Skógræktarritið - 15.05.2006, Síða 101
hæðast
að honum,
þangað til hann kæmi
aftur, skríðandi í duftinu,
auðmjúkur, þurfandi, og hringurinn myndi lykjast
um hann á ný.
Síminn hélt áfram að hringja, burr...urrrr og
minnti á villidýrin í skóginum og flugurnar lágu
afvelta í hvítlakkaðri gluggakistunni. Hann tók upp
tólið skjálfandi hendi og varð að styðja við það með
hinni. Það var eins og hann hefði rétt sem snöggvast
stigið út úr mannheimi, en væri nú kominn aftur.
Allt var svo framandi og röddin í símanum óvinveitt.
„Má ég koma með reikning til uppáskriftar?"
sagði röddin og hann muldraði eitthvað, sem heita
átti já og lagði síðan tólið á. Svo leit hann út úr
glerbúri sfnu og sá hvar stúlka kom gangandi í
gegnum stóra salinn, framhjá bókhaldsvélum,
sendisveini að gantast við vélritunarstúlkur og
fulltrúum með lítil, grá nafnskilti á borðum sínum,
eins og þessir fulltrúar væru vélar, sem þyrfti að
merkja vandlega vegna vörutalningar um áramót.
Stúlkan opnaði dyrnar og afhenti honum reikning.
Hann hljóðaði upp á tíu þúsund pappírsrúllur og
Kristján skrifaði upphafsstafi sína neðst til hægri og
rétti síðan stúlkunni reikninginn aftur. Bros lifnaði í
munnviki og sem snöggvast gleymdi Kristján trénu
og forstjóranum. Honum sýndist brjóst stúlkunnar
titra innan í peysunni og augun kalla á sig í gegnum
hávaðann, sem barst framan úr sal. Hann langaði að
faðma þessa stúlku og gleyma sér andartak. En svo
rankaði hann við sér. Dauðans vitleysa. Þessar
hugrenningar voru úr lausu lofti gripnar, allt var
gagnsætt, veggirnir, húsið og jafnvel fólkið sjálft.
Og stúlkan var
farin og Kristján fór
aftur að horfa út um
gluggann, horfði á tréð í
portinu, þar sem það
teygði laufgaðar greinar í áttina til
hans, einn stór faðmur, titrandi eins og
brjóst stúlkunnar.
En svo var bankað á dyrnar, enn eitt kvabbið.
Það var Margrét, gjaldkeri hjá fyrirtækinu.
„Viltu vera svo góður að skrifa uppá þessa
peningabeiðni?" sagði hún. Aftur setti hann upp-
hafsstafi sína neðst til hægri, vissi naumast uppá
hvað hann var að skrifa, vissi bara að þetta var
grænn, ílangur miði, þess háttar sem komið var með
til hans mörgum sinnum á dag. Upphæðin hefði
alveg eins getað verið hundrað milljónir. Það breytti
engu, bara skrifa nafnið sitt, segja já, aldrei snúa
þversum. Hann fékk Margréti beiðnina aftur.
„Takk fyrir," sagði hún og brosti. Alltaf þetta
sama „takk fyrir," og svo bros. Þó að hann hefði rekið
rýting í bakið á henni, hefði hún ekki látið standa á
brosinu og svo „takk fyrir."
Klukkan var nú að verða tíu og um ellefuleytið
var von á kranabílnum. Kristján fór nú í alvöru að
hugsa um, hvernig hann gæti snúið sér f þessu.
„Þú lætur ekki traðka á þér," hafði konan sagt
þegar hann fór að heiman í morgun, „bara alls ekki."
„En atvinnan?" hafði hann sagt.
„Þú getur alltaf fengið þér aðra vinnu," hafði hún
sagt. Það vantaði ekki að hún stæði með honum,
það hafði hún ávallt gert. En að skipta um vinnu
eftir tuttugu og fimm ára starf hjá sama fyrirtækinu,
það er hægara sagt en gert.
í fyrstu datt honum í hug að fara til forstjórans
og segja honum eins og var, að hann treysti sér ekki
SKÓGRÆKTARRITIÐ 2006
99