Ársrit Skógræktarfélags Íslands - 15.12.1955, Page 25
23
skóginn eða lifað eftir Skaptáreldana. Löndin voru þá víða
alþakin trjám og viði, sprekuðum og fúnum. Var sums
staðar að líta yfir ása og hlíðar eins og á ísmöl sæi, þar
sem sólin skein á þessa barklausu hvítu fnjóska. Menn
kepptust við að aka sprekunum heim til eldiviðar, en
meiri hluti þeirra fúnaði þó ofan í jörðina, en allvíða
entust þau þó til eldiviðar fram um 1830, og sums staðar
voru þau til nokkurra nota fram um 1850. Smáviðurinn,
sem tórði af Skaptáreldana, og sá, sem spratt þar á eftir,
varð að nokkrum notum, en honum var mjög hætt, vegna
þess að nú hlífði stórskógurinn honum ekki lengur. Nú
lenti öll beit, kolagerð og trjáviðar- og eldiviðartak á
honum.
Síðan getur séra Sigurður þess, að þegar hann kom á
Austurland um 1830, hafi enn verið töluverður skógur á
Héraði til nokkurra nota. Nefnir hann Eiðaskóg, Mið-
húsaskóg, Dalaskóg, Egilsstaðaskóg, Höfðaskóg, Sandfells-
og Sauðhagaskóg, Mjóaness-, Hafursár- og Hallorms-
staðarskóg, Ranaskóg í Fljótsdal, Hreiðarstaðaskóg í
Fellum og Hofsskóg í Álftafirði. Segir hann, að skóg-
ar þessir hafi verið smáir, 3—5 álnir á hæð hinar
stærstu hríslur á efstu limar. Afturför og fall var í flest-
um þeirra, enda var þá hlífðarlaust gengið á þá til kola,
eldiviðar, tróðs og raftviðar. Á felliárum skóganna hnign-
aði grávíði og rauðvíði. Var sem öllum löndum hnignaði,
með því að mörg þeirra tók að blása upp og hlupu og gróf-
ust sundur af vatni, þegar viðarræturnar bundu ei leng-
ur jarðveginn.
Fegurstu skógarnir, sem séra Sigurður sá, er hann
kom austur, voru Gatnaskógur í Hallormsstaðar landi og
Ranaskógur í Fljótsdal. Þeir höfðu byrjað að vaxa upp
aftur eftir Skaptáreldana, þegar fátt var um fénað til að
stýfa nýgræðinginn, og voru orðnir allt að tveim álnum
um aldamótin 1800. En þá hafði fénaði fjölgað mjög og
hinir ungu, lágvöxnu skógar fengu ekki staðist ágang
hans. Um 1872, er séra Sigurður ritar ofannefnda grein,