Tímarit lögfræðinga - 01.08.2024, Page 114
260
Frávik og skýringar á tilboðum
hafi þeim verið heimilað að breyta hönnun götunnar. Það kom
og fram hjá vitninu Tryggva Jónssyni, sem skoða verður sem
starfsmann stefnanda við hönnunina, að hann gerði sér grein
fyrir því að hann væri að breyta hönnun götunnar. Ekki kemur
fram í útboðslýsingu að óskað sé frávikstilboða og stefnandi lýsti
tilboði sínu ekki sem slíku.
Síðastgreind mál varða nokkuð skýr frávik frá tæknilegum
kröfum útboðsgagna þar sem bjóðendur leggja fram aðra lausn
en fyrirskrifuð er í útboðsgögnum eða reyna að endurskilgreina
þarfir kaupandans. Að mati höfundar er það því eðlileg
niðurstaða að tilboðin séu metin ógild vegna þeirra frávika frá
útboðsgögnum sem var í þeim að finna. Frávik í tilboðum geta
þó verið annars eðlis og ekki vikið með eins skýrum hætti frá
kröfum útboðsgagna.
Kærunefnd útboðsmála hefur litið svo á að í tilboðum geti
falist óheimil frávik þegar settir hafa verið fyrirvarar eða skilyrði
við tilboð, sérstaklega hvað varðar verðbreytingar, hvort sem um
er að ræða gengisbreytingar eða verðhækkanir hjá birgjum, sem
ekki er gert ráð fyrir í útboðsgögnum. Um þetta segir eftirfarandi
í úrskurði kærunefndar útboðsmála í máli nr. 7/2020:
Af útboðsgögnum verður ráðið að bjóðendum í hinu kærða útboði
hafi verið ætlað að meta umfang verkefnisins og gera fast verðtilboð
sem næði yfir allan kostnað og gjöld vegna þjónustunnar. Ekki
er gert ráð fyrir breytingum á tilboðsfjárhæð nema ef nánar
tilgreindar gengisbreytingar verða á samningstímanum og er
það jafnframt háð samkomulagi aðila þar um, sbr. grein 1.4 í
útboðsgögnum. Jafnvel þó vísað hafi verið til fastrar fjárhæðar
á tilboðsblaði kæranda þá kemur fram í tilboði hans að um sé
að ræða kostnaðarmat (e. fee estimate) sem sé byggt á tilteknum
forsendum (e. assumptions). Þá kom fram að kostnaðarmat væri
háð ákveðnum lykilbreytum (e. key variables), það er hversu
ítarlega þyrfti að vinna verkefnið, hvernig aðgengi að gögnum
og stjórnendum yrði háttað og gæðum gagna. Þá kom fram að
ef umfang verkefnisins myndi aukast eða ef tímaáætlun yrði
framlengd kæmi til endurskoðunar þóknunar með samþykki
kaupanda. Nánara umfang væri háð samningaviðræðum og gerð
skriflegs samnings. Með hliðsjón af þessu verður að miða við að