FLE blaðið - 01.01.2019, Qupperneq 26
26 FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2019
ÍSLAND – HVAÐ VAR SAGT UM ENDURSKOÐENDUR
Á ÍSLANDI?
Á Íslandi var sett á stofn Rannsóknarnefnd Alþingis til að fara
yfir aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og
tengda atburði. Þessi viðbrögð voru einstök í allri Evrópu en
voru nauðsynleg fyrir okkur Íslendinga til að skilja hvað gerðist.
Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis er einn kafli þar sem
fjallað er um endurskoðendur og störf þeirra, einkum er
varðar endurskoðun á reikningsskilum fjármálafyrirtækjanna í
aðdraganda hrunsins. Þar setur nefndin fram gagnrýni sína um
störf endurskoðenda og skyldur þeirra og leggur til að störf
endurskoðenda séu skoðuð. Þingmannanefnd sem var skipuð
til að fjalla um skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis tók gagn-
rýni Rannsóknarnefndarinnar upp í sínu áliti og lagði einnig til
að farið yrði í ítarlega úttekt á störfum ytri endurskoðenda fram
að hruni bankanna.
En við sem vinnum við endurskoðun,
finnum vel fyrir þessum breytingum
og auknu kröfum sem orðið hafa í
störfum okkar á síðustu tíu árum
ENDURSKOÐUN
BREYTINGAR OG UMBÆTUR Í KJÖLFAR HRUNSINS
Herbert Baldursson og Íris Ólafsdóttir, endurskoðendur hjá PwC
HRUNIÐ – þetta voðalega orð, sem merkir bara eitt – hrun stóru bankanna í október 2008 og skelfilegar afleiðingar þess á íslenska
þjóðarsál og efnahagslíf. Nú, þegar tíu ár eru liðin frá þessum atburði er viðeigandi að líta til baka og skoða hvort og þá hvaða áhrif
hrunið hefur haft á umhverfi og störf endurskoðenda. Hér er ekki ætlunin að vega og meta störf endurskoðenda í hruninu. Sá þáttur
er auðvitað ekki hafinn yfir gagnrýni, en hann hefur verið skoðaður af Rannsóknarnefnd Alþingis og kannski öðrum. Hér ætlum við að
fara stuttlega yfir hvað hefur breyst hjá okkur endurskoðendum í kjölfar hrunsins. Hvað sögðu og gerðu eftirlitsaðilar og reglusetningar-
valdið og hverju breyttu þau yfirvöld í okkar starfsumhverfi.
Það var ekki bara á Íslandi sem það varð hrun. Í Evrópusambandinu varð til dæmis það sem nefnt er „The CRISIS“, eða fjármálakrepp-
an. Í þessari grein ætlum við einnig að skoða hvaða áhrif fjármálakreppan hafði á endurskoðun og endurskoðendur í ESB, því það er jú
þannig að allt sem gerist innan ESB mun á endanum skila sér til Íslands og breyta lífi okkar.
Óhætt er að segja að í eftirmála hrunsins var athyglin á endurskoðendur í raun tiltölulega lítil, bæði hér heima sem og innan ESB. Fyrst
og fremst var einblínt á fjármálakerfið og hvernig mætti gera umbætur á því. Þá erum við að tala um reglusetningarvaldið og eftirlitsað-
ila. Álit almennings á endurskoðendum, eins og fleirum, beið hins vegar hnekki.