Skessuhorn


Skessuhorn - 05.10.2022, Blaðsíða 12

Skessuhorn - 05.10.2022, Blaðsíða 12
MIÐVIKUDAGUR 5. OKTÓBER 202212 Helgi Laxdal Aðalgeirsson hefur keppt fyrir Íslands hönd á fimm Evrópumótum í fimleikum, bæði í blönduðu liði og drengja- og karla- liði. Þá hefur hann fjórum sinnum keppt með Stjörnunni á Norður- landamóti. Á EM 2021 setti hann heimsmet þegar hann tók og lenti stökk sem enginn annar hefur áður gert. Fimm ára byrjaði hann að æfa hópfimleika með ÍA þar sem hann var í tæp tíu ár en færði sig þá í Stjörnuna og hefur æft þar síðan 2013. Helgi er stórhuga fimleika- maður sem setti sér ungur ákveðin markmið sem hann getur glaður sagt frá í dag að hann hafi náð. Bjuggust við því að komast í úrslit á EM 2022 Evrópumót í hópfimleikum 2022 var haldið í Lúxemborg dagana 14.- 17. september. Þar keppti Helgi Laxdal í karlaliði fyrir Ísland, fyrst í undanúrslitum fimmtudaginn 15. september og svo í úrslitum laugardaginn 17. september. Helgi segir að litlu hafi mátt muna því að liðið næði ekki inn í úrslitin. „Við bjuggumst við því að komast í úrslit en svo gekk okkur bara ekki nógu vel á fimmtudeginum í dansinum. Þegar maður er að keppa þá veit maður aldrei einkunnina sína en þjálfararnir okkar vissu hana og þeir voru bara á nálum og héldu að við kæmumst kannski ekki í úrslitin. En við vissum ekkert af því,“ segir Helgi og hlær. Hann og liðs félagarnir hafi þá þurft að „bomba á fiber“ eins og Helgi orðar það og á við að allir í liðinu hafi þurft að standa sig og lenda sín stökk í gólfæfingum. Það gekk eftir, allir í liðinu lentu sín stökk og íslenska karlalandsliðið var fimmta liðið inn í úrslit. „Okkur gekk miklu betur í úrslitunum. Það voru sex af átta liðum, sem komust í úrslit og við komum sem sagt inn í úrslitin í fimmta sæti en enduðum í fjórða sæti,“ segir Helgi en hann hefur þrisvar sinnum komist á pall með sínu liði á Evrópumóti. „Við fengum brons 2016, brons 2018 og svo silfur 2021, þannig það styttist í gullið!“ Uppalinn með ÍA Helgi hefur æft hópfimleika frá fimm ára aldri en hann er 23 ára í dag og var elstur í landsliðinu á EM núna í september. Hann segist þó ekki taka eftir því sjálfur að hann sé eitthvað eldri en liðsfélagarnir. „Strákarnir segja reyndar líka að ég sé barnalegastur en það er samt ekki satt sko!“ Helgi er uppalinn með Fimleikafélagi ÍA og segir það vera sitt félag. Þar voru fáir strákar sem æfðu fimleika og kepptu strák- arnir því alltaf í stelpnaflokki. „Það böggaði mig samt ekkert af því ég var bara að gera það sem mér fannst ótrúlega skemmtilegt og ég var með góðan þjálfara. Mér gekk mjög vel á Akranesi en það var alltaf verið að segja við mig að ég væri ótrúlega góður og ætti að prófa að æfa ein- hvers staðar annars staðar,“ segir Helgi. Árið 2013 fór hann ásamt öðrum félögum sínum úr ÍA að skoða önnur lið. „Þjálfararnir á Akra- nesi sögðu bara að við þyrftum að fara eitthvað annað. Það var líka léleg aðstaða á Akranesi á þessum tíma og það var eigin lega bara hættulegra fyrir okkur að æfa þar áfram því þar var ekki almennileg aðstaða, ekki almennleg gryfja til dæmis,“ segir Helgi en hann og félagar hans ákváðu í kjölfarið að byrja að æfa með Stjörnunni og hefur Helgi verið þar allar götur síðan. Hvað eru hópfimleikar? Hópfimleikar skiptast í gólf- æfingar, dans og trampólín og segir Helgi að gólfæfingarnar séu hans uppáhald „Það er svona fibergólf þar sem þú hleypur og gerir stökk og þetta eru þrjár umferðir. Það er aftur á bak umferð þar sem þú gerir öll stökk aftur á bak. Svo er framumferð þar sem öll stökkin eru fram og svo er sameiginleg umferð og þá þurfa allir í liðinu að gera eins,“ segir Helgi. Hvað varðar danshluta hóp- fimleikanna þá eru átta eða tíu manns saman á gólfi að dansa og ákveðnar reglur eru um það sem þarf að gera í dansinum. „Það er til dæmis færsla fram, færsla til hliðar, færsla áfram, við þurfum að gera sameiginlega lyftu og eitt- hvað móment eins og jafnvægi, handstöðu eða liðleikamóment. Dansinn er svona það fallega í fimleikunum.“ Svo er það trampólínið. Það eru þrjár umferðir, eins og í gólf æfingunum, þar sem kepp- endur hlaupa á fullri ferð í átt að trampólíni og stökkva. „Ein umferð er yfir hest en svo eru tvær umferðir þar sem er bara trampólín en önnur þeirra er sameiginleg og öll stökkin á trampólíni eru fram. Þannig að trampólínið er það auðveldasta fyrir fólk að skilja en mér finnst það eiginlega erfiðasti hlutinn,“ segir Helgi. Elstur í íslenska karlalandsliðinu Þar sem Helgi var elsti kepp- andinn í karlalandsliðinu á síðasta EM liggur beinast við að spyrja hann hvort hann sé farinn að hugsa um að hætta í fimleikum. „Sko, maður er alltaf að segja að maður eigi að hætta á toppnum en mér finnst ég ekki alveg vera búinn að toppa mig þótt sumir segi það. Ég held að ég haldi áfram, alla- vega eitt Evrópumót í viðbót sem er þá 2024 og þá kannski segi ég stopp. En núna er ég bara að hugsa um Norður landamótið 2023 sem verður haldið hérna á Íslandi næsta haust,“ segir Helgi. Norðurlandamótið er keppni meðal félagsliða og segir Helgi að Stjarnan hafi ákveðið forskot á önnur félagslið á þessu móti. Það sé vegna þess að næstum því allir í íslensku landsliðunum séu að æfa með Stjörnunni. „Strákarnir sem eru í karlaliðinu í Stjörnunni eru eiginlega allir í landsliðinu en strák- arnir í til dæmis norska, sænska og danska landsliðinu koma úr mörgum félagsliðum sem eru ekki nærri því eins sterk og Stjarnan. Þannig að landsliðin hjá öðrum Norðurlandaþjóðum samanstanda af einstaklingum úr kannski sjö félagsliðum á meðan íslenska lands- liðið er eiginlega bara eitt félags- lið,“ segir Helgi. Heimsmethafinn Helgi Laxdal Helgi setti heimsmet á EM 2021 þegar hann tók og lenti stökk sem enginn annar í heiminum hefur tekið. Hann segir að það stökk sé það sem standi upp úr á hans fimleika ferli. „Það er sem sagt í gólf æfingum. Í fram umferð á ég heimsmetið í hæsta gildinu. Í fram umferð þá hoppar þú fram, gerir kraftstökk sem snýr líka framb svo gerir þú tvöfalt heljarstökk fram eða einfalt heljarstökk fram. Hvað varðar stökkið mitt þá byrja ég á að hlaupa og geri heljarstökk með beinum líkama og heilli skrúfu, svo geri ég kraftstökk og geri svo tvöfalt heljarstökk með beinum líkama og tvær og hálfa skrúfu og það er svona mitt, mitt einkenni,“ segir Helgi. Hann var handviss um að ein- hver myndi framkvæma þetta stökk núna á EM 2022 því hann hafði séð myndbönd af öðrum þjóðum æfa þetta stökk. „Þannig ég hélt að á þessu móti myndi einhver allavega jafna mig eða toppa mig. En það var ekki,“ segir Helgi en hann tók þetta stökk aftur á EM 2022 í september og segir að það hafi tekist enn betur en í fyrra skiptið. „Ég ætlaði núna að setja líka heimsmet með öðru stökki en það er á hesti. Þá ætlaði ég að gera arabastökk yfir hestinn og tvöfalt heljarstökk með tvöfaldri skrúfu. Ef ég hefði náð því þá hefði ég verið með metið í fram umferð og metið á hesti. Það er einn strákur sem hefur gert stökkið á hestinum áður þannig ég yrði ekki fyrstur en ég ætti þá metið með honum,“ segir Helgi. Það tókst hins vegar ekki, Helgi reyndi stökkið í undan- úrslitunum en datt og ákvað þá í samráði við þjálfara að reyna ekki við stökkið í úrslitunum sjálfum. „Ef ég hefði reynt það í úrslitunum og ekki náð því þá hefðum við pottþétt farið niður í fimmta sæti. Þannig að maður þarf að hugsa um hvort stökkið sé þess virði því þú verður að lenda og þú verður vera 100% til þess að keppa með svona stökk. En ég ætla klárlega að reyna þetta stökk á Norðurlanda- mótinu næsta haust, og ná þá öðru heimsmeti.“ Akkúrat nógu margir til að ná í lið Á EM 2021 lenti íslenska karla- landsliðið í öðru sæti og segir Helgi að það hafi gengið ótrúlega vel á því móti og sé það líka eitt af því sem standi upp úr á ferlinum. „Fimleikasambandið var eigin- lega grátbeðið um að hafa karlalið á mótinu og við rétt náðum í lið því við vorum svo fáir. Við vorum akkúrat nógu margir til að geta skráð lið og varamenn en svo byrj- uðu strákarnir að meiðast,“ segir Helgi og bætir við. „Þannig við vorum mjög stutt frá því að geta ekki keppt. Og það er það sem hinar þjóðirnar, eins og Danmörk og Svíþjóð og fleiri, eiga á okkur, að ef einhver dettur út hjá þeim þá eru svona 60 aðrir sem koma til greina til að hoppa inn í liðið í staðinn. En við strákarnir á Íslandi erum bara 13 og það eru ekki fleiri.“ „Það er svo mikilvægt að búa til fyrirmyndir“ Þótt íslenskir karlar í hópfimleikum séu fáir er ekki hægt að segja það sama um unga og upprennandi fim- leikamenn. Helgi er að þjálfa fim- leika í yngri flokkum Stjörnunnar og þar er troðfullt á allar æfingar og eru níu strákar á biðlista. „Ég vil meina að þessi mikla aðsókn sé af því það er búið að vera svo mikil vitundarvakning undanfarið um fimleika hjá strákum. Síðasta árið er búið að auglýsa fimleika fyrir stráka mjög mikið og svo fórum við, nokkrir fimleikastrákar, tvisvar sinnum í kringum landið með fim- leikasýningu sem hafði yfirskrift- ina „Fimleikar fyrir stráka“ og við fengum mikla umfjöllun á frétta- miðlum um þetta,“ segir Helgi og bætir við. „Það er svo mikilvægt til að búa til fyrirmyndir. Eina leiðin til að fá stráka í íþróttina er að þetta sé kúl og lúkki skemmtilegt og ég held að það sé ástæðan fyrir miklu aðsókninni núna, að loksins er verið að tala um stráka í fimleikum.“ Eitt heimsmet í viðbót og þá er hann sáttur En hafði Helgi enga strákafyrir- mynd þegar hann byrjaði að æfa fim- leika? Nei það var rosalega lítið um það. Það var einn sænskur strákur, Jakob Melin, sem er bara goðsögn í fimleikunum. Hann kom einu sinni á Akranes og keppti og hann kom í Gerplu og var að þjálfa þar og keppti. Og hann var svona sá sem ég sá og var alveg klikkaður fimleika- maður. En Kolbrún Þöll Þorradóttir og Andrea Sif Pétursdóttir voru líka rosalega góðar. Ég hugsaði að ég ætlaði að vera betri en þær og betri en Jacob Melin þannig að þau voru öll miklar fyrirmyndir fyrir mig.“ – Og ertu orðinn betri en þau? „Já ég myndi segja það,“ segir Helgi sann- færandi. - Þannig að þú ert búinn að ná þínum markmiðum? Já, ég er búinn að ná mínum markmiðum en ég ætla reyndar að bæta við einu heimsmeti í viðbót á næsta Norður- landamóti. Þá er ég eiginlega bara sáttur. En ef það gengur ótrúlega vel þá á ég svolítið erfitt með að mæta á næsta Evrópumót, þannig það má eiginlega ekki ganga alltof vel því þá kannski hætti ég,“ segir Helgi og hlær. gbþ / Ljósm. úr einkasafni „Eina leiðin til að fá stráka í íþróttina er að þetta sé kúl og lúkki skemmtilegt“ Rætt við fimleikamanninn og heimsmethafann Helga Laxdal Aðalgeirsson Helgi Laxdal Aðalgeirsson fimleikamaður og heimsmethafi er hér í sínu náttúru- lega umhverfi. Á fyrstu æfingu í höllinni í Lúxemborg fyrir EM-2022 þar sem íslenska karlalands- liðið lenti í fjórða sæti.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.