Helgarpósturinn - 13.12.1984, Blaðsíða 8

Helgarpósturinn - 13.12.1984, Blaðsíða 8
Tölvuvæð- ingin hefur gert fjár- glæfra auðveldari fyrir þá sem breyta nafnnúmeri sínu Þad sem af er þessu ári hafa 82 ís- lendingar látið breyta nafni sínu í þjóðskrá. Tæpur helmingur þess fólks var útlendingar sem höfðu fengið íslenskt ríkisfang. Fjöldi nafnabreytinga hefur haldist nokk- uð svipaður undanfarin ár — um 100 á ári. Sótt er um nafnbreytingar hjá Hagstofu íslands. Hún afgreiðir um- sóknirnar í samræmi við gildandi lög um mannanöfn og þær starfs- reglur sem stofnunin hefur sett sér í þessum efnum. Nafnbreytingar birtar mánaðarlega í janúar á þessu ári, tók Hagstofan upp þá nýjung að birta í Hagtíðind- um allar nafnnúmerabreytingar mánaðarlega. Þá tók stofnunin m.a. fram eftirfarandi við birtingu: „Ákveðið hefur verið að birta mán- aðarlega skrá yfir þá einstaklinga, sem fengið hafa breytta ritun nafns í þjóðskrá, þó því aðeins að nafn- númer hafi breyst og hlutaðeigandi sé eldri en 15 ára. Hér er um að ræða breytta ritun nafns sam- kvæmt beiðni hlutaðeiganda, og einnig í sambandi við töku íslensks ríkisfangs, ættleiðingu, stofnun eða slit hjónabands o.fl. Það skal tekið fram, að beiðnir um breytta ritun nafns í þjóðskrá eru að sjáifsögðu ekki teknar til greina nema grund- völlur sé til þess samkvæmt lögum og þeim starfsreglum, sem Hagstof- an hefur orðið að setja sér á þessu sviði og hún hefur fylgt um langt árabil." Áður en þessi mánaðarlega birt- ing nafnbreytinga var tekin upp voru breytingarnar aðeins birtar ár- lega. Aukin tölvuvæðing og breytt meðferð alls kyns persónulegra upplýsinga af hennar sökum hafa kallað á tíðari birtingu. Eða eins og Hagstofan segir sjálf í Hagtíðindum: „Með vaxandi tölvuvæðingu starfa bæði í opinberri stjórnsýslu og á sviði einkarekstrar hafa ókostir breytilegs auðkennisnúmers ein- staklinga orðið meira og meira á- berandi. Vonast er til þess, að mán- aðarleg birting nafnnúmersbreyt- inga í þjóðskrá bæti nokkuð úr þess- um annmarka." Sem fyrr segir fer Hagstofan eftir lögum og eigin reglum þegar hún afgreiðir umsóknir um nafnbreyt- ingar. Það er m.a. af illri nauðsyn, sem Hagstofan hefur sjálf þurft að þróa ákveðnar reglur í þessum efn- um. íslensku mannanafnalögin frá 1925 eru nefnilega ekki sérlega full- komin. „Þau eru með fátæklegri lagabálkum okkar," segir Baldur Möller, ráðuneytisstjóri í dóms- málaráðuneytinu. „Þau eru allt of gömul. Reyndar voru nafnalögin frá 1913 sem giltu á undan þessum ítarlegri að ýmsu leyti," segir Bald- ur. „Lögin frá 1925 eru runnin und- an rifjum Bjarna frá Vogi og höfðu eiginlega það eitt að markmiði að fella niður heimild til töku ættar- nafns.“ Baldur segir, að endurbætur laganna hafi strandað á því að í bæði skiptin sem fjallað hafi verið um frumvarp að nýjum lögum hafi um leið verið lagt til að ættarnöfn yrðu tekin upp að nýju. Gömul lög — en hvað segja þau? En hvað segja lögin? Hvað má og hvað má ekki? Aðalreglan er sem sagt þessi: Sama nafn alla ævi. Hún er fyrsta grein laganna. í annarri grein er girt fyrir töku ættarnafna. í 3. grein kveður á um að fólk geti haldið þeim ættarnöfnum sem stofnað var til á milli 1913 og 1925, en að niðjar þess njóti ekki nafn- anna. Þessi grein hefur ekki verið haldin, sbr. ættarnöfn eins og Kvar; an og Kjaran, sem enn eru notuð. í fjórðu grein segja lögin að kona megi bera ættarnafn eiginmanns síns og í fimmtu grein er bannað að skíra börn nöfnum sem ekki fylgja lögmálum íslenskrar tungu. Sam- kvæmt lagagreininni átti heim- spekideild Háskóla íslands að skera úr þegar presturinn var í vafa, en' deildin hefur bara aldrei treyst sér til þess. Lögin gerðu m.a.s. ráð fyrir að deildin útbyggi sérstakan bann- lista yfir óæskileg nöfn, en það gerði hún aldrei. Prestar hafa því ekkert haft til að styðjast við og 8 HELGARPÓSTURINN lagagreinin því gagnslaus. En það er annað mál. Sú grein laganna sem fjallar um nafnbreytingar er sú síðasta í þess- um aldna og fátæklega lagabálki. Þar segir á þá leið, að hafi maður verið skírður óþjóðlegu eða klaufa- legu nafni eða beri hann erlent nafn, þá geti hann breytt nafni sínu með leyfi konungs (sic!) þ.e.a.s. dómsmálaráðuneytisins nú til dags. Réttlætismál Dómsmálaráðuneytið, ekki Hag- stofan, afgreiðir umsóknir um svona algera nafnbreytingu. Hér er um að ræða tilvik þegar manneskja sem heitir t.d. Vindhæna fer fram á að fá nýtt skírnarnafn, segjum Hug- rún. Sjálfsagt réttlætismál í flestum tilvikum fyrir fólk með svona fárán- leg nöfn. I sumum tilvikum vill fólk fá nýtt nafn vegna þess að það kom upp í draumi. Tilvikin eru á ýmsa lund. „Við höfum leyst úr sálarhrell- ingum fólks og leyft niðurfellingu á nöfnum, en þá göngum við líka úr skugga um að ekkert óhreint búi að baki,“ segir Baldur Möller. Það er hins vegar mál Hagstof- unnar þegar farið er fram á breytta ritun fornafna (eins eða fleiri) eða föðurnafns/ættarnafns í þjóðskrá og slíkar breytingar hafa líka í för með sér breytt nafnnúmer viðkom- andi. Gildar ástæður fyrir breytingu á föður- eða ættarnafni eru t.d. ætt- leiðing og svo stofnun eða slit hjú- skapar. Og til að fá að skrifa sig með breyttu fornafni þarf fólk annað hvort að heita útlensku skírnar- nafni eða tveimur nöfnum. Athug- um síðasta tilvikið, því meðal þeirra sem sækja um nafnbreytingu á þeim forsendum er að finna margan skúrkinn sem reynt hefur að hvít- þvo sig af fjársvikum og prettum, sem hann framdi undir gamla nafn- inu. Bófar og vanskilamenn í þessum tilvikum er algengast að skuggabaldurinn biðji um að fá að skrifa síðara fornafn sitt á undan og láta það gilda sem aðalnafn í stað þess fyrra. Takist honum að telja Hagstofu Islands á sitt mál breytist nafnnúmer hans og þá getur hann þess vegna labbað niður í næsta banka, alræmdur bófinn og van- skilamaðurinn, og slegið sér lán út á nýja nafnið. Það er nefnilega ekki til á vanskilaskránni sem bankarnir fá reglulega. Hann er á auðum sjó. „Á milli 10 og 20 manns hafa leik- ið þennan leik undanfarin tvö til þrjú ár,“ segir heimildarmaður Helgarpóstsins, sem er gjörkunnug- ur þessum málum, en vill ekki láta nafns síns getið. „Áður fyrr var aldrei reynt að svindla svona á þessu, en eftir að tölvuvæðingin gekk í garð og bankarnir fóru að reiða sig á nafnnúmerin fór þetta vaxandi. Þessir menn segjast alltaf nota síð- ara fornafnið og vera þekktir undir því og ná þessu í gegn á þeim for- sendum." Þegar farið er fram á svona breytingu þarf að leggja fram umsókn. Það er ekkert sérstakt um- sóknareyðublað til hjá Hagstofunni þannig að menn leggja bara inn ein- hverja greinargerð máli sínu til stuðnings. Með greinargerðinni þarf að fylgja sakarvottorð, en Hag- stofan kannar síðan feril viðkom- andi ekki frekar að öðru leyti en því, að fletta upp í símaskrá og kanna undirskriftir viðkomandi á tiltækum pappírum, svo sem til- kynningum um búferlaflutninga. Stofnunin kannar þannig t.d. ekki vanskilaskrána, sem þó virðist liggja beint við að hún geri. „Það komast ekki allir upp með þetta sem reyna," segir heimildar- maður okkar. „Sumir geta ekki gert grein fyrir ástæðum sínum fyrir nafnbreytingum á nægilega sann- færandi hátt og gefast upp. En það eru alltaf einhverjir sem sleppa í gegn, kannski 5—6 manns á ári.“ Svikin koma í ljós þegar bankar eða lögregla snúa sér síðar til Hagstof- unnar til að fá upplýsingar um hvort tiltekinn vanskila- eða afbrotamað- ur hafi skipt um nafn. En Hagstofan gerir ekkert í málinu þótt viðkom- andi sé ber að því að hafa gróflega misnotað sér nafnbreytinguna; breytingin er ekki tekin til baka. Bankar á varöbergi „Það er reynt að kanna þessi mál vandlega," segir Klemens Tryggva- son, hagstofustjóri. „Við höfum samband við sakaskrá og ef nafninu fylgir sakaferill, þá flyst hann að sjálfsögðu yfir á nýja nafnið. En það geta alltaf orðið slys. Menn eiga rétt á því að fá ritun nafns síns breytt ef gildar ástæður eru fyrir því,“ segir Klemens. „Þetta er mannréttindamál.“ Klemens seg- ir að meginástæðan fyrir því að ákveðið var að birta nafnbreytingar mánaðarlega í stað árlega hafi ekki verið sú að reyna að koma í veg fyr- ir glæpi, enda ófullnægjandi aðferð til þess. Breytingin var gerð til hægðarauka öllum þeim fjölda að- ila, sem hafa tölvuvætt hjá sér við- skiptamannaskrár o.þ.h. Bankar eru á varðbergi, þeir fylgj- ast með breytingunum hver hjá sér. „Áður en nafnbreytingar voru birt- ar mánaðarlega var mun meira um beiðnir frá bönkunum um upplýs- ingar um einstaka menn. Nú geta bankarnir fengið svo til tafarlausar upplýsingar um viðkomandi." En ekki lesa allir Hagtíðindi og telja verður hæpið að hinar ýmsu stofnanir og fyrirtæki, sem stunda Iánaviðskipti af einhverju tagi hafi fullkominn vara á í þessum efnum. Mörg þessara fyrirtækja og stofn- ana eru þó áskrifendur að vanskila- skrá, sem Reiknistofa Hafnarfjarðar gefur út og selur með leyfi tölvu- nefndar, og undir eftirliti hennar. En því miður nægir ekki að vera á- skrifandi að vanskilaskránni til að verjast svikahröppunum með nýju nöfnin. 7—8.000 á vanskilaskrá Á vanskilaskránni eru nöfn 7—8 þúsund einstaklinga. Menn hafna ekki á listanum nema fyrir mjög slæma óreiðu í fjármálum, t.d. það að hafa hlotið dóm vegna van- greiddrar skuldar, eða fyrir að hafa sætt árangurslausu fjárnámi. IJpp- boð „á eigninni sjálfri" kemur fólki líka á þessa illræmdu skrá. Staðreyndin er sú að fjárglæfra- menn með langan slóða af svikum, prettum og vanskilaskuldum á eftir sér, geta „flúið" af vanskilaskránni með því að skipta um nafn, vegna þess að henni er ekki breytt til sam- ræmis við nafnbreytinguna. Þannig fylgir slóðinn aðeins gamla nafninu. Haldi viðkomandi áfram að svíkja og pretta undir nýju nafni og safna um sig hópi af ævareiðum lánar- drottnum, lendir þetta nýja nafn hans auðvitað fyrr eða síðar í van- skilaskránni. En skuggabaldurinn hefur þá líka haft gott svigrúm til að leika sér að nýjum og grunlausum fórnarlömbum. „Það líða a.m.k. þrír mánuðir þar til viðkomandi lendir á vanskilaskránni á ný,“ segir örugg heimild Helgarpóstsins, sem þekkir vel til þessara mála. „Oftast tekur lengri tíma að afhjúpa þessa menn, og þá hefur þeim kannski tekist að valda fjölda af saklausu fólki miklum fjárútlátum, jafnvel gjaldþroti. Það þarf að færa slóða þessara manna yfir á seinna nafn- númerið, en til að koma því í kring þarf að breyta þessu handvirkt í tölvunni. Til þess þarf sérstakt leyfi tölvunefndar (sem hefur yfirumsjón með tölvuskráningu á persónuleg- um upplýsingum í landinu). Þetta hefur ekki fengist gert, en það þyrfti að gerast." Tölvunefnd mun heldur ekki hafa borist nein slík beiðni, samkvæmt heimildum blaðsins. Stórkrimmar „Nú vaða fram og aftur um kerfið 30—50 manns, sem við getum kall- að hreinræktaða „fjármála- krimma“,“ segir heimildarmaður HP sem er í aðstöðu til að fylgjast með þessum málum. „Ég veit um einn sem hefur 70 mál á bakinu, kröfur frá 600 krónum upp í hálfa milljón. Það eru alls konar skíta- labbar á ferli í viðskiptalífinu. Þetta er ákveðinn hópur svikahrappa, sem í flestum tilvikum hafa byrjað á að komast yfir peninga með svik- um, en einhvern veginn sloppið við refsingu. Svo hefur snjóboltinn hlaðið utaná sig þar til þessir menn eru orðnir að stórkrimmum." Margir þessara manna nota fleiri en eitt nafn og fleiri en tvö og aðeins hluta þeirra hefur tekist að breyta nafnnúmerum sínum. „Þessar nafn- breytingar valda okkur svo sem ekki miklum vandræðum þegar við erum að rannsaka mál þessara manna,“ segir rannsóknarlögreglu- maður í samtali við Helgarpóstinn. „Við þekkjum þá jafnt og áður. „En við vitum af þessu. Hjá okkur eru 5—10 manns á skrá fyrir alls konar afbrot og við vitum að þeir hafa breytt um nafn að því er virðist í þessum eina tilgangi. Þetta er orðið óþægilegt og það verður að girða fyrir þetta.“ Girt fyrir? „Það er staðreynd, að menn geta horfið með ekki flóknari hætti en að fella niður annað af tveimur nöfn- um,“ segir Baldur Möller. „Það þyrfti að vera regla að kanna til hlít- ar bakgrunn manna, þegar þeir sækja um slíka breytingu," segir hann. Sumir í stjórnkerfinu vilja ganga enn lengra og banna Hag- stofunni að veita umræddar heim- ildir. „Það ætti hreinlega að taka fyrir þetta," segir einn embættis- maður í samtali við HP. „Eins og lögin eru um Hagstofuna, er reynd- ar hæpið hvort henni leyfist að setja reglur í þessum efnum á eigin spýt- ur. Það sem þarf til að breyta þessu er miklu nánara samstarf Hagstofunn- ar, bankanna og þeirra aðila sem sjá um vanskilaskrána. Það þarf að tryggja það einhvern veginn, að mál þessara manna sem lenda svona á milli nafnnúmera, liggi á borðinu fyrir þá sem þurfa á slíkum upplýsingum að halda." Að sögn heimildarmanna Helgar- póstsins eru viðræður um þessi mál að komast í gang hjá þeim aðilum sem hlut eiga að máli og reiknað er með að fullur skriður komist á þær á nýja árinu. Og þá spyrja krimm- arnir væntanlega ekki að leikslok- um. Fjarglæfra- menn flýja af vanskila- skrám bankanna með því að skipta um nafn

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.