Skólavarðan - 2021, Page 45

Skólavarðan - 2021, Page 45
VOR 2021 SKÓLAVARÐAN 45 Smásögur / NEMANDINN Dagbjört Ósk Jóhannsdóttir 3. bekk Menntaskólanum á Ísafirði  X Umsögn dómnefndar: Þessi saga er yfirveguð og hörð árás á heimskulegar staðalímyndir sem oft eru framhalds- skólanemum erfiðar. Þannig hefur það verið lengi og nútíminn getur ekki hælt sér af framförum á því sviði. Í skjóli tæknidýrkunar og nafni frelsisástar er afar hæpnum upplýsingum og skilgreiningum stöðugt miðlað til framhalds- skólanema. Á framhaldsskólaaldrinum þroskast nemendur og breytast hratt og þurfa að svara því hverjir þeir telja að þeir séu og hvernig þeir ætli að verða. Sú unga og skörulega aðalpersóna sem hér er lýst berst fyrir þeim mannréttindum að skilgreina stöðu sína sjálf. Ætli megi ekki kalla það frelsisbaráttu? Hver er ég eiginlega? Í dag er í fyrsta sinn í langan tíma sem mér líður raunverulega vel, ég er ekki undir neinni pressu og það er ekki verið að setja óraunhæfar kröfur á mig. Undanfarið hef ég verið týnd, einhleyp, einmana og eirðarlaus, já, eins og hlaðvarpsþátturinn heitir. En þegar fólk er í þessum aðstæðum þá er því ávallt ráðlagt að finna sjálft sig. Hver er ég? Ég, það er skrítið orð. Þegar fólk spyr mig þá er stutta svarið: ,,ég er ósköp venjuleg 17 ára stelpa”. Vill fólk vita hver áhuga- málin mín eru ef það spyr mig? Þá gæti ég svarað: ,,ég er ósköp venjulegur óperusöngnemi og harmonikkuleikari sem spilar körfubolta” en þetta er ekki stutt lýsing á sama einstaklingnum. Kannski væri hægt að segja frá því sem ég geri í lífinu, þá gæti ég sagt: ,, ég er nemandi í menntaskóla og tónlistarskóla, starfsmaður á leikskóla, ræstingakona og körfuboltaþjálfari fyrir börn í grunnskóla” en þarna erum við aftur komin með svar sem er aðeins of langt. Þegar fólk skráir sig inn á stefnumótasíðu þá eru þetta einu lýsingarnar sem eru gefnar upp. Fólk hefur ekki hugmynd um hver mín persónueinkenni eru eða hvernig ég lít út í raunveruleikanum. Ef ég myndi skrifa: ,,ég er laglegasta dama Vestfjarða, með háa greindarvísitölu og fyndnasta manneskja sem ég þekki” þá tel ég miklar líkur á því að einhver ungur piparsveinn muni rakleiðis eyða mínum aðgangi í burtu. Mér líður eins og ég verði einhleyp að eilífu þar sem útlit mitt þykir ekki vera aðlaðandi og heillandi fyrir meðal Jón. Þrátt fyrir margs konar tilraunir virðist það ómögulegt fyrir glæsikvendið mig að næla mér í maka, það þýðir samt ekki að ég ætli að hætta, eða hvað? Í dagsins amstri reyni ég að vinna gegn staðalímyndum nútímans og geri það með glæsibrag. Ég get sagt með stolti að ég er ég sjálf hverja einustu mínútu sólarhringsins, alla daga ársins. Er það ekki afrek út af fyrir sig, að þurfa ekki að fela sig undir einhverri grímu til þess að reyna að þóknast einhverjum öðrum? Ég held það allavega, en það hefur ekki alltaf verið svoleiðis hjá mér, ég hagaði mér eins og hundur og sleikti upp alla í kringum mig bara til þess að mér myndi líða eins og ég tilheyrði hóp. Það var ekki fyrr en í 9. bekk sem ég loksins gat tekið af mér þungar byrðar sem gríman var, mikið var það gott. Ég eignaðist þá loksins í fyrsta sinn trúnaðarvini og ég byrjaði á fullu í félagslífinu. Tíminn fyrir 9. bekk var mjög erf- iður fyrir mig andlega og líkamlega. Til að byrja með er ég bogamaður eða des- emberbarn og til þess að setja punktinn yfir i-ið þá er ég fædd föstudaginn 13. desember. Ef þið viljið að börnin ykkar verði auðvelt skotmark þá myndi ég fæða þau föstudaginn 13. desember. Ég lærði það ekki fyrr en í síðustu viku í sögutíma hvað raunverulega gerðist á föstudeginum 13. og af hverju sá dagur er talinn vera óhappadagur. Mjög furðulegt að tengja eitthvað sem gerðist löngu áður en Ísland var numið við óheppni á þessum tiltekna degi. Ég var mjög bráðþroska og var orðin stærri en mömmur jafnaldra minna þegar ég var í 4.bekk, var alltaf stærsta stelpan í bekknum og örugglega háværust líka. Mér hefur aldrei fundist ég vera falleg, aldrei á minni 17 ára ævi, það er rosalega langur tími. Ég hef aldrei verið með mjóan maga og fíngert hár eins og hinar stelpurnar í bekknum mínum voru, þær voru allar mjög fíngerðar og með mjúka húð, síðan stóð ég við hliðina á þeim lítandi út eins og mamma þeirra með barnsandlit. Þessi líkami sem mér hefur verið úthlutað hefur alltaf sinnt vinnunni sinni sem líkama vel, en að vera flottur sýnum ábyggilega aldrei. Það sem samkomubannið gaf mér var það að ég lærði að elska líkamann minn og þótt mér finnist ég ekki vera falleg þá elska ég mig samt sem áður. Það er mjög stórt skref í því að reyna að finna út hver maður sjálfur sé í raun og veru að elska líkaman sinn. Nú er ég bara að reyna að einbeita mér að skólanum, en ég er einmitt á mínu síðasta ári í menntaskóla, og reyna að sinna öllum mínum áhuga- málum sem ég taldi upp áðan en auk þess þá skráði ég mig í allar nefndir sem mögulega hægt var að skrá sig í og er að vinna í því að stofna 2 nýjar nefndir, eða réttara sagt að endurvekja þær. Samt langar mig sjúklega mikið í kærasta, enda eru margir jafnaldrar mínir í sambandi. Ég hef verið að velta fyrir mér undanfarið, hvers vegna er ég einhleyp? Þá byrja ég að þylja upp alls konar hluti. Ég er kannski ekki það falleg eða nógu mikil gella, ég er allt of hávær og of mikil brussa, ég er fyrir ofan meðalhæð og er í yfirþyngd samkvæmt BMI stuðlinum. En þegar ég er búin að brjóta mig of mikið niður og er farin að háskæla og vil vera alein og öskra Bird set free og Alive með Sia, þá fæ ég mig til þess að senda á eldri systur mína sem er mín besta vinkona. Ef ég skoða yfir samskiptin okkar á Messenger þá hef ég ábyggilega sent 30 sinnum á hana: „Hæ, afhverju er ég ekki eins falleg og hinar stelpurnar?“. Í dag hristi ég hausinn og vill helst hitta þessa gömlu mig og segja henni frá því hvað ég er í alvörunni best í heimi. Hvað með það að ég sé hávær, ég er allavega ekki að öskra. Hvað með það að ég sé brussa, er ekki önnur hver manneskja klaufi og á erfitt með fínhreyfingar? Hvað með það að ég sé ekki mesta gella í heimi, ég er svo skemmtileg og klár að það jafnar það bara út. Hvað með það að ég sé hávaxin, það er bara ótrúlega gott að vera hávaxinn ef maður er í körfubolta. Hvað með það að ég standist ekki BMI-stuðulinn, það er líka mjög óraunhæfur stuðull og brýtur niður stelpur á mínum aldri sem eru ekki eins og fyrirsæturnar. Ég er bara ótrúlega fyndin og falleg þrátt fyrir að uppfylla ekki þessar kröfur sem samfélagið gefur mér. Og hvað með það þótt ég sé einhleyp, ég er allavega ekki að falla í skólanum eða leiðast út í fíkniefni. Auk þess held ég að ég sé búin að finna út hver ég er. Ég. Stelpa. Femínisti. Ísfirðingur. Körfuboltakona. Nemandi. Söngkona. Harmonikkuleikari. Aðgerðasinni. Fyndin. Skemmtileg. Ákveðin. Hávaxin. Einhleyp. Opin. Hávær. Brussa. Gagnkynhneigð. Starfsmaður. Þjálfari. Systir. Dóttir. Frænka. Vinkona. Mágkona. Ég er ég.

x

Skólavarðan

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.