hjartaverndar
1967, þar sem hann beitti sér
fyrir merkri hóprannsókn, m.a.
um félagslegar aðstæður. Ólafur
varð landlæknir 1972 sem hann
gegndi næsta aldarfjórðunginn.
Heilbrigðismál voru löngum
vistuð á skrifborðshorni í dóms-
málaráðuneytinu en það var
mikið framfaraskref þegar sér-
stakt ráðuneyti heilbrigðis- og
tryggingamála var stofnað 1970.
Það breytti ekki sjálfstæði emb-
ættis landlæknis sem Ólafur
varði alla tíð með oddi og egg,
enda eitt af elstu embættum
landsins. Hann lagði alltaf
áherslu á bein tengsl embættis-
ins við ráðherra heilbrigðismála.
Ekki er laust við að það hafi
valdið nokkrum kerfislægum
núningi.
Þeir sem áttu undir högg að
sækja áttu áheyrn Ólafs land-
læknis og það má því með sanni
segja að hjartað í Ólafi hafi
slegið réttum megin. Áður en
hægt var að hringja í opinni
dagskrá beint í þjóðarsálina og
kvaka um óréttlæti heimsins
höfðu allir greiðan aðgang að
Ólafi landlækni hvort sem það
var á vinnustað eða heimili
hans. Enginn gerir nú athuga-
semd við notkun bílbelta en svo
var ekki alla tíð. Það var fyrir
óþreytandi elju Ólafs að bílbelti
voru lögleidd á Íslandi. Ólafur
sinnti einnig síðasta holdsveika
Íslendingnum, sem bjó á Kópa-
vogshæli, og sá til þess að hann
fengi tilhlýðilega útför.
Ungum manni var hann ljúf
fyrirmynd sem gott er að minn-
ast. Ólafur landlæknir var men-
tor sem svo auðvelt var að bera
virðingu fyrir. Embættisbréfin
skyldu vera stutt, en hnitmiðuð.
Þessi leiðsögn nýttist vel síðar á
krákustígum íslenska embættis-
mannakerfisins, þar sem ekki er
alltaf allt sem sýnist. Ólafur
landlæknir naut sín hvergi bet-
ur en í vísitasíum á sjúkrahús
og heilsugæslustöðvar landsins,
þar sem hann m.a. uppgötvaði
ónotuð tæki og tól týnd undir
borðum og í fyrsta og eina
skiptið á ævinni gekk ég stofu-
gang með landlækni á gamla
sjúkrahúsinu á Ísafirði! Á þess-
um árum eimdi enn eftir af
gamla læknahrokanum en gagn-
vart Ólafi landlækni voru allir
jafnir, sjúklingar, starfsfólk á
plani, gamli sjúkrahúslæknirinn,
roskni alþingismaðurinn eða
aldni héraðshöfðinginn.
Síðar á ævinni, á ársfundum
WHO, Alþjóðaheilbrigðisstofn-
unarinnar, í Genf í Sviss, rifj-
uðum við upp, ásamt Ingu konu
hans, gamlar minningar en þar
var Ólafur þekktur fyrir áræði
sitt og ákefð þegar honum
fannst hin alþjóðlega þrætubók-
arstjórnsýsla vera heldur svifa-
sein og drukkna í staglkenndum
orðaflaumi og yfirþyrmandi
pappírsflóði.
Genginn er mætur maður,
húmanistinn Ólafur landlæknir.
Haukur Ólafsson.
Í dag kveðjum við með sökn-
uði Ólaf Ólafsson, fyrrverandi
landlækni.
Ólafur Ólafsson þjónaði með
miklum ágætum embætti land-
læknis í 26 ár frá 1972-1998,
embætti sem sagt hefur verið
elsta og virðulegasta embætti
landsins, stofnað með konungs-
úrskurði hinn 18. mars 1760.
Ég varð þeirrar gæfu aðnjót-
andi að eignast Ólaf bæði sem
samstarfsmann og vin þegar ég
starfaði sem lyfjamálastjóri í
heilbrigðisráðuneytinu. Land-
læknisembættið og ráðuneytið
voru þá í sama húsi við Hlemm.
Ólafur hafði mikinn áhuga á
lyfjamálum, sérstaklega lyfja-
statistik og áhrifum lyfja á lýð-
heilsu sem hann var vakinn og
sofinn yfir. Hann hafði því oft í
samband jafnt á vinnutíma sem
og seint á kvöldin.
Við Ólafur hittumst oft í há-
deginu, ræddum um menn og
málefni og vinátta okkar risti
djúpt þó 20 ár væru milli okkar.
Ekki var verra að Ólafur var
einlægur aðdáandi dóttur minn-
ar, Þóru óperusöngkonu. Vin-
átta okkar smitaðist yfir á son
hans, minn besta vin Gunnar Al-
exander, þegar við hófum síðar
samstarf í ráðuneytinu þó einn-
ig séu 20 ár á milli okkar. Þetta
sýnir að aldur er afstæður.
Segja má að Ólafur hafi verið
óvenjulegur embættismaður og
lét ekki endilega vel að stjórn
ráðherra. Oft gat hann bjargað
sér úr erfiðum aðstæðum með
einstökum húmor og snjöllum
tilsvörum. Einverju sinni sem
oftar setti ráðherra reglugerð
SJÁ SÍÐU 22