Borgfirðingabók - 01.12.2008, Blaðsíða 170
170 Borgfirðingabók 2008
Bjarna er sagt frá tveimur jarðgufuböðum með skýlum, í Reykjahlíð
og Þjórsárholti. Samkvæmt þeirri frásögn eru þau talin hafa verið
notuð þar lengi.
Snorri í Reykjaholti
Þegar Snorri var fluttur í Reykjaholt fór hann fljótlega að huga að
jarðgufubaði með reyknum frá Skriflu. Hann lét grafa skurð frá
hvernum með sérstakri rás í botni í vesturátt upp í dálítið barð. Þessi
búnaður snarbeygði svo til suðurs út í jaðar barðsins þar sem hann
endaði, en þar hefði verið upplagður staður fyrir skýli (Sjá mynd 2,
nr. 3 gufustokkur og F). Þegar hér var komið sögu var Snorri farinn að
efast um ágæti gufubaða, slík böð væru yfirleitt langt í frá heppileg til
langdvalar. Þar sem völ var á öðru álitlegra var þessi hugmynd um
jarðgufubað því slegin af án frekari umsvifa. (Sjá mynd 4).
Gömul lokuð vatnsrás úr Skriflu lá í mýrarjaðrinum neðan
barðsins heim undir bæjarhólinn og endaði þar í skjólgóðum
hvammi. Þessi lögn var frá fyrstu búsetu í Reykjaholti eða jafnvel
frá tíma sauðahúsa þar frá Breiðabólstað. (Í landnámu er þess getið
að Tungu-oddur hafi farið frá húsi til laugar í Reykjaholt, þannig
að þá hefur verið búið að gera þarna nothæfa laug. Sjá mynd 2, nr. 2
vatnssokkur) Þessi lokaða vatnsrás kom einnig í veg fyrir að vatn úr
Skriflu hlæðist neðar í mýrinni upp í svellbólstra í vetrarhörkum þar
sem menn og skepnur skrifluðu og gætu fengið hinar verstu byltur.
Í hvamminum góða lét Snorri gera nýja stóra hringlaga setlaug úr
hveragrjóti og leggja lokaða vatnsrás að henni lítið eitt sunnan við
þá gömlu. Sjá mynd 2, nr. 1 vatntsstokkur og Snorralaug. Misháir steinar
voru settir í botn laugarinnar út við hliðarnar svo að menn gætu
valið sér sæti eftir hryggjarlengd þar sem þeir hökuðu vatnið. Laugin
var um fimmtán fet í þvermál og gátu allt að tvær tylftir manna
setið í henni samtímis. Hveragrjótið, sem notað var í setlaugina og
til margra annarra hluta í Reykjaholti, var fengið úr hlíðinni ofan
Úlfsstaða. (Elsa Þorsteinsdóttir og Sveinn V. Þórarinsson, eigendur
og ábúendur jarðarinnar, segja að þar hafi eitt sinn verið hver, sem
enginn veit nú hvert flutti sig, en útfellingin úr vatninu hafi á stóru
svæði gert mölina í kring að hellu allt að spönn á þykkt.) Þegar
búið var að brjóta helluna í hæfilega steina voru þeir hið ágætasta
byggingarefni. Setlaugin reyndist mjög vel en hún var með einföldum