Skólavarðan - 2021, Síða 21
VOR 2021 SKÓLAVARÐAN 21
Tungumálanám / KENNARINN
gerðar, háskólanum lokað og táragasi
jafnvel hent inn í kennslustofur skólans,“
segir Hólmfríður og bætir við að þessi
lífsreynsla hafi síðar hjálpað sér mjög
við að skilja bókmenntir Rómönsku
Ameríku á seinni hluta 20. aldar.
„Bókmenntir urðu fljótlega mitt
sérsvið og það að hafa verið á staðnum,
hlustað á fólk og heyrt ótal mismunandi
sjónarhorn varð styrkur þegar kom að
því að skilja og miðla bókmenntum og
menningu álfunnar.“
Þegar Hólmfríður sneri heim frá
Argentínu lauk hún BA-prófi frá HÍ og
bætti síðan við sig kennsluréttindum.
Hún fór að kenna spænsku í Mennta-
skólanum við Hamrahlíð auk þess að
vinna hjá spænska ræðismanninum hér
á landi. Á þessum árum var starfsemi
STÍL orðin að veruleika, en samtökin
voru stofnuð árið 1985. Hólmfríður tók
á þessum árum þátt í því að koma félagi
spænskukennara á laggirnar. Spænsk-
unni óx ásmegin og það var hugur í
kennurum auk þess sem menningar-
starfsemi ýmiss konar blómstraði.
Fáeinum árum síðar skipti
Hólmfríður aftur um gír og skráði sig
í meistaranám við háskólann í Austin
í Texas. Hún hlaut Fulbright-styrk til
námsins og þar sem hún hafði þegar
lokið kennsluréttindanámi var henni
boðin 50% kennarastaða við háskólann.
Þar kenndi hún spænsku sem annað
mál. „Þetta gekk allt upp en úti var gerð
krafa um að ég sinnti 50% kennslu og
fullu námi. Þarna lærði ég spænskuna
með öðrum hætti því Bandaríkjamenn
þurfa að takast á við önnur atriði
tungumálsins en Íslendingar. Námsárin í
Texas urðu fimm og voru bæði lærdóms-
rík og ánægjuleg.“ Hólmfríður lauk bæði
meistara- og doktorsprófi vestanhafs
og lokaverkefni hennar fjallaði um
bókmenntaverk argentínskra kvenna við
árþúsundamót og mótun sjálfsmynda.
Fyrstu skrefin í spænskukennslu
„Ég hóf að kenna spænsku við Náms-
flokka Reykjavíkur og síðar við MH.
Til að byrja með stóð spænskunám og
kennsla á brauðfótum enda var þetta
tiltölulega ný námsgrein hér á landi.
Spænskan var að ryðja sér rúms við hlið
þýsku og frönsku sem þriðja tungumál
í menntaskólum landsins. Spænskan
varð fljótt vinsæl og á upphafsárunum
vantaði menntað fólk til að kenna
tungumálið. Það þurfti því að hafa uppi
á þeim sem kunnu spænsku og efna
til námskeiða með það að markmiði
að setja saman hóp spænskukennara.
Í kjölfarið fóru margir í spænskunám,
sóttu sér menntun hérlendis og í
spænskumælandi löndum. Vinsældir
spænskunnar ruku upp á tíunda áratug
síðustu aldar og héldust í ein tuttugu ár,“
segir Hólmfríður.
Ástæður þess að spænskan náði
svo miklum vinsældum segir Hólm-
fríður vera tvíþættar. Í fyrsta lagi eigi
Íslendingar frekar auðvelt með framburð
tungumálsins, enda sérhljóðakerfin
sambærileg. „Ef nemandi er fljótur
að ná góðum tökum á framburði þá
vex honum ásmegin í náminu,“ segir
Hólmfríður.
Hitt sem Hómfríður telur að
skipti máli í þessu sambandi var aukin
alþjóðavæðing í menningu og listum.
Þetta kom fram í auknu framboði af
tónlist, sjónvarpsþáttum og kvikmynd-
um á spænsku. Margar kvikmyndir
frá Spáni og Rómönsku Ameríku
náðu vinsældum á þessum tíma, til
dæmis kvikmyndir Pedro Almodóvars.
„Þessi nýja menningarframleiðsla frá
hinum spænskumælandi heimi barst
hingað og kveikti bæði áhuga og forvitni
margra.“ Að auki ferðaðist fólk víðar og
fólki frá Rómönsku Ameríku hafði til
dæmis fjölgað mjög í Bandaríkjunum
og myndaði minnihlutahóp sem varð
sífellt sýnilegri í bandarísku samfélagi og
afþreyingarefni þaðan.
Ástæða til að staldra við
„Ég hef ákveðnar áhyggjur af stöðu þriðja máls
og því að færri nemendur læra erlend tungumál
en áður. Af þessari ástæðu finnst mér rétt að
við stöldrum við og veltum upp hvort það geti
verið að við séum á rangri leið með tungumála-
kennsluna,“ segir Katrín Högnadóttir, þýsku-
kennari við Menntaskólann á Egilsstöðum.
„Ofuráhersla er á málfræðikennslu, en mín
skoðun er sú að fjölbreytt sögu- og menningar-
tengd kennsla ætti að vera mun fyrirferðarmeiri
en raun ber vitni. Þannig tækju nemendur
mögulega meira inn af fróðleik um land og
þjóð og sæju í
leiðinni fleiri
tækifæri til að
nota málið. Ég
ætla auðvitað
ekki að alhæfa
um að þetta
sé staðan alls
staðar, en ég
veit að víða er
það staðreynd.“
Katrín
segir að eftir
styttingu náms
til stúdentsprófs
hafi efri áfangar
erlendra
tungumála víða
dottið út. „Áður höfðu nemendur náð ákveðinni
hæfni þegar þeir tóku þessa áfanga og gátu því
kafað dýpra og á annan hátt ofan í fagið. Þegar
það er ekki lengur möguleiki, þá fá nemendur
ekki að kynnast þeirri hlið fagsins og fara því
mikils á mis. Mögulega er þetta einn vinkillinn
á því að nemendur velja síður erlend tungumál.
Enn einn vinkillinn gæti líka verið stafræni
heimurinn sem við höfum í höndunum alla
daga. Við erum orðin svo vön því að geta bara
flett upp því sem þarf og látið google-translate
þýða það sem þarf, á því tungumáli sem þörf er
á hverju sinni. Mögulega hefur þetta orðið til
þess að nemendur velja ekki tungumálanám,
þar sem síminn færir okkur jú það sem við
biðjum hann um og hví þá að leggja á sig alla
vinnuna sem því fylgir að læra nýtt tungumál?
Sama hver ástæðan fyrir því er að færri velja
tungumálanám nú en áður, þá finnst mér staða
tungumálanáms áhyggjuefni. Vegna þess að
tungumálin verða okkur nefnilega alltaf lyklar
að umheiminum og öllum möguleikunum sem
hann býður okkur upp á.“
Katrín er að lokum spurð hvernig hafi
gengið að halda úti kennslu á tímum COVID-19.
„Persónulega hefur mér fundist erfiðast að
vera ekki í beinum tengslum við nemendur; að
hitta þá ekki daglega í eigin persónu. Sam-
skiptin eru svo óskaplega mikilvæg og gefa
öllu svo miklu meiri dýpt. Einnig finnst mér
áskorun að bjóða upp á fjölbreytt verkefni
daglega og halda athygli og áhuga nemenda
þegar hver og einn er heima hjá sér,“ segir
Katrín Högnadóttir.
Tungumálanám er
öllum hollt og óend-
anleg auðlind þekk-
ingar og visku fyrir
hvern og einn.
Katrín Högnadóttir, þýsku-
kennari við Menntaskólann á
Egilsstöðum.
Félagsstarf á tímum COVID-19
STÍL eru sem fyrr segir öflug landssamtök tungumálakennara. Kórónuveiran hefur
haft sín áhrif á starf samtakanna eins og flest annað í samfélaginu. „Hefðbundið
félagsstarf, svo sem námskeiða- og fyrirlestrahald, hefur legið niðri. Vinnustofur
voru blásnar af í vetur. Að auki frestuðum við stórri alþjóðlegri ráðstefnu sem
bar yfirskriftina Future of Languages, á síðasta ári. Stjórn STÍL hefur nú ákveðið
að halda hana ekki fyrr en en í júní 2023. Er það gert í ljósi þess að það verður
sennilega offramboð af ráðstefnum á næsta ári og því ákváðum við að bíða í þeirri
von að okkar erlendu gestir geti notið þess að ferðast hingað til lands. Við horfum
vongóð til framtíðar“ segir Hólmfríður.