Bautasteinn - 01.04.2002, Qupperneq 9
9
Í október árið 2000 var minningarreitur um látna ástvini sem í
fjarlægð hvíla vígður í nýja kirkjugarðinum á Ísafirði af
sr. Agnesi M. Sigurðardóttur, prófasti og presti í Bolungarvík.
Tildrög þess að reiturinn var gerður voru þau að skólafélagar
Kolmars Gunnarssonar, sem ungur fórst til sjós, fengu þá
hugmynd að koma upp einhvers konar minnismerki um horfna
sjómenn og hófu þeir að safna fé til að hrinda hugmyndinni í
framkvæmd. Hópurinn hafði samband við fulltrúa kirkjunnar á
Ísafirði og út úr þeim viðræðum kom hugmyndin að reitnum. Þá
var leitað til Guðmundar Rafns Sigurðssonar, framkvæmdastjóra
skipulagsnefndar kirkjugarða og kom hann vestur, ásamt Þór
Sigmundssyni steinsmið, til að vinna tillögur að útliti og gerð
reitsins.
Þór hannaði minnismerki sem skipar aðalsess í reitnum, en
það er steinsúla, sem er höggvin með tilvísun til úfins hafs og út
frá minnismerkinu eru svo stéttir í boga sem minna á öldur. Að
baki stéttinni er lágur kantsteinaveggur og meðfram honum eru
12 steinar sem festir hafa verið niður í stéttina. Á þessa steina er
hægt að fá sérstakar plötur sem letra má á nöfn ástvina sem
saknað er og minningarorð.
Sr. Magnús Erlingsson, sóknarprestur á Ísafirði, segir
viðbrögðin við reitnum hafa verið góð og þörfin fyrir hann hafi
verið mikil. „Það er gríðarlega mikilvægt fyrir aðstandendur að
eiga einhvern stað til að koma á og minnast ástvina sinna og geta
lagt þar blóm eða kveikt á kerti. Áður var þetta þannig að margir
lögðu leið sína að styttu nokkurri við eina af aðalgötum bæjarins,
en hún hafði verið reist til minningar um sjómenn, og var fólk
gjarna að leggja þar blóm og annað til að minnast ástvina sinna.
Slíkur staður, við fjölfarna götu, hentar þó ekki í þessum til-
gangi og hefur nýi minningarreiturinn uppfyllt þessa þörf á
nýjan og betri hátt. Ég fann t.d. vel fyrir þessari þörf árið 1996
þegar rækjubátur fórst hér á Arnarfirði og tveggja manna var
saknað. Fjölskylda mannanna átti erfitt með að geta hvergi
minnst þeirra og svo fór að við úthlutuðum þeim legstæði þar
sem þau gátu reist minnisvarða og átt sinn stað til að leita á. Það
hentar ekki fjölskyldum, jafnvel með lítil börn, að minnast ást-
vina sinna við fjölfarnar götur. Nýi reiturinn hefur uppfyllt þessa
þörf og þar geta menn líka átt rólega stund, tyllt sér niður á bekk
og hvílst. Kirkjugarðurinn er nokkuð utan við bæinn og umferð
því lítil á svæðinu sem hjálpar til við að skapa rólegt og gott
andrúmsloft. Viðbrögðin við reitnum hafa verið mjög góð og fólk
er þakklátt. Slíkir minningarreitir hafa verið gerðir víðar og
reynslan af þeim er góð,“ sagði sr. Magnús að lokum. Hönnun
reitsins hefur tekist vel eins og myndirnar bera með sér og er
hann falleg viðbót við kirkjugarðinn. Þorkell Gunnarsson skrúð-
garðyrkjumaður
sá um fram-
kvæmdir.
MINNINGARREITUR
Í ÍSAFJARÐARKIRKJUGARÐI
-mikilvægt að eiga stað til að minnast ástvina
Hér sést yfir reitinn. Minnismerkið fyrir miðju og bogadregin stétt til beggja hliða.
Til hægri er bekkur þar sem hægt er að tylla sér og eiga friðsæla stund í fallegu umhverfi.
Minnismerkið sem stendur í hjarta reitsins.
Á súluna er letrað „Minning um látna ástvini
sem hvíla í fjarlægð.“
Fré t t i r a f f ramkvæmdum
GRS
GRS