Mímir - 01.03.1968, Qupperneq 27

Mímir - 01.03.1968, Qupperneq 27
firði frá öskufallinu, sem að öðrum kosti hefði vart getað sloppið við það. Talið er, að meiri og minni aska hafi fallið á öllu svæðinu milli Smjörvatnsheiðar og Berufjarðarskarðs, sem síðan myndaði geira einn mikinn inn að elds- upptökunum í Oskju. Hin fíngerðari aska barst síðan í loftinu á haf út og byrjaði að falla í Ona á vesturströnd Noregs að kveldi hins 29. marz, og kl. 10 næsta morgun hefur hún náð alla leið til Stokkhólms. Lengra austur er ekki vitað um, að aska úr Öskjugosinu árið 1875 hafi borizt, en sagnir eru um, að hennar hafi orðið vart í nágrenni Stettinborgar í Þýzkalandi. Aska sú, sem myndaðist við öskufall þetta, var nær eingöngu líparítaska, að undanskilinni þeirri, sem féll á Efra-Dal aðfaranótt hins 29. marz, en það var hvítgrá og fíngerð basaltaska. Askan, sem féll í aðalgosinu, var hins vegar ein- göngu líparítvikuraska, dökkgrá að lit, og voru vikurkornin mjög mismunandi stór eftir því, hversu langt þau féllu frá gosstöðvunum. Lang- stærstir urðu vikurmolarnir inni á öræfunum suður af Herðubreið og þar í grenndinni. Þar voru þeir flestir hnefastórir, en alls staðar inn- an um vikursteinar á stærð við mannshöfuð og þaðan af stærri. I byggð á Efra-Jökuldal voru stær tu stykkin allt að helmingi stærri en mannshnefi, annars allmiklu smærri, þ. e. mal- arkennd. I Þingmúla og annars staðar á Upp- Héraði víðast hvar á stærð við kaffibaun og smærri. Niðri í Fjörðum, á Ut-Héraði og víðar var hún enn fínni, sums staðar aðeins sem dust eða ryk. Askan, sem féll í Skandinavíu, var og mjög fíngerð, líkust leir.4 Hér að framan hefur verið lýst nokkuð þeim atburðum, sem urðu á páskunum árið 1875. Er þá næst að taka til nánari athugunar þær hörmulegu og afdrifaríku afleiðingar, sem gos þetta hafði á byggðir Austurlands, beinar og óbeinar. 2. EYÐING EINSTAKRA BYGGÐARLAGA A. Jökuldalur Ef litið er á Islandskortið, má sjá, að Jökuldal- ur er einn af lengstu dölum þessa lands. Óvíða á landi hér mun byggð vera svo langt frá sjó sem á innstu bæjum í Hrafnkelsdal, sem skerst suð-austur úr Jökuldal innarlega. Yfir þennan blómlega og gróðursæla dal helltist nú askan í Oskjugosinu mikla 1875. Venja er að skipta Jökuldal í tvennt vegna hinnar miklu lengdar dalsins, enda telst hann vera tvær kirkjusóknir. Nefna menn hann Efra- dal eða Upp-dal innan til og Ut-dal utan til. Eru mörkin vanalegast talin vera við svonefnda Gilsá, sem fellur ofan af heiðarbrúninni og í Jökulsá nálægt því í dalnum miðjum, skammt frá bænum Skjöldólfsstöðum. Þjóðvegurinn yfir Möðrudalsöræfi liggur upp úr Jökuldal með fram á þessari, og skiptir hann einnig byggð Jökuldalsheiðarinnar í Suður- og Norðurheiði. Helzt þessi skipting enn í dag, enda þótt ekki sé lengur um að ræða neina byggð í heiðinni. Svo einkennilega vildi til, að á svæðinu fyrir innan Gilsá varð öskufallið langmest í byggð, enda er þaðan skemmst leið til eldstöðvanna í Öskju. Segja má, að skipti verði allveruleg um fyrrnefnda á, því að innan við hana fóru allir bæir í eyði fyrsta árið, þar með talin öll Suður- heiðin, en utar á dalnum enginn eða í Norður- heiðinni. Á Efra-Jökuldal og í Suðurheiðinni varð öskulagið 6—8 þumlungar jafnfallið, eða um það bil 20 sm á þykkt. Vikurmolarnir voru allt að því hnefastórir og glóðheitir, þegar þeir komu niður. Þetta hafði vitanlega í för með sér alger jarðbönn og eyðileggingu jarð- anna fyrst í stað. Var því ekki annars kostur en reka allan búpening í þær sveitir, er sloppið höfðu við öskufallið. Flestir bændur Efra-Dals tóku það ráð að reka fénað sinn til Vopnafjarð- ar, enda var þangað stytzt að fara, og engin aska hafði fallið þar norður frá. Fyrst í stað var flúið með allt kvikt, fólk og fénað, af öllum jörðum fyrir innan Gilsá (nema Aðalbóli í Hrafnkelsdal), og eru þær taldar vera ellefu talsins, auk heiðarbýlanna. Hafa það að öllum líkindum verið eftirtaldar jarðir: 1) Arnórsstaðir 2) Hákonarstaðir 27

x

Mímir

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Mímir
https://timarit.is/publication/1937

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.