Veiðimaðurinn - 01.06.2005, Page 31
Margt þarf að ganga upp
Margt bendir til að urriðar fái mjög lítinn hluta
heildarfæðunnar af yfirborði árinnar. Einhver benti mér á
að líklega fengju urriðar um 15% fæðunnar af yfirborðinu.
Púpur og nymfur sem fljóta með straumnum við botninn
eiga því líklega meiri möguleika á að rata í færi við fiskinn
heldur en agnarsmá þurrflugan sem gárar yfirborðið. Við
þetta bætist að sjónsvið fiska er þröngt og keilulaga. Því nær
yfirborðinu sem fiskurinn er því þrengra verður sjónsviðið
og því nákvæmari þarf staðsetning flugunnar að vera til þess
að hann sjái hana. Þrátt fyrir þessa annmarka er flest sem
bendir til þess að hægt sé að lokka fisk til að taka flugu í
yfirborðinu þótt hann vaki ekki - ef hann á annað borð sér
fluguna. Þannig má oft sjá fisk rísa eftir þurrflugu þó að
hann hafi legið á töluverðu dýpi. Þegar allt gengur upp er
þurrfluguveiðin að vissu leyti hátindur fluguveiðinnar. Mér
finnst aðferðin ekki endilega vera hátindurinn vegna þess
að hún hafi eitthvað fram fyrir aðrar aðferðir heldur fyrst og
fremst vegna þess hve krefjandi hún er.
Öfgar fluguveiðinnar
Það skemmtilega við þurrfluguveiðina er að hún dregur
fram í veiðimanninum hans helstu dynti. Til eru svokallaðir
hreinstefnusinnar í Bretlandi og víðar sem vilja ekki kalla
neitt fluguveiði nema veitt sé með þurrflugum sem eru
nákvæmar eftirlíkingar af raunverulegum skordýrum. Mér
hefur því þótt þurrfluguveiðin á vissan hátt vera öfgarnar í
heimi fluguveiðanna. Hvergi eru menn smámunasamari í vali
á flugum, taumum, línum og köstum. Ég verð hins vegar að
viðurkenna að þegar ég ákvað að prófa þurrfluguveiði hafði
ég hreinlega ekki þolinmæði í það nostur sem hún kallar á
ef ætlunin er að fara eftir bókinni. Oftast nær veiði ég með
línu númer 4-5 og kasta púpum andstreymis með 10 punda
taumi. Það er því handhægt að skipta yfir í þurrfluguna með
því að setja grennri taum í framhaldi af þeim 10 punda. Set
ég þá gjarnan 5 til 7 punda taum næst flugunni. Ég nota
engin efni á tauminn sjálfan til að láta hann sökkva en úða
gjarnan silíkoni yfir fluguna sjálfa til þess að hún fljóti lengur
og betur. Stefán heitinn Jónsson segir í bók sinni "Lífsgleði á
tréfæti með byssu og stöng" frá reynslu sinni þegar hann var
að eltast við að fara nákvæmlega eftir ýmsum uppskriftum
að því hvernig átti eða átti ekki að láta þurrflugutauminn
sökkva. Þegar upp var staðið virtist hvorki skipta máli hvort
taumurinn væri grannur eða glær né hvort hann færi undir
yfirborðið eða ekki. Ég hef því ekki verið smámunasamur
hvað þetta varðar og hreinlega ekkert gert nema grenna
tauminn og úða fluguna þegar skipt er úr púpuveiði yfir í
þurrfluguveiði.
Tvennt sem lærist fljótt
Lengi vel hafði ég ekki trú á þurrflugunni nema í logni og
sólskini og ég sæi fisk vaka. Sigurður Gestsson félagi minn
var hins vegar fljótur að sýna fram á að þessi tvö atriði -
veðrið og það hvort hann væri að vaka eða ekki - skipta
litlu máli. Hann hefur nefnilega hvað eftir annað afsannað
þetta með því að setja í fisk á þurrflugu í öllum veðrum og
vindum.
Það virðist ekki skipta máli þótt yfirborðið gárist töluvert.
Eini ókosturinn er sá að erfitt er fyrir veiðimanninn að sjá
fluguna og bregða við fiskinum þegar hann tekur.
Full ástæða er til að reyna þurrfluguna þótt ekki verði vart
við líf í yfirborðinu. Mín reynsla er reyndar sú að ef bleikja
sést vaka er hún nánast dauðadæmd. „Nú verður gaman,“
er oft viðkvæðið ef bleikja sést vaka oftar en einu sinni á
sama stað því miklu þarf að klúðra til þess að hún taki ekki
að lokum. Sjálfstraustið er því vissulega meira ef líf sést í
yfirborðinu.
Stærðin skiptir máli
Það er einn af torráðnustu leyndardómum fluguveiðinnar
- og þar af leiðandi lífsins - hvers vegna sumar þurrflugur
virka betur en aðrar. Vonandi verður þeirri spurningu aldrei
svarað því þessi leyndardómur gerir aðferðina jafn spennandi
og hún er. Ekki ætla ég að fara í saumana á flugutegundum
heldur læt nægja að nefna að líklega er aldrei meiri ástæða
til að reyna margar tegundir eins og í þurrfluguveiði. Það
Komiö á veiöistað. Dœmigerð þurrfluga,
hármikil sem tryggir gottflot. Flugulínan er glœr.