Morgunblaðið - 18.08.2022, Page 52
VIÐTAL
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Fram undan er takmarkalaust
starfsár í öllum skilningi, því nú
gefst loks tækifæri fyrir hljómsveit-
ina að blómstra á ný,“ segir Lára
Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmda-
stjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands
(SÍ), og tekur fram að gaman sé að
geta tekið á móti gestum á opnu húsi
í Hörpu á menningarnótt á laugar-
dag sem marki upphaf starfsársins,
ásamt með tónleikunum „Klassíkin
okkar“, sem sendir verða út í beinni
á RÚV föstudaginn 2. september,
þar sem boðið verður upp á einleik-
araveislu, og fyrstu áskriftartón-
leikum vetrarins fimmtudaginn 8.
september. Þess má geta að tvennir
tónleikar verða í boði á menningar-
nótt, þar sem gestir geta annars veg-
ar kynnst undrum alheimsins kl. 15
undir leiðsögn Stjörnu-Sævars og
hins vegar heyrt klassíska hlaupa-
lagalista Jóns Jónssonar kl. 17.
Aðgangur er ókeypis en bóka þarf
miða á sinfonia.is eða í miðasölu
Hörpu á tónleikadegi.
Ekkert lengur sjálfsagt
„Við hlökkum til að fá tónleika-
gesti aftur í hús, enda bjóðum við
upp á fjölbreytt, litríkt og kröftugt
starfsár með fjölda innlendra og er-
lendra stjarna,“ segir Halla Oddný
Magnúsdóttir, listrænn ráðgjafi SÍ.
„Eitt af því sem faraldurinn kenndi
okkur er að það er ekki sjálfgefið að
geta notið menningar í eigin persónu
og því um að gera fyrir fólk að drífa
sig af stað og njóta þess að þetta er
aftur hægt,“ segir Halla og tekur
fram að hún hlakki mikið til fyrstu
áskriftartónleika vetrarins þar sem
heyra megi verkið Archora eftir
Önnu Þorvaldsdóttur, staðartón-
skáld SÍ, undir stjórn Evu Ollikai-
nen, aðalhljómsveitarstjóra SÍ, sem
heimsfrumflutt var við glimrandi
viðtökur á BBC Proms í liðinni viku.
„Á sömu tónleikum leikur Daniil
Trifonov, sem er einn af stærstu
stjörnum samtímans í píanóheim-
inum, píanókonsert nr. 4 eftir Beet-
hoven,“ segir Halla og tekur fram að
komandi starfsár endurspegli upp-
skeru sveitarinnar eftir þolgæði síð-
ustu tveggja ára. „Við njótum þess á
allt annan hátt en áður að fá þessar
stórstjörnur til okkar og erum full
þakklætis, því það er ekkert lengur
sjálfsagt,“ segir Halla.
Sem fyrr verður, að sögn Láru og
Höllu, boðið upp á fjölbreytta efnis-
skrá í vetur. „Enda krefst hlutverk
okkar sem þjóðarhljómsveitar að við
setjum upp marga ólíka hatta,“ segir
Lára. Bendir hún á að boðið verði
upp á sjö tónleika í rauðu tónleika-
röðinni „þar sem heyra má kraft-
mikla sinfóníska tónlist með íslensk-
um og erlendum einleikurum í
fremstu röð.
Hvað felst í aðgengileika?
Það eru einnig sjö tónleikar í gulu
röðinni, sem hugsuð er fyrir þá sem
vilja fjölbreytt og litrík meistaraverk
úr ýmsum átum með glæsilegum
einleikurum og einsöngvurum. Boðið
er upp á fimm tónleika í grænu röð-
inni, sem allir nema Vínartónleika-
rnir verða sýndir í beinni útsendingu
á RÚV. „Hér er um að ræða styttri
tónleika án hlés með kynningum á
sviðinu þar sem ljósi er varpað á
ýmsar skemmtilegar sögur á bak við
meistaraverkin sem heyrast,“ segir
Lára og tekur fram að hugmyndin
með grænu röðinni sé að hún sé að-
gengileg. „Í því samhengi höfum við
skoðað hvað felst í því að vera að-
gengilegur, því það snýst ekki bara
um að heyra kunnuglega tónlist
heldur einnig hvernig efnisskráin er
sett saman og kynnt fyrir áhorf-
endum,“ segir Lára og bendir á að
vinsælar tónleikakynningar í Hörpu-
horni fyrir áskriftartónleika gegni
mikilvægu hlutverki í því að opna
heim tónlistarinnar fyrir tónleika-
gestum.
Rækta tengslin við listafólkið
Af öðrum röðum nefnir Lára Litla
tónsprotann, en undir merkjum
hans verður boðið upp á ferna tón-
leika, þeirra á meðal stytta útgáfu af
Töfraflautunni 18. febrúar undir
stjórn Korniliousar Michaiidis og
Dýrasinfóníuna eftir metsöluhöf-
undinn Dan Brown 13. maí. „Sami
fjöldi tónleika er í bæði föstudags-
röðinni, sem eru hugsaðir sem af-
slappaðir og styttri tónleikar í Norð-
urljósum þar sem kynnast má
nýjum hliðum á listamönnum starfs-
ársins, og í svörtu röðinni þar sem
Sæunn Þorsteinsdóttir staðar-
listamaður starfsársins er í einleiks-
hlutverki og flytur m.a. verk eftir
Bach, Önnu Þorvaldsdóttur og Shos-
takovitsj auk þess sem hún frum-
flytur nýtt verk eftir Veronique
Vöku,“ segir Lára og tekur fram að
gott sé fyrir hljómsveitina að rækta
tengsl við listafólk með því að bjóða
því að vinna að nokkrum ólíkum tón-
leikum á sama starfsárinu. Þetta
eigi til dæmis við um Nathanaël
Iselin, sem er staðarhljómsveitar-
stjóri ársins, Bertrand de Billy, sem
er aðalgestastjórnandi sveitarinnar í
ár, og Íslandsvininn og píanóleik-
arann Stephen Hough, sem verður
listamaður í samstarfi á komandi
starfsári. Hann kemur fram á ein-
leikstónleikum 13. janúar, daginn
eftir að hann leikur píanókonsert nr.
3 eftir Beethoven með hljómsveit-
inni auk þess sem hann leikur píanó-
konsert nr. 2 eftir Rakhmanínov á
tónleikum 23. febrúar, en síðast-
nefndu tvennir tónleikarnir eru hluti
af upptakti að tónleikaferð sveitar-
innar til Bretlands í apríl.
„Í þeirri tónleikaferð verður einn-
ig flutt verkið Metacosmos eftir
Önnu, sem sjálf mun taka virkan
þátt í tónleikakynningum, en hún
býr í Bretlandi,“ segir Lára, en
hljómsveitarstjóri verður Eva Olli-
kainen. „Við fengum boð frá sömu
skipuleggjendum og sáu um tón-
leikaferðina okkar til Bretlands í
febrúar 2020. Það er stefna þeirra að
gefa þeim erlendu sveitum sem þeir
bjóða tækifæri til að koma reglulega
til að rækta sambandið við áhorf-
endur á staðnum,“ segir Lára og
tekur fram að ýmsar aðrar tónleika-
ferðir séu í farvatninu sem verði
kynntar síðar.
Vill þróa hljóm sveitarinnar
Í viðtali við Ollikainen í bæklingi,
þar sem komandi starfsár er kynnt,
kemur fram að meðal meginmark-
miða hennar sem aðalhljómsveitar-
stjóra SÍ sé að „leggja rækt við hljóm-
bæ hljómsveitarinnar – þróa hennar
einstaka hljóm“ enda sé það ósk
hennar að hljómur SÍ verði „auð-
þekktur og sérstakur“. Þegar þetta er
borið undir Láru og Höllu benda þær
á að Eva Ollikainen sé metnaðarfull,
hafi skýra framtíðarsýn og sé óþreyt-
andi við að vinna að markmiði sínu í
góðri samvinnu við hljóðfæraleikara
sveitarinnar.
„Það er ekki sama hvernig svona
stór hópur hljóðfæraleikara spilar sig
saman og hlustar hver á annan,“ segir
Halla og Lára bætir við að uppstilling
hljómsveitarinnar á sviðinu geti t.d.
haft afgerandi áhrif á samspilið og
samhljóminn. „Við erum ótrúlega lán-
söm að vera með þennan stórkostlega
sal sem Eldborg er, en það er enn
hægt að rannsaka möguleika hljóms-
ins í honum,“ segir Lára og tekur
fram að tónleikaferðir séu mikilvægur
liður í vinnunni við að þróa hljóminn,
enda afar lærdómsríkt að leika sömu
verkin í ólíkum tónleikarýmum.
Laufey alin upp hjá Sinfó
Auk framangreindra tónleika má
nefna að boðið verður upp á ýmsa tón-
leika utan tónleikaraða. „Sem eru til-
valdir í Regnbogakort,“ segir Halla
og nefnir í því samhengi kvikmynda-
sýninguna á Harry Potter og leyni-
klefanum í mars, tónleika í september
þar sem Ungsveit SÍ leikur sinfóníu
nr. 2 eftir Rakhmanínov og tónleika
27. október þar sem tónlist Laufeyjar
verður flutt í hljómsveitarútsetn-
ingum. „Svo skemmtilega vill til að
Laufey er nánast alin upp í hljóm-
sveitinni, enda dóttir Lin Wei fiðlu-
leikara og tók sjálf þátt í Ungsveitinni
á sínum tíma,“ segir Lára.
Viðburður að fá Trifonov
Spurð um helstu hápunkta ársins
segja Lára og Halla margt hægt að
nefna. „Það er mikill viðburður að fá
Trifonov til landsins,“ segir Lára og
Halla bætir við: „Það er svo mikill
viðburður að við ætlum ekki að
sleppa honum fyrr en hann hefur líka
leikið einleikstónleika laugardaginn
10. september, enda er hann ein af
rokkstjörnum klassíska tónlistar-
heimsins,“ bætir Halla við og bendir
á að faraldurinn hafi leitt til þess að
einleikarar staldri stundum lengur
við en áður og leiki oft tvenna tón-
leika með ólíkum efnisskrám, sem sé
mikill fengur fyrir íslenska tónleika-
gesti.
Nefna þær í því samhengi m.a. tón-
leika 17. nóvember þar sem fiðluleik-
arinn Baiba Skride og sellóleikarinn
Harriet Krijgh leika konsert eftir
Sofiu Gubaidulinu ásamt bayan-
leikaranum Elsbeth Moser auk þess
sem flutt er verkið Sinfónískir dansar
eftir Rakhmanínóv, en daginn eftir
stýra þær kammertónleikum á föstu-
dagstónleikum þar sem þær leika
æskuverk eftir Shostakovitsj og
Mendelssohn.
„Í byrjun nóvember verða hér
glæsilegir pólskir tónleikar þar sem
Jan Lisiecki leikur píanókonsert nr. 1
eftir Chopin,“ segir Halla og bendir á
að laugardaginn 5. nóvember verði
pólskt þema á einum af þremur
barnastundum Sinfóníunnar á kom-
andi vetri. „Ég er mjög spennt fyrir
Íslandsfrumflutningnum á slagverks-
konserti eftir Daníel Bjarnason í jan-
úar í flutningi Martins Grubingers.
Þetta verður síðasti séns til að heyra
Grubinger spila, því hann ætlar að
snúa sér að öðru en tónlistinni,“ segir
Halla og tekur fram að hún hlakki
einnig mjög mikið til tónleikanna 14.
apríl þar sem Eva Ollikainen stjórni
Metacosmos eftir Önnu Þorvalds-
dóttur og sinfóníu nr. 5 eftir Tsjaj-
kovskíj, sem verði í farteskinu fyrir
tónleikaferðina, og einnig Luonnotar
eftir Sibelius og Voice verser eftir
Jukka Tiensuu þar sem Anu Komsi
syngur einsöng.
„Það er alltaf svo gaman þegar
maður fær stóru rómantísku sinfóní-
urnar í bland við nýtt og jafnvel dálít-
ið flippað efni, en allt er þetta dýrleg
músík,“ segir Halla. „Svo má ekki
gleyma að Bertrand de Billy heldur
áfram að stjórna sinfóníum Brahms
og fær með sér flotta einleikara í
konsertum eftir Brahms,“ segir Lára
og bendir á að á tónleikum 9. mars
leiki Sunwook Kim einleik í píanó-
konsert nr. 2 eftir Brahms og á tón-
leikum 8. júní leiki Augustin Hadelich
einleik í fiðlukonsert eftir Brahms.
Hljóðrita tvö verka Önnu
„Meðan faraldurinn gekk yfir gát-
um við ekki verið með tónleika á
Myrkum músíkdögum og því
ánægjulegt að geta boðið upp á
tvenna tónleika á hátíðinni í ár,“ segir
Lára, en undir lok janúar verða tón-
leikar með verkum Báru Gísladóttur
auk þess sem verk eftir meðal anars
Ingibjörgu Ýri Skarphéðinsdóttur og
Gunnar Andreas Kristinsson munu
heyrast.
Þess má að lokum geta að SÍ mun
halda áfram að hljóðrita verk til
alþjóðlegrar útgáfu. „Í vetur munum
við hljóðrita tvö verk eftir Önnu, þ.e.
Archora og Aiôn, hvort tveggja undir
stjórn Evu,“ segir Lára og bendir á
að SÍ hafi átt gjöfult samstarf við
Sono Luminus á síðustu árum.
„Undir þeirra merkjum kemur á
starfsárinu út ný plata þar sem verk
íslenskra og bandarískra samtíma-
tónskálda eru í forgrunni undir stjórn
Daníels Bjarnasonar sem er lista-
maður í samstarfi hjá okkur. Meðal
þeirra sem eiga verk á þeirri plötu
eru María Huld Markan Sigfúsdóttir
og Missy Mazzoli,“ segir Lára og tek-
ur fram að ýmislegt fleira sé í bígerð
sem of snemmt sé þó að segja frá.
Morgunblaðið/Hákon
Í stafni Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri, og Halla Oddný Magnúsdóttir, listrænn ráðgjafi.
„Takmarkalaust starfsár“
- „Bjóðum upp á fjölbreytt, litríkt og kröftugt starfsár með fjölda erlendra og innlendra stjarna“
- Opið hús hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands í Hörpu á menningarnótt á laugardaginn kemur
52 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 18. ÁGÚST 2022
LAUGAVEGI 24 - REYKJAVÍK - S. 552 0800
SKIPAGÖTU 7 - AKUREYRI - S. 462 4646