Verktækni - 2020, Blaðsíða 15
15
Eins eru svarendur með hlutfallslega fleiri bíla á heimili en íbúar á Íslandi. Þetta helst í
hendur við þá staðreynd að svarendur bjuggu við hlutfallslega hærri heildartekjur heimilis en
íbúar á Íslandi og má því rekja til hærri velmegunar svarenda. Hlutur bíllausra heimila í
úrtakinu er of lítill (4% í stað 11% heimila sem eru án bíls).
4.2. Viðhorf almennings til ýmissa þátta sjálfakandi ökutækja
Hafa ber í huga að hér er spurt um einstaka þætti á einangraða vegu undir hugsanlegum
aðstæðum. Vel kann að vera að aðrir þættir eins og t.d. verð vegi þyngra þegar kemur að
mati á ferðamátum. Slíkt er athugað í strjálum vallíkönum sem ekki er frekar gert skil í
þessari grein.
Upplifun öryggis í nálægð við ökutæki
Spurt var um þægindi í nálægð við sjálfakandi ökutæki í umferð eftir því hvaða ferðamáta
maður ferðaðist með. Mynd 1 sýnir að óvörðum vegnotendum sem ekki ferðast í bíl, hvort
sem er sjálfakandi eða hefðbundnum, líður síður vel í nálægð sjálfakandi ökutækja. Einnig
má sjá að fótgangandi finna síður fyrir ógn af sjálfakandi ökutækjum enda eru fótgangandi
síður líklegir til að deila vegrými með sjálfakandi ökutækjum á gangstéttum á meðan
hjólreiðafólk, rafskutlu- og mótorhjólanotendur munu gera það á vegum, sem útskýrir muninn
á fótgangandi og öðrum utan bíls.
Mynd 1: Upplifun öryggis vegfarenda í nálægð við sjálfakandi ökutæki
Almennt má fullyrða að um 60% farþega í öðrum sjálfakandi ökutækjum og í hefðbundnum
bílum gefa upp jákvæða öryggistilfinningu (einkunn 4-6) í samanburði við 40% notenda
annarra ferðamáta. Þetta er töluvert hærra en niðurstöður Eurobarometer, gefa til kynna að
37% evrópubúa líði vel í nágrenni sjálfakandi ökutækis sem fótgangandi vegfarandi, um 30%