Þingtíðindi Alþýðuflokksins - 16.11.1984, Page 29
Fundur hélt áfram að loknu hádegisverðarhléi kl. rúml.
tvö.
Hörður Zóphaníasson var fyrstur á mælendaskrá og hvatti
þingheim til að reyna að taka á hverjum vanda af einurð, þó
á móti blési. Sagði að flokksmönnum riði á að standa saman
sem ein órofa heild, því óeining hefði veikt flokkinn meira en
fólk gerði sér grein fyrir.
Bjarni P. Magnússon leiðrétti túlkun á ummælum sínum
varðandi kostnað og útbreiðsluherferð Alþýðublaðsins.
Baldvin Jónsson kynnti tillögu um nefndarskipan vegna
ákvæða samþykktar flokksins um prófkjör.
Einnig kynnti hann tillögu um athugun á nýtingu nýjustu
fjölmiðlatækni í þágu Alþýðuflokksins.
Vegna tillögu SUJ um að þingið skuli fordæma samninga-
gerð stjórnar Landsvirkjunar við Alusuisse, gaf Baldvin
nokkra skýringu á samningagerðinni, enda á hann sæti í
stjórn Landsvirkjunar.
Marías B. Guðmundsson mótmælti þeirri samlíkingu að
gagnrýni á stjórn flokksins líktist á einhvern hátt galdra-
brennum.
Haukur Helgason sagði að við þyrftum ekkert að afsaka
smæð okkar. Góður málstaður er alltaf jafn góður, hvort sem
margir eða fáir fylgja honum.
Barátta okkar fyrir jafnrétti hefur aldrei verið mikilvægari
en í dag, t.d. í nýafstöðnum bardaga fyrir kjarabótum áttum
við fjölmennt lið.
Árni Hjörleifsson:
Flutningur fjármagns í skjóli myntbreytingar er einhver
mesti þjófnaður sem fram hefur farið.
Talaði um að kosning um æðstu valdastöðu í flokknum sé
afar eðlileg í lýðræðislegum flokki.
Málflutningur okkar er oft reikull og verður að bæta það,
þar sem við eigum svo mörg góð mál sem við vinnum að.
Vill engin „fleðulæti“ við Alþýðubandalag og Bandalag
jafnaðarmanna.
27