Harmonikublaðið - 15.12.2020, Side 10
Að sjá við Covid
Nú þegar heimsfaraldur hefúr geysað í níu
mánuði og ferðalög og samkomuhald allt
meira eða minna lamað eru margir að leita
leiða til að koma til móts við ástandið og
reyna að gera gott úr því.
Austur á Egilsstöðum býr maður að nafni
Broddi B. Bjarnason, sem starfað hefur lengi
sem pípulagningameistari á svæðinu. En hann
er ekki allur þar sem hann er séður. Hann
hefur líka gaman af að syngja og skömmu eftir
aldamótin fór hann að leggja leið sína á
Hjúkrunarheimilið Dyngju á Egilsstöðum til
að syngja fyrir vistfólkið, sem þar eins og víða
Broddi B. Bjarnason
á heldur tilbreytingarlitla vist, þó starfsfólk
leggi sig allt fram við að stytta því stundir.
Honum til halds og trausts var Kristmann
Jónsson harmonikuleikari, sem sá um
undirleikinn. Þeir félagar komu í heimsókn
vikulega og skemmtu fólki. Einnig söng Sóley
Guðmundsdóttir kona Brodda oft með þeim
félögum. Þar kom að Kristmann eltist og varð
sjálfur heimilismaður á Dyngju, þá tók Jón
Sigfússon við undirleiknum ásamt Kristmanni.
Síðastliðinn vetur varð heldur betur breyting
á þessu, því yfir skall covid 19 faraldurinn.
Hann hefur nú á stuttum tíma lagt í rúst alls
kyns dægrastyttingu, sem tíðkast hefur um
land allt, þar með talið það að spila og syngja
fyrir eldri borgara landsins. A fáum hefur þetta
þó bitnað verr en þeim sem bundnir eru
hjúkrunarheimilum, heimsóknir jafnvel
bannaðar mánuðum saman og allt líf þessa
fólks lagt í dróma.
Ekki var Broddi sáttur við þessa stöðu, braut
heilann um hvað hægt væri að gera í staðinn
og í samráði við Jónas Þór Jóhannsson
harmonikuleikara duttu þeir niður á
snilldarhugmynd.
Því ekki að taka upp tónlist og leyfa fólkinu
að njóta, þó heimsóknir væru bannaðar? Hann
fékk í lið með sér nokkra gamalreynda
tónlistarmenn á Héraði, til að taka þátt í
fjörinu. I næsta nágrenni Egilsstaða er
hljóðverið Tókatækni, sem tekið hefur upp
ýmislegt efni á síðustu árum, þar á meðal fyrir
sjónvarpsstöðina N4. Þeir voru tilbúnir að
taka upp mynd og hljóð. Síðan var sett í gang.
I vor voru tekin upp yfir 72 lög og í haust hafa
yfir hundrað lög farið inn á USB lykla, þar af
fjöldinn allur af jólalögum sem tekin voru upp
í lokin. Þeir sem tekið hafa þátt í þessu með
Brodda og Jónasi Þór eru Hreinn Halldórsson
harmonika, Ragnar Þorsteinsson trommur og
Stefán Bragason á gítar. Auk Brodda hafa
sungið þau Sóley Guðmundsdóttir, Einar Rafn
Haraldsson og Freyja Kristjánsdóttir.
Því næst var USB lyklum dreift á hjúkrunar-
heimilin á Vopnafirði, Seyðisfirði, Eskifirði
og Fáskrúðsfirði og nú geta þeir sem aðstæður
hafa til, fengið lyklana lánað og notið
skemmtunar í eigin sjónvarpstækjum inni á
herbergjum. Til að setja punktinn yfir iið var
svo fenginn prestur til að flytja hugvekju í
upphafi jólalaganna. Þessu hefur að sjálfsögðu
verið vel tekið en þeir félagar fengið mikið
þakklæti fýrir, en verða að bíða með að fá
knúsið frá aðdáendum þar til veiran hefur
verið lögð að velli.
Þá má geta þess að í mörg undanfarin ár hefur
Broddi farið á hjúkrunarheimið á Seyðisfirði
og sungið þar ásamt eiginkonunni Sóleyju og
oft hafa Einar og Freyja verið með. I þessum
ferðum hafa harmonikuleikarar verið ýmist
Kristmann eða Jónas Þór.
Frá árinu 2000 hefur Rótarýklúbbur
Héraðsbúa haft þann sið við hátíðahöld á
Héraði á 17. júní að veita einstaklingi, félagi
eða fyrirtæki viðurkenningu fyrir framúr-
skarandi afrek, þjónustu eða frumkvæði í
einhverri mynd á starfssvæði klúbbsins.
Að þessu sinni var hátíðahöldum á Héraði
aflýst, en viðurkenningin þess í stað afhent
við messu á þjóðhátíðardaginn í
Egilsstaðakirkju. Hana hlaut Broddi fyrir
menningarstarf á sviði tónlistar og
samfélagsþjónustu við eldri borgara og fatlaða.
Eins og komið hefur fram voru þarna í
hópnum félagar úr Harmonikufélagi
Héraðsbúa. Nokkrir aðrir félagar stukku á
hugmyndina og ákváðu að taka upp eitthvað
af þeirri danstónlist sem þeir hafa boðið uppá
í gegnum tíðina. Þeir fengu því Tókatækni til
að taka upp meira í sama dúr og léku inn einn
klukkutíma af tónlist sem þeir hafa boðið
dansunnendum síðustu áratugina. Þar voru
Jón Sigfússon og Gylfi Björnsson á harmo-
nikur, en auk þeirra var Jónas Þór á hljóm-
borðinu og Ragnar Þorsteinsson á trommur.
Þetta framtak Héraðsbúanna er svo sannarlega
til eftirbreytni og eiga þeir mikið hrós skilið
fyrir. Þetta mun án efa geta nýst vel þegar
næsta farsótt vitjar okkar.
Friðjón
Jónas Þór, Jón, Ragnar og Gylfi við upptökur í Tókatœkni
Skoðið timarit.is og flettið harmonikublöðum frá 1986
10