Borgfirðingabók - 01.12.2008, Blaðsíða 11
11Borgfirðingabók 2008
Þetta var ég látinn gera fyrst eftir að ég fór að vera í skógi. Miklu oftar
var það þó lagt jafnóðum í klyfjar, tvær og tvær, hestburð tilbúinn að
draga reipin undir, og þannig var ég látinn vinna þegar ég fór að hafa
vit á að leggja hrís í klyf. Það var vandaverk að leggja rétt í klyf, því
raða þurfti hríslunum saman þannig að á klyfinni myndaðist bunga
sem sneri að hestinum, svo hvorki lægi í honum að aftan né framan.
Þetta átti sá að sjá út sem dró saman og lagði í klyfjar. Ennfremur að
ætlast á um hæfilega og jafna þyngd þeirra klyfja sem saman áttu.
Oftast var unnið svona allan daginn ef tveir voru í skógi, en væru þrír
gat skeð að byrjað væri að renna utan að fyrstu klyfjunum, einkum ef
til stóð að reiða heim daginn eftir. Líklega hefur það verið tveggja til
þriggja daga verk, jafnvel meira, að taka upp til vetrarins þetta magn
af hrísi, sem ég nefndi. Auk þess sem ekki varð alltaf við komið að
vera að allan daginn.
En þegar það var búið var farið að reiða. Aldrei var dregið undan
hestunum á haustin fyrr en eftir að hrísreiðslu var lokið. Gat vel
komið fyrir að flatjárnaðir klárarnir skrifluðu á morgunhörzlinu ef
farið var að frjósa um nætur. Líklega hafa oftast farið tveir á milli.
En einn fór að binda, drepa undir klyfjarnar þar sem þær lágu og var
gjarnan bundið í öll reipin sem til voru hvern dag, en ekki leyst fyrr
en að kvöldi eða daginn eftir og þá aftur sótt í reipin. Þó fór þetta
auðvitað eftir því hvaða vinnukrafti var á að skipa hverju sinni. Faðir
minn átti oftast milli 50 og 60 pör af reipum. Við heyflutning þurftu
alltaf að vera til taks þrír gangar á lestina eins og hún varð lengst.
Heyband var sjaldan flutt á fleiri en þrettán eða fjórtán hestum og
hefur þá þurft svona eitthvað milli fjörutíu og fimmtíu pör til þess
að heybandsfólkið þyrfti ekki að verða reipalaust þó einhver töf yrði
í milliferðum. Eitthvað þurfti svo til vara, til að fylla í skörðin fyrir
það sem slitnaði og gekk úr sér um sláttinn. Reipaviðgerðir voru
vetrarverk.
Á sama hátt og það var vandi að leggja í hrísklyfjar þurfti líka að
vanda sig við bindinguna. Reipið þurfti að koma á hæfilegum stað
utan um klyfina svo að klyfin risi að framan upp fyrir háls og haus á
hestinum, en lægi þó ekki svo í jörð að aftan að hún missti þungans.
Oft hlaut þó eitthvað að dragast niður og reið þá á að það færi ekki
fyrir fætur hestsins. Til þess var bungan gerð þegar lagt var í klyfina
að báðir endar hennar vísuðu heldur frá hestinum, en til þess þurfti
líka bindingamaðurinn að gæta þess að láta ganga rétt á sem kallað