FLE blaðið - 01.01.2021, Blaðsíða 18

FLE blaðið - 01.01.2021, Blaðsíða 18
18 FLE BLAÐIÐ JANÚAR 2021 Meta ber gangvirði eigna og skulda með því að nota matsað- ferðir og forsendur sem eru viðeigandi á hverjum tíma. Óvissa um framtíðarsjóðstreymi vegna COVID-19 getur gert það að verkum að skipta ætti um matsaðferð og/eða gera talsverðar breytingar á eigin forsendum til að gangvirðismatið endurspegli óvissu og áhættuálag markaðarins á matsdegi. Þetta getur leitt til þess að gangvirðismat flokkast í meira mæli í þriðja stig gangvirðismats, með umfangsmeiri kröfum um upplýsingagjöf í ársreikningum. Miðað við þá auknu óvissu og aukið vægi eigin forsenda í gangvirðismati má fastlega búast við því að upplýsingagjöf vegna gangvirðismats skipti enn meira máli við gerð ársreikn- inga fyrir árið 2020 en á fyrri árum. Hafa ber í huga að mark- miðið með upplýsingagjöfinni er að í ársreikningum séu birtar upplýsingar sem gera notendum kleift að leggja mat á aðferðir og forsendur sem voru notaðar við gangvirðismatið sem og áhrif þeirra á fjárhagsstöðu og afkomu. ÁHRIF Á VIRÐISRÝRNUN EIGNA Vegna COVID-19 geta margvíslegar vísbendingar verið til stað- ar um að virði eigna hafi rýrnað. Því eru talsverðar líkur á því að framkvæma þurfi virðisrýrnunarpróf við gerð ársreikninga fyrir árið 2020. Vanda þarf til verka því erfitt getur reynst að meta framtíðarsjóðstreymi og ávöxtunarkröfu vegna mikillar óvissu. Meta þarf hvort ástæða sé til að breyta um nálgun við mat á framtíðarsjóðstreymi, úr hefðbundinni aðferð, þar sem not- ast er við líklegustu sviðsmynd um framtíðarsjóðstreymi og ávöxtunarkröfu sem er leiðrétt vegna óvissu í sjóðstreyminu, en nota þess í stað aðferð vænts sjóðstreymis, þar sem tekið er tillit til óvissu um framtíðarsjóðstreymi með því að nota fleiri líkindavegnar sviðsmyndir um framtíðarsjóðstreymi í stað þess að leiðrétta ávöxtunarkröfuna vegna hennar. Í þeim tilvikum þegar virðisrýrnunarpróf skipta máli fyrir not- endur ársreikninga þarf að birta viðeigandi og fullnægjandi upp- lýsingar um framkvæmd virðisrýrnunarprófa, þ.m.t. um aðferð- ir, forsendur og næmi prófanna fyrir breytingum á forsendum. UPPLÝSINGAGJÖF Í SKÝRSLU STJÓRNAR Um skýrslu stjórnar er fjallað í VI. kafla ársreikningalaga. Ríkari kröfur eru gerðar um upplýsingagjöf stærri félaga en þeirra smærri og enn ríkari kröfur til félaga sem flokkast sem einingar tengdar almannahagsmunum sem alltaf teljast til stórra félaga. Í ársreikningum allra félaga þurfa skilyrði 65. gr. laganna að vera uppfyllt. Samkvæmt þeirri grein ber félögum meðal annars að gera grein fyrir þróun í starfsemi sinni og fjárhagsstöðu, atrið- um sem mikilvæg eru við mat á fjárhagslegri stöðu félagsins og afkomu þess á reikningsárinu og ekki koma fram í efnahags- reikningi eða rekstrarreikningi eða skýringum með þeim sem og mögulegri óvissu við mat eða óvenjulegar aðstæður sem kunna að hafa áhrif á félagið. Eftir því sem við á skal tilgreina fjárhæðir. Þá segir í sömu grein að leiki vafi á rekstrarhæfi skuli gera grein fyrir því í skýrslu stjórnar. Samkvæmt 66. gr. laganna þurfa meðalstór félög, stór félög og einingar tengdar almannahagsmunum að veita ýmsar við- bótarupplýsingar um árangur, áhættu og óvissuþætti. Þannig segir að til viðbótar þeim upplýsingum sem krafist er skv. 65. gr. skuli skýrsla stjórnar þeirra félaga sem hér um ræðir veita glöggt yfirlit yfir árangur í rekstri félagsins, stöðu þess og þróun ásamt lýsingu á megináhættu og óvissuþáttum sem það stendur frammi fyrir. Þá skal skýrsla stjórnar, eftir því sem við á, hafa að geyma tilvísanir til fjárhæða sem settar eru fram í ársreikningi og frekari skýringar á þeim. Eftir því sem við á skal jafnframt fjalla um ýmis önnur atriði sem talin eru upp í greininni. Eitt þeirra er að greina frá áhrifum ytra umhverfis á félagið og ráðstafanir sem hindra, draga úr eða bæta tjón sem félagið verður fyrir. ÁHERSLUATRIÐI Í EFTIRLITI ÁRSREIKNINGASKRÁR Við eftirlit með ársreikningum fyrir árið 2020 mun ársreikninga- skrá leggja áherslu á að skoða hvort í ársreikningum sé með fullnægjandi hætti gerð grein fyrir því hvaða áhrif heimsfar- aldurinn hefur haft á reikningsskil félaga, þ.m.t. upplýsingagjöf í skýrslu stjórnar. Þetta á við hvort heldur sem ársreikningar eru gerðir samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða lögum um ársreikninga. Ársreikningskrá hefur bent á að stjórnendur félaga bera ábyrgð á því að reikningsskilin innihaldi fullnægjandi upplýsingar vegna áhrifa COVID-19 á rekstur, stöðu og sjóðstreymi viðkomandi félags. Jafnframt hefur ársreikningaskrá bent á að vegna þess ástands sem hefur myndast vegna áhrifa af COVID-19 faraldr- inum á efnahagslífið sé ljóst að mikil óvissa ríki um áhrif á afkomu, fjárhagsstöðu og sjóðstreymi einstakra félaga og að gagnsæi í upplýsingagjöf sé lykilatriði í að auka traust fjárfesta, lánardrottna og annarra haghafa á þeim upplýsingum sem birt- ar eru í reikningsskilum. Við eftirlit með ársreikningum félaga sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum mun ársreikningaskrá jafnframt fara eftir áhersluatriðum í eftirliti sem Verðbréfaeftirlit Evrópu (ESMA) gaf út í október 2020. Í 14 blaðsíðna tilkynningu ESMA er COVID-19 nefnt 34 sinnum svo ljóst er að ESMA, og þar með ársreikningaskrá á Íslandi, leggur ríka áherslu á að áhrif faraldursins komi skýrt fram í ársreikningum félaga sem beita alþjóðlegu reikningsskilastöðlunum. Meðal þess sem ESMA bendir á er að áhrif faraldursins kunni að koma fram við beitingu IAS 1 Framsetning reikningsskila, IAS 36 Virðisrýrnun eigna, IFRS 9 Fjármálagerningar, IFRS 7 Fjármálagerningar: upplýsingagjöf og IFRS 16 Leigusamningar. NIÐURLAG Eins og hér hefur verið reifað getur COVID-19 heimsfaraldurinn haft margvísleg áhrif á ársreikninga fyrir árið 2020. Það er því að ýmsu að hyggja og nauðsynlegt að greina áhrifin tímanlega og vanda til verka til að tryggja að ársreikningar uppfylli allar kröfur sem til þeirra eru gerðar. Jóhann I. C. Solomon og Unnar Friðrik Pálsson

x

FLE blaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: FLE blaðið
https://timarit.is/publication/1259

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.