Tölvuheimur - 01.08.2003, Page 34
F R U M K V Ö Ð L A R
Michael Dell stofnaði tölvufyrirtækið Dell
Computers Corporation inni á herbergi sínu á
heimavist háskólans í Austin í Texas og beitti
heldur en ekki óhefðbundnum söluaðferðum.
Fyrirtækið er fyrir margt löngu orðið eitt af virtustu
og stærstu fyrirtækjum tölvugeirans og er nú litið á
Michael Dell sem undrabarn á sviði viðskipta.
BERNSKUBREK
Það má með réttu telja stofnun tölvurisans Dell
Computers til bernskubreka. Stofnandi þess,
Michael Dell, fæddist 23. febrúar árið 1965 í
Houston í Texas í BNA og varð því 38 ára fyrr á
þessu ári. Hann þótti heimakær í æsku og forvit-
inn í meira lagi. Hann hafði mikinn áhuga á
tæknilegum málum, sérstaklega líffræði og tölvum
og gekk honum að sögn ágætlega í skóla þótt
tæpast hafi hann talist til undrabarna. Að loknum
menntaskóla ákvað Dell, þá tæplega nítján ára, að
halda áfram á þeirri braut sem áhugamálin höfðu
leitt hann og hóf hann nám í læknisfræði við
háskólann í Austin í Texas þar sem hann hugðist
eyða næstu árum ofan í bókum og við plástrun
sjúklinga að útskrift lokinni. En hin oft svo ófyrir-
sjáanlega framtíð bar annað og meira í skauti sér.
SLEPPTI MILLILIÐUM
Þetta var árið 1983 og einkatölvur voru að ryðja
sér til rúms. En þetta voru fremur litlar tölvur og
þóttu feikidýrar. Michael Dell var þá tæplega
nítján ára og bjó á heimavist háskólans. Þegar
sambýlingar hans komu inn á herbergið hans í
síauknum mæli og tóku að jesúsa sig í hvívetna
yfir þeim gríðarlega kostnaði sem fólst í kaupum á
tölvum vegna námsins fékk Dell hugmynd sem
átti heldur en ekki eftir að draga dilk á eftir sér.
Áhugi hans á tölvum hafði nefnilega gert það að
verkum að hann þekkti bransann orðið eins og
lófann á sér: hann vissi hvar ódýrir en góðir
örgjörvar fengust á góðu verði og þar fram eftir
götunum. En umfram allt, þá vissi hann hvernig
setja átti saman tölvu úr einstaka íhlutum! Hann
bauðst því til að útvega sambýlingum sínum
ódýrar en góðar tölvur fyrir ákveðið verð. Og að
svo mæltu fór hann í verslunarleiðangur, keypti
það sem þurfti til og setti tölvurnar saman eftir
óskalista nemendanna. Þær reyndust töluvert
undir kostnaðarverði og sá Dell í hendi sér að
með því að sleppa öllum milliliðum, það er
umboðsmönnum, söluaðilum og öðrum þeim
sem taka prósentur fyrir sölu á hverri einstakri
tölvu mætti spara umtalsverð fjárútlát.
LAGÐI NÁMIÐ Á HILLUNA
Þetta var að sönnu byltingarkennd hugmynd og
ákvað hinn ungi Michael að leggja námið á
hilluna og einbeita sér framvegis að því að selja
fyrirfram pantaðar tölvur milliliðalaust til neyt-
enda. Taldi hann heillavænlegast að stofna fyrir-
tæki í kringum þennan rekstur sinn, sem var
mjög smátt í sniðum þar sem aðalskrifstofan var
herbergi á heimavist, en hann sá þó fram á aukin
viðskipti þar sem fyrstu kaupendurnir voru
almennt svo ánægðir með kaupin að þeir dreifðu
orðspori hans víða. Þetta reyndist hin besta aug-
lýsing og þurfti Dell því ekki að hafa miklar
áhyggjur af stofnkostnaðinum, þeim 1.000
dollurum (tæpum 80.000 ísl. krónum) sem hann
var fljótur að safna sér. Hann fluttist því af heima-
vistinni og tók íbúð á leigu úti í bæ.
STOFNAÐI FYRIRTÆKIÐ ÁRIÐ 1984
Dell stofnaði fyrirtæki sitt, Dell Computers
Corporation árið 1984. En upphaflega hug-
myndin breyttist ekkert þótt Dell hefði nú flust
með skrifstofu fyrirtækisins út fyrir veggi háskóla-
samfélagsins og út í hinn harða heim viðskipt-
anna. Kaupendur héldu áfram að panta ákveðna
samsetningu á tölvum hjá fyrirtækinu, sem leitaði
eftir bestu getu að ódýrri gæðavöru beint frá
framleiðendum og seldi áfram til kaupenda án
nokkurra milliliða. Betra gat það ekki orðið.
Einkatölvur tóku að lækka hratt í verði og urðu
brátt ómissandi þáttur í daglegu lífi fólks.
Þetta er fyrri hlutinn af tveimur um ævi
og störf frumkvöðulsins Michael Dell,
en seinni hlutinn verður í næsta tölublaði
Tölvuheims sem kemur út í september.
Jón Aðalsteinn Bergsveinsson
www.heimur.is34 Ágúst Tölvuheimur 2003
FRUMKVÖÐULLINN MICHAEL DELL, FYRRI HLUTI:
Undrabarn á sviði viðskipta