Morgunblaðið - 13.05.2022, Blaðsíða 16
16 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. MAÍ 2022
Kæru borgarbúar.
Kosningadagur nálg-
ast sem er hátíðardagur
því á slíkum degi er lýð-
ræðið áþreifanlegt. Þá
fáum við tækifæri til að
velja fólkið sem við
treystum til forystu í
borgarstjórn.
Fyrir fjórum árum
var ég kosin í borg-
arstjórn og hefur Flokk-
ur fólksins verið í minnihluta. Þrátt
fyrir að fá engu ráðið hef ég lagt nótt
við dag við að vekja athygli á fjölda
mála sem lúta að betri þjónustu við
borgarbúa. Þetta má sjá á þeim
hundruðum mála; tillagna, fyrirspurna
og bókana, sem flokkurinn hefur lagt
fram og koma fram í fundargerðum, á
samfélagsmiðlum og einnig á heima-
síðunni kolbrunbaldurs.is.
Til að fylgja málum eftir hef ég
skrifað tugi greina til að undirstrika
þá áherslu okkar að setja fólkið í
borginni í fyrsta sæti. Við í Flokki
fólksins trúum því nefnilega að drop-
inn holi steininn.
Forgangsröðun er kolröng
Flokki fólksins finnst ótækt að
brýnum úrbótum á grunnþjónustu
hefur ekki verið sinnt nægjanlega vel.
Í staðinn fjármagnar meirihlutinn
mörg verkefni sem vel geta beðið
þangað til betur árar. Allt á kostnað
fólksins í borginni. Það er skoðun mín
að sá meirihluti sem hefur verið þetta
kjörtímabil hafi ekki forgangsraðað í
þágu fólksins heldur starfi í berg-
málshelli þar sem allt gengur út á að
tryggja sér áframhaldandi völd í
blindri trú á eigin ágæti.
Bál óréttlætis og sorgar
Í mér brennur bál óréttlætis og
sorgar þegar ég hugsa til þess hvern-
ig farið hefur verið með fólk í Reykja-
vík sem býr við örorku, fólk á lúsar-
launum og fólk sem missti allt sitt í
hruninu. Á annað hundrað eldri borg-
arar bíða nú ýmist eftir hjúkrunar- og
dvalarheimili eða þjónustu til að geta
verið sem lengst heima. Biðlistar eftir
þjónustu lengjast og fátækt vex í
Reykjavík með tilheyrandi vanlíðan.
Flokkur fólksins er
með skýra stefnu. Við
viljum að Reykjavík sé
fyrir alla, ekki bara
suma. Við viljum að áð-
ur en farið er í fjárfrek
milljarðaverkefni, sem
ekki er brýn þörf á, eins
og skreytingar og um-
byltingu torga, þurfi
fyrst að tryggja að allir
fái grunnþörfum sínum
mætt og aðra nauðsyn-
lega þjónustu.
Flokki fólksins hefur
blöskrað eyðsla meirihlutans á 13
milljörðum króna í stafræna um-
breytingu. Stafrænar lausnir eru
sannarlega framtíðin en þetta fjár-
magn hefur ekki verið notað skyn-
samlega. Því hefur t.d. verið eytt í
þróunar- og tilraunavinnu á stafræn-
um lausnum sem margar hverjar eru
þegar til eða ekki liggur á. Ein af til-
lögum Flokks fólksins var að taka
hluta af þessum 13 milljörðum króna
til að ráða fagfólk til starfa hjá Skóla-
þjónustu borgarinnar. Tillögunni var
hafnað.
Biðlistar rótgróið
mein sem bara stækkar
Ég hef starfað sem sálfræðingur í
áratugi og löngu áður en ég varð odd-
viti Flokks fólksins var ég farin að
vekja athygli á löngum biðlistum
barna til sálfræðinga og talmeina-
fræðinga. Á biðlista barna sem bíða
eftir fagþjónustu Skólaþjónustunnar
eru nú rúmlega 1.800 börn. Árið 2018
biðu 400 börn. Enn hefur Barnasátt-
máli Sameinuðu þjóðanna ekki verið
innleiddur í Reykjavík. Forgangs-
raða þarf málum með þarfir og þjón-
ustu borgarbúa að leiðarljósi og
stöðva bruðl og leikaraskap með fjár-
magn borgarinnar. Nota þarf fjár-
magnið til að auka lífsgæði og bæta
aðstæður þeirra sem þess þurfa.
Sýnum skynsemi
í húsnæðismálum
Húsnæðisskortur er mikill í
Reykjavík og bitnar harkalega á al-
menningi, sérstaklega á efnalitlu
fólki. U.þ.b. 600 manns eru á biðlista
eftir félagslegu húsnæði og á annað
hundrað eftir sértæku húsnæði fyrir
fatlað fólk. Útrýma þarf húsnæð-
isskorti aldraðra. Til þess að aldraðir
geti búið eins lengi heima og þeir vilja
þarf að tryggja þeim fullnægjandi
heimaþjónustu.
Flokkur fólksins styður þéttingu
byggðar í grónum hverfum þar sem
innviðir eru fyrir hendi sem þola
fjölgun íbúa eins og t.d. í Grafarvogi, í
Úlfarsárdal og á Kjalarnesi. Ómark-
viss þéttingarstefna meirihlutans hef-
ur hins vegar leitt til þess að í mörg-
um hverfum eru innviðir sprungnir
og sumir þéttingarreitir eru orðnir að
skuggabyggð. Framtíðarskipulag
skóla er í uppnámi, t.d. í Laugardal
og Háaleitis- og Bústaðahverfi. Það
verður að flýta uppbyggingu svo um
munar, einnig með því að bjóða út
lóðir svo kaupendur geti ráðist í
framkvæmdir. Flöskuhálsinn í hús-
næðismálum felst í stefnu meirihlut-
ans sem ýtir undir hækkandi verð og
aukinn ójöfnuð.
Til þjónustu reiðubúin
Ég hef sem sálfræðingur lært að
hlusta og þannig hef ég hlustað á alla
þá sem leitað hafa til mín á kjör-
tímabilinu. Þeim hef ég reynt að
hjálpa af fremsta megni, t.d. með því
að vísa þeim veginn í völundarhúsi
borgarkerfisins. Mér mætir oft fal-
legt bros frá borgarbúum og fæ að
heyra hlý orð. Ég hef því vonandi
gert eitthvað rétt.
Nú er komið að kosningum og legg
ég verk Flokks fólksins í dóm kjós-
enda. Framboðslisti Flokks fólksins
er skipaður hópi góðs fólks sem
brennur fyrir málefnum borgarbúa.
Við lofum því að berjast áfram með
kjafti og klóm fyrir hagsmunum ykk-
ar allra fáum við til þess umboð.
Baráttumál Flokks fólksins
lögð í dóm borgarbúa 14. maí
Eftir Kolbrúnu
Baldursdóttur » Í mér brennur bál
óréttlætis og sorgar
þegar ég hugsa til þess
hvernig farið hefur ver-
ið með fólk í Reykjavík
sem býr við örorku eða
er á lúsarlaunum.
Kolbrún Baldursdóttir
Höfundur er sálfræðingur og oddviti
Flokks fólksins, skipar 1. sæti á lista
flokksins í komandi borgarstjórnar-
kosningum.
Sjómanna-
skólabyggingin á
Rauðarárholti, hið
glæsilega menntasetur
sjómannastéttarinnar,
á sér merka sögu.
Laugardaginn 13.
október 1945 fór fram
vígsla hússins að við-
stöddum fyrsta forseta
lýðveldisins, Sveini
Björnssyni, rík-
isstjórn, borgarstjóranum í Reykja-
vík, formönnum stéttarfélaga sjó-
manna, nemendum stýrimanna- og
vélskólans og fjölda annarra gesta.
Þetta var hátíðisdagur sjómanna og
Reykvíkinga því risin var ein glæsi-
legasta bygging bæjarins, hús sem
verið hefur kennileiti Reykjavíkur,
bygging sem stendur hátt á holtinu
og sést víða að. Lengst af var innsigl-
ingarviti inn til Reykjavíkurhafnar í
turni hússins en því hlutverki lauk
snögglega þegar háhýsi reis í Borg-
artúni sem skyggði á vita Sjómanna-
skólahússins. Til gamans má geta
þess að Reykjavíkurviti hefur verið á
þremur stöðum í bænum. Fyrsti vit-
inn var reistur 1897 við Helgastaði
rétt austan við þar sem nú er gatan
Vitastígur en hún dregur nafn sitt af
þeim vita. Þegar Reykjavík stækkaði
var ekki alltaf gott að greina vita-
ljósin frá öðrum ljósum og þá var,
laust fyrir 1939, reistur turn fyrir vit-
ann á vatnsveitugeymum á Rauð-
arárholti. Þarna var vitinn í nokkur
ár uns hann var fluttur í turn Sjó-
mannaskólans eftir að sú bygging
reis af grunni. Vitinn við Sæbraut,
sem er þá sá fjórði, var loks reistur
fyrir nokkrum árum og tók við hlut-
verki gamla vitans í Sjómannaskól-
anum.
Í greinargerð með tillögu um und-
irbúning að byggingu Sjómannaskól-
ans árið 1938 er tekið fram að skólinn
eigi að bera mikilvægi íslenskra sjó-
manna vitni. Bæjarstjórn Reykjavík-
ur lét Sjómannaskólanum í té lóð
undir skólann í október 1941 og hafa
lóðamál Sjómannaskólans verið sér
kapítuli út af fyrir sig. Þegar lóðin
var gefin kom fram í ályktun bæj-
arstjórnar Reykjavíkur frá 2. októ-
ber 1941 að mörk hennar yrðu ákveð-
in síðar. Árið 1983 sneið
Reykjavíkurborg skika af lóðinni
sunnan Skipholts og risu byggingar
þar fyrir óskylda starfsemi. Eftir það
var þess fastlega vænst að ekki yrði
hróflað frekar við stærð lóðar Sjó-
mannaskólans. Því miður gekk þetta
ekki eftir og eru nú að rísa byggingar
nánast armslengd frá skólabygging-
unni, eins ósmekklegt og það nú er,
sem veldur því að þessi tignarlega og
glæsilega bygging nýtur sín ekki eins
og hún ætti að gera og hefur alltaf
gert. Á árunum 1986-1987 var unnið
að skipulagi lóðarinnar í samráði við
landslagsarkitekt sem teiknaði lóð-
ina. Ákveðið var að hluti holtsins á
lóðinni skyldi halda sem mest upp-
runalegri mynd til minningar um
grýtt og uppblásin holt á borð við
Rauðarárholtið sem voru eitt af ein-
kennum gömlu Reykjavíkur. Salt-
fiskur var þurrkaður á stakkstæðum
og var eitt slíkt á lóð Sjómannaskól-
ans og kom upp sú hugmynd fyrir
aldamót að endurgera slíkt stakk-
stæði og tengja það lágmyndinni
„Saltfiskstöflun“ eftir Sigurjón Ólafs-
son sem stendur við
heimreiðina að skóla-
húsinu.
Hvað verður um skóla-
húsið þegar núverandi
starfsemi Tækniskólans
flytur frá Reykjavík yfir í
annað sveitarfélag? Það
veltur auðvitað á eiganda
hússins, ríkinu, en ég
vona að það verði starf-
semi sem tengist mennt-
un sjómanna, sjávar-
útvegi og siglingum með
einhverjum hætti, nýsköpun sem
tengist íslenskum sjávarútvegi, jafn-
vel minni ráðstefnur sem nýta mætti
hátíðarsal hússins undir, o.s.frv. Safn
sem yrði frábrugðið safninu á Granda-
garði að því leyti að þar yrði gömlum
munum skólanna beggja, Stýrimanna-
skólans og Vélskólans, komið fyrir, en
þeir hafa verið geymdir um árabil í
bröggum uppi á Árbæjarsafni og vest-
ur í bæ. Þetta eru merkir munir sem
tengjast sjósókn og útgerð sem skól-
arnir fengu að gjöf frá velunnurum
bæði hérlendis og erlendis í gegnum
tíðina. Munir Stýrimannaskólans voru
sérstaklega varðveittir, sumir í gler-
kössum, auk málverka og mynda.
Þessir munir verða gleymskunni og
glatkistunni að bráð ef ekki tekst að
finna viðunandi húsnæði, auðvitað
eiga þeir heima í skólabyggingunni
sjálfri til heiðurs íslenskum sjómönn-
um, þetta voru gjafir til skólanna
þeirra. Safnið gæti svo vaxið og dafn-
að í samvinnu við Borgarsögusafn
Reykjavíkur.
Á sjómannadaginn 4. júní 1944 var
hornsteinn lagður að hinum nýja Sjó-
mannaskóla og var dagurinn af því
tilefni sérstaklega hátíðlegur. Sveinn
Björnsson, sem þá var ríkisstjóri Ís-
lands, hélt ræðu og sagði: „Dagur
sjómanna hefur verið valinn til þess-
arar hátíðlegu athafnar. Það á vel við,
því hér má líta ávöxt af starfi ís-
lenskra sjómanna. Það eru, fremur
öðrum, íslenskir sjómenn sem hafa
aflað þess fjár sem gerir ríkinu kleift
að reisa þessa myndarlegu byggingu.
Og enginn ágreiningur mun vera um
það að íslenska sjómannastéttin hef-
ur til hennar unnið einnig á annan
hátt. Með tápi sínu og dugnaði í sí-
felldri glímu við Ægi hefur hún sýnt
og sannað að hún er verðug slíkrar
menntastofnunar. Ég geri ráð fyrir
því að það eigi eftir að hlýja mörgum
sjómanni um hjartaræturnar – og
okkur hinum líka – er stefnt er heilu í
höfn í höfuðborg Íslands, að sjá há-
borg íslensku sjómannastéttarinnar
gnæfa við himin hér á þessum stað.
Og í dimmu verður hér í húsinu sá
viti sem vísar hverju skipi rétta leið
er það leitar hér hafnar.“ (Sjómanna-
blaðið Víkingur, 6. árg. 170.)
Stöndum vörð um Sjómannaskóla-
húsið í Reykjavík, sögu þess og hlut-
verk í framtíðinni.
Íslenskir sjómenn eiga það skilið.
Sjómannaskóla-
húsið í Reykjavík
Eftir Pál Ægi
Pétursson
Páll Ægir Pétursson
» Það eru, fremur öðr-
um, íslenskir sjó-
menn sem hafa aflað
þess fjár sem gerir rík-
inu kleift að reisa þessa
myndarlegu byggingu.
Höfundur var kennari við Stýri-
mannaskólann í Reykjavík á árunum
1989-1995. pele@simnet.is
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Sjómannaskólahúsið í Reykjavík.