Borgfirðingabók - 01.12.2008, Blaðsíða 198
198 Borgfirðingabók 2008
Eldglampar og mökkur sást hér mikill kvöldið sem hún gaus, skömmu
fyrir vetur.
Um veturnætur barst spanska veikin hingað til lands. Var hún voða
mannskæð í Reykjavík og suður með sjó. Hér um Borgarfjörð barst
hún lítið. Í Reykjavík dóu úr henni 300, austan fjalls dálítið. Annars
var heilsufar fólks gott þetta ár.
Árið 1919
Tíð var mikið fremur hagstæð frá nýári til einmánaðar. Hagar góðir
en frost talsverð með köflum. Gengu hross úti hér á Gilsbakka.
Vorið var kalt til hvítasunnu, og var fé gefið fram undir lok. Eftir
hvítasunnu kom vætutíð svo erfitt var að þurrka eldivið. Varð hann
víða úti, því ekki gekk greiðara að þurrka um sláttinn. Heyskapur var
rýr um sumarið, því gras var gisið. Valllendi ónýtt af kali frá fyrra
ári. Hey voru sinulítil og því drjúg í gjöf og náðust furðu vel verkuð,
þó rigningasamt væri. Féll þá mikill snjór er aldrei tók upp á heiðum
það haust. Hagar voru þó í byggð í Borgarfirði til 17. desember, en
þá gerði alveg haglaust svo fé var hvergi hleypt út úr því að gagni
árið út.
Í görðum var lítill vöxtur. Frag (þ.e. fræ. innskot ritstj.) kafnaði af
vatni og kartöflur uxu lítið.
Slæmt kvef gekk um vorið, er álitið var angi af inflúensunni
haustið áður. Skepnuhöld voru ágæt þetta ár.
Dýrtíð var sama og áður. Sykur 2,40 kr., af kandís, 1,90 kr. af
strausykri. Kornvara svipuð og árið áður. Ull fyrsta flokks 5,50. Kjöt
fyrsta flokks 3,50. Mór 3 kr.
Árið 1920
Jarðbann það er komið hafði hér 17. desember 1919 ágerðist eftir því
sem lengur stóð. Fé kom þá strax á fulla gjöf, en áttunda og tíunda
janúar voru öll hross hér tekin á gjöf, en dálítið var þó dregið af
fullri gjöf við þau fyrst í stað, eitthvað hálfsmánaðartíma. Eftir það
voru þau á fullri gjöf fram í mars. Snjórinn var orðinn afskaplegur,
svo hér höfðu engir munað slíks dæmi. Það snjóaði af öllum áttum
og bleytti á milli svo bloti kom á snjó ofan. oftast var frost vægt og
veður því sjaldan mjög slæm. 6. febrúar fór ég í Borgarnes; var þá