Helgarpósturinn - 27.10.1983, Page 16

Helgarpósturinn - 27.10.1983, Page 16
Fimmtudagur 20. október 1983 ^oíSsturinn ,, Mér líður best í látum „Mér líður best í látum. Yfirleitt gerast hlutirnir hratt í kringum mig“. Sá sem þetta segir er Gunnar Steinn Pálsson, formaður Sam- bands íslenskra auglýsingastofa. Staðurinn er Auglýsingaþjónustan þar sem búnar eru til auglýsingar af ýmsum gerðum, stundin er föstu- dagur eftir hádegi. Þrátt fyrir þessa yfirlýsingu Gunnars, sem nú er orð- inn eini eigandi fyrirtækisins, er ekki að sjá að hraði eða stress sé að ríða honum á slig. Þvert á móti; hann er hinn rólegasti, hallar sér aftur á bak í stólnum og leysir frá skjóðunni. Gunnar hóf feril sinn sem blaðamaður á Þjóðviljanum, fyrst í íþróttum, síðan sem frétta- maður, svo gerðist hann auglýs- ingastjóri blaðsins og þaðan lá leið- in út á hinn frjálsa markað auglýs- inganna. Er margt skylt með auglýsinga- gerð og blaðamennsku? „Þessar greinar eru náskyldar. Það er góður skóli fyrir þá sem gera auglýsingar að hafa verið blaða- maður. Þú sérð hér frammi fleiri sem koma af blöðunum. Við erum ekki bara að auglýsa, við stundum líka fjölmiðlun. Alveg eins og blöð- in erum við að koma upplýsingum á framfæri. Hvort tveggja beinist að því að ná athygli fólks. Reynsla mín sem íþróttafréttamaður hefur t.d. komið sér einkar vel. íþrótta- fréttirnar eru oft slagorðaleikur, þar þarf oft að gera mikið úr litlu. Þar með er ég ekki að segja að með auglýsingum sé verið að blása eitt- hvað upp, heldur benda á þessa að- ferð,- að ná athyglinni þótt fátt hafi gerst. En það er ekki mikilvægast að auglýsing slái í gegn, heldur að hún miðli réttum upplýsingum. Þar skilur á milli fagmennsku og þeirra sem t.d. gera sjálfir auglýsingar fyr- ir sitt fyrirtæki. Sósíaiískt áfall Það er með ólíkindum hvað aug- lýsingamarkaðurinn er stór hérna hjá okkur, miðað við það hvað markaðurinn er lítill. Mér er það minnisstætt að fyrir mörgum árum, meðan ég var á Þjóðviljanum, fór ég í fri til New York, fyrsti blaða- maður Þjóðviljans sem fékk ótak- markaða vegabréfsáritun, sem þótti mikið sósíalískt áfall. Jæja, en þarna úti hitti ég fullt af auglýs- ingafólki sem tók mér eins og for- seta íslands vegna þess að ég var auglýsingastjóri. Slíkt fólk er hátt skrifað þar vestra þar sem allt geng- ur meira og minna út á auglýsingar. Ég var spurður hvort hér væru fleiri auglýsingastjórar, hvort hér birtust auglýsingar í blöðum, sjón- varpi og útvarpi. Jú, jú allt var þetta til. Þá spurðu þeir hvað hér væri margt fólk. Þegar ég sagði þeim það spurðu þeir af hverju við notuðum ekki bara símann. Þar vestra myndu þeir nota póstinn eða sím- ann til að ná til svona lítils markað- ar og af þessu má sjá hversu mikið er lagt upp úr auglýsingum hér. Hér er fjöldi auglýsingastofa og miklir peningar lagðir í auglýsingar. Þetta er eitt af fjölmörgum undrum sem er að finna hjá okkur. Ég held að þetta sé vegna þess að fólk vill geta gert sér dagamun til mótvægis við myrkrið og kuldann og það leyfir sér ýmislegt, sem veldur því að keppt er um að ná til þess með aug- lýsingum". Hvernig er auglýsingamarkaður- inn, hvernig vinnið þið? „Auglýsingaþjónustan er ein af 10 auglýsingastofum sem eru í Sam- bandi íslenskra auglýsingastofa (SÍA). SÍA-stofur þurfa að spanna vítt svið í þjónustu sinni. Við gerum texta og setjum hann upp, við ger- um auglýsingar fyrir dagblöð og sjónvarp. Við búum til bæklinga, plaköt, dreifirit, undirbúum blaða- mannafundi, skreytum jafnvel veisluborð fyrir viðskiptavinina. Gunnar Steinn Pálsson í Auglýsinga- þjónustunni tekinn tali Við sjáum um öll tengsl við al- menning fyrir kúnnana. Það kemur fyrir að við gefum ráð um málfar í ræðum, undirbúum menn fyrir sjónvarpsviðtöl og fleira slíkt. Aug- lýsingastofurnar í SÍA eru einu fyr- irtækin í landinu sem vinna eftir siðareglum. Úti í heimi gilda al- þjóðlegar reglur sem segja t.d. að ekki megi niðurlægja konur, nota trúgirni barna eða blekkja með röngum upplýsingum, en því miður grasserar slíkt í auglýsingum hér. Að mínum dómi eiga auglýsinga- stofur stóran þátt i stöðugt betri auglýsingagerð og allar auglýsingar ættu a.m.k. að taka mið af siðaregl- um SÍA-stofanna. Hér geta menn ennþá keypt síðu í blaði og auglýst nánast hvernig sem er án þess að nokkurt aðhald eða eftirlit komi til“. Þú minntist á textagerð og málf- ar. Hafið þið íslenskufólk á ykkar vegum? „Við leggjum mikið upp úr góðu málfari. Gott málfar er ekki minna virði en fallegt útlit. Það Iíður varla svo dagur að við hringjum ekki í Orðabók Háskólans til að leita ráða“. Námskeið gegn stressi Hvernig verður auglýsing til? „Fyrst vil ég nefna að það eru um 20 manns sem vinna hérna í fyrir- tækinu, þar af um 15 í fullu starfi. Hér eru menn sem fást við texta- gerð, teiknarar, markaðsráðgjafi, „teppadeildin“ sem fæst við fjár- málin, prentun og birtingu auglýs- inga. Síðan kaupum við vinnu fólks sem fæst við kvikmyndagerð, ljós- myndun, skiltagerð og þar fram eft- ir götunum. Auglýsingin verður t.d. þannig til að kúnninn hringir og segist þurfa að auglýsa eitthvað ákveðið. Það getur tekið allt frá einum degi upp í marga mánuði að verða við óskum hans. Fyrst er að ákveða til hverra á að höfða og síðan hvaða eiginleikar vörunnar það eru sem koma til með að selja hana. Texti er saminn, ljós- mynd tekin og auglýsingin sett upp. Okkar auglýsingar verða til í hóp- efli, við setjumst saman og ræðum það hvernig við viljum auglýsa. Hópvinnu tel ég vera fyrirmyndar- vinnubrögð, en auðvitað gerist það stundum að það þarf að redda ein- hverju á stundinni. Hraðinn er mik- ill í þessum bransa eins og reyndar alls staðar í þjóðfélaginu". Þú nefnir hraðann, það er ekki að sjá að þú sért neitt sérlega stress- aður? „Ég skal segja þér að ég fór á stress-manager námskeið í fyrra. Ég hef þá reglu að fara á námskeið einu sinni á ári. Það hefur verið þannig með mig að hvað sem ég fer snemma á fætur er ég alltaf 15 mín- útum of seinn allan daginn, en ég Iegg mikið á mig þessa dagana til þess að reyna að kippa þessum vana í liðinn. Við lærðum að skilgreina stressið, þekkja einkennin og af- leiðingarnar. Reglan til að verjast stressi er því miður oft sú að neita sér um flest það sem er gott. Þegar mikið álag er framundan er bannað að drekka kaffi, bannað að reykja og drekka — einmitt það sem manni hættir helst til að gera undir álagi. Það er mikil vörn í því að vera vel á sig kominn líkamlega, trimma og gera líkamsæfingar og síðast en ekki síst að anda rétt, anda þindaröndun. Ég get t.d. núna andað mig í svefn á fjórum mínútum. Ég kann ýmsar brellur eftir þetta námskeið sem enginn sér, t.d. að slaka á í eina mín- útu inni á miðjum fundi án þess að nokkur taki eftir því. Þá er ég víðs fjarri bæði andlega og líkamlega. Það er líka mikilvægt að leyfa sér að dreyma dagdrauma, gleyma fyr- irtækinu og öllu þessu efnisiega og láta sig dreyma um eitthvað sem mann langar til að gera. Mín regla er sú að sofa reglulega, borða reglu- lega og hafa sem mest af fjölskyldu minni að segja. Ég er sannfærður um að það getur enginn unnið lengi undir miklu álagi án góðra mann- legra tengsla. Skoða auglýsingar með varúð Ég fór á annað námskeið sem kallað er time-manager námskeið og þar lærði ég t.d. að síðustu fjórar mínúturnar áður en maður fer að heiman á morgnana skipta sköpum fyrir daginn og fyrstu fjórar mínút- urnar eftir að maður kemur heim á kvöldin ráða því hvernig kvöldið verður. Það er mikilvægt að byrja ekki á því að demba áhyggjum yfir fjölskylduna eða að láta hversdags- leikann ráða þessar mínútur, heldur að hugsa og tala um eitthvað allt annað. Það halda margir að þessi námskeið séu fyrir kalla sem vilja láta hjólin snúast, en það verður að segjast að mannlegu þættirnir á þessum námskeiðum eiga erindi til allra þeirra í þjóðfélaginu sem láta sig eigin vellíðan einhverju skipta. Hvernig fer það saman að vera sósíalisti og sjálfstæður atvinnu- rekandi í auglýsingabransanum? „Þessarar spurningar er ég oft spurður, því það er líklega varla hægt að hugsa sér kapítalískari starfsvettvang en auglýsingar. Við erum auðvitað oft að auglýsa fyrir einkaframtakið, stundum komum við gagnlegum upplýsingum á framfæri en stundum erum við e.t.v. að ýta pínulítið undir gerviþarfirn- ar. Ég vil svara þessu þannig að ég eins og flestir aðrir er að selja mína vinnu. Ég hef fólk í vinnu, en við reynum að vinna eins mikið saman og eins félagslega og hægt er. Mér finnst það mikilvægast að verða ekki samdauna, að geta horft á það sem við erum að gera utan frá. Sjálfur skoða ég auglýsingar með varúð og ég vona að allur almenn- ingur geri það líka. Ég reyni að taka persónulega afstöðu og spyrja: ger- ir auglýsingin gagn? A hún erindi, flytur hún góðan boðskap? Það kemur fyrir að við neitum að gera auglýsingar fyrii einstakar vörur eða fyrirtæki sem okkur finnst eiga lítið erindi á markaðinn". Kóngamellan Gunnar Það er greinilegt að auglýsingar eru að verða æ stærri þáttur í okkar samfélagi. Til dæmis eru stjórn- málamenn og verkalýðshreyfingin farin að nota auglýsingar til að koma boðskap sínum á framfæri. Hvað viltu segja um þetta? „Við erum farin að finna fyrir því að pólitíkin sækir til okkar eftir að- stoð og það er ekkert nema gott um það að segja. Það má að vísu aldrei verða þannig að auglýsingastofur búi alfarið til ímynd einhvers stjórnmálamanns, en við getum að- stoðað við að koma upplýsingum á framfæri. Við höfum aðstoðað fólk í prófkjöri. Ég held líka að auglýs- ingastofur gætu haft áhrif í þá átt að koma réttum upplýsingum til fólks um pólitík,því það er okkar mottó númer eitt, tvö og þrjú að segja satt“. Það er talað um efnahagserfið- leika og samdrátt, hafið þið orðið vör við samdrátt á auglýsingamark- aðnum? „Ekki ennþá. Þegar samdráttur verður í innkaupum reyna seljendur að herða róðurinn og ná til fólks og auglýsa jafnvel enn meir en ella. Við höfum hins vegar orðið vör við vaxandi greiðsluerfiðleika“. Hvað um áhugamál þín utan vinnunnar? „Þau eru mörg. Þegar ég var blaðamaður á Þjóðviljanum þótti ég afskaplega borgaralegur, bæði v fréttamennsku og áhugamálum. Ég stundaði skák, bridge og fótbolta og geri enn. Ég hef alltaf verið sportidjót og verð að fá að keppa og nú síðast bætti ég tennis á verkefna- listann. Ég hef keppnisskap og fæ ótrúlega útrás við það að taka þátt í keppni. Mitt aðaláhugamál, sem ég vanræki þó mest, er fjölskyldan. Það gengur mikið á á mínu heimili. Ég er mikil félagsvera og þykir gam- an að skemmta mér með öðrum, þótt ég reyni þess á milli að vera fyr- irmyndar heimilisfaðir, rólyndur og góður. En af því að ég minntist á það hvað ég þótti borgaralegur, ætla ég að segja eina sögu því til sönnunar. Ég taldi að lesendur Þjóðviljans vildu lesa um það sem var að gerast á hverjum tíma og því var það að þegar Karl Gustav Svíakóngur kom hingað elti ég hann á röndum, lýsti klæðnaði hans og gestanna, hvað var borðað og þar fram eftir götun- um. Þetta fór mjög í taugarnar á sumum'á Þjóðviljanum og af þessu tilefni orti Árni Bergmann eftirfar- andi vísu: Harmþrungnir vér horfum á hugsjónirnar brunnar. í komma lýgur Karli frá kóngamellan Gunnar.

x

Helgarpósturinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.