Borgfirðingabók - 01.12.2008, Page 200
200 Borgfirðingabók 2008
Árið 1921
Veturinn frá nýári var góður, hagasamur, voru hross létt á fóðri, en fé
var talsvert gefið. Vorið var úrkomusamt. Grasspretta var sæmileg.
Gras var hátt en nokkuð gisið. Heyannatíminn var óþurrkasamur,
einkum seinni partinn en norðanstormar og kuldi framan af. Haustið
var afar rigningasamt; urðu hey og mór víða úti niður um héraðið.
Víða skemmdist það að mun. Þegar á haustið leið batnaði tíðin að
mun og var hún ágæt það sem eftir var ársins.
Skepnuhöld voru góð, en fénaður var allur í fallandi verði. Stóðust
illa tekjur (og) útgjöld almennings. lungnabólga illkynjuð stakk sér
víða niður þetta ár. Dóu úr henni þá hér í Borgarfirði Sveinbjörn bóndi
í Efstabæ, Einar Hjálmsson í Munaðarnesi og Ástríður húsfreyja
Þorsteinsdóttir á Húsafelli, sem öll voru sómi stéttar sinnar.
Árið 1922
Veturinn var ágætur, svo fáir mundu betri. Snjór kom aldrei að heitið
gæti. Nema hálfsmánaðartíma kringum nýárið. Þá varð haglaust af
áfreða svo illa leit út um tíma. Voru allar skepnur þá teknar á gjöf.
En fyrir þorra var búið að sleppa öllum hrossum og komu þau víða
ekki í hús úr því veturinn út og voru þó í ágætu standi. Sumir voru
öðru hvoru að sleppa fé sínu þennan vetur. Jörð mátti heita klakalaus
allan veturinn. Um páska var sleppt fé að fullu hér og klæddist það
ágætlega af. Um sumarmálin kom einmuna blíða er hélst til 14. maí.
En þann ofanritaða dag rauk hann upp með frosti og byl og var vorið
feikikalt það sem eftir var og allt fram yfir miðjan júlí. Frost voru
flestar nætur í júní og oft í júlí. Kyrkingur kom í þá nál er áður var
komin, og kúm var eigi beitt fyrr en eftir Jónsmessu.
Heyskapartíminn var góður en gras varð lítið, nýting var ágæt
og haustið allt fram yfir jól var dæmafá blíðutíð. Var ristuþítt lengi
jólaföstu. Nokkru fyrir jól kom hæg kæla og hélst hún árið út. Var fé
sumstaðar ekki tekið fyrir nýár.
Í görðum víðast til sveita spratt afarilla. Gulrófur þó mikið ver en
kartöflur. Skepnuhöld voru ágæt og kvillalítið.
innlendar vörur, kjöt og fiskur, féllu mikið í verði frá fyrra ári. Ull
stóð í líku verði og árið áður. Aðfluttar vörur lækkuðu ekki að sama
skapi. Árferðið var mikið fremur erfitt fyrir bændur og enda fleiri.
Útgerðarmenn og stórkaupmenn fóru unnvörpum um koll. Kaupgjöld
lækkuðu að mun. Var því engu betri aðstaða verkamanna.