Tímarit lögfræðinga - 01.08.2024, Page 29
175
Andri Fannar Bergþórsson
Í fjórða lagi þarf að taka afstöðu til þess hvort krafan um
aðgengi allra á markaði feli það í sér að hver sem er á markaði
með litla sem enga þekkingu á verðbréfamarkaðinum þurfi
að skilja upplýsingarnar til að þær teljist opinberar í skilningi
7. gr. MAR eða hvort það sé nóg að aðili með þekkingu eða
reynslu á verðbréfamarkaði yfir meðallagi skilji upplýsingarnar.
Til að stuðla að samkeppni á verðbréfamarkaði og skilvirkni í
verðmyndun verður að telja nauðsynlegt að miða við fjárfesti með
þekkingu eða reynslu yfir meðallagi á markaðinum, sem mætti
nefna skynsaman fagfjárfesti eða á ensku „reasonable professional
investor“.71 Hvati þarf að vera til staðar fyrir fjármálagreinendur
og aðra á markaði að greina opinberar upplýsingar og græða
þannig á sinni vinnu, enda leiðir það til þess að verðmyndun á
markaði verði skilvirkari.72
Fjárfestar eiga því möguleika á að hagnast með því að
vera „betri en markaðurinn“ með því að greina og lesa saman
opinberar upplýsingar sem eru ekki alþekktar á markaði þótt
þær séu vissulega opinberar.73 MAR gerir einmitt ráð fyrir þessu
í 28. forsendu reglugerðarinnar. Þar segir að „[r]annsóknir og
áætlanir sem byggjast á gögnum sem eru öllum aðgengileg
ættu, einar og sér, ekki að teljast innherjaupplýsingar og það að
viðskipti fari fram á grundvelli slíkra rannsókna eða áætlana
ætti því ekki teljast notkun innherjaupplýsinga.“74
71 Ronald J. Gilson og Reinier H. Kraakman: „The Mechanisms of Market
Efficiency“. Virginia Law Review 1984, 549644 (571).
72 Sjá t.d. umfjöllun hjá Jesper Lau Hansen: Værdipapirhandelsloven med
kommentarer. Bind II., op.cit., 389.
73 Sjá Mario HösslNeumann og Ulrich Torggler, op.cit., 6263.
74 Í 2. og 3. málsl. 28. forsendu MAR er síðan tekið fram orðrétt: „Þó geta
slíkar upplýsingar talist vera innherjaupplýsingar t.d. ef markaðurinn
væntir reglulegrar birtingar eða dreifingar upplýsinga og ef slík birting
eða dreifing á þátt í verðmyndun fjármálagerninga eða ef upplýsingarnar
fela í sér álit viðurkennds markaðslýsanda eða stofnunar sem getur haft
áhrif á verð á tengdum fjármálagerningum. Markaðsaðilar skulu því taka
til athugunar að hvaða marki upplýsingarnar eru óopinberar og möguleg
áhrif þeirra á fjármálagerninga, sem viðskipti eru með fyrir birtingu
þeirra eða dreifingu, til að ákvarða hvort þeir væru að eiga viðskipti á
grundvelli innherjaupplýsinga.“