Helgarpósturinn - 24.10.1985, Qupperneq 11
HP ræðir við Önnu á Hesteyri sem lengst af
hefur slegið með orfi og ljá, rakað með hrífu, og
lifað við olíuljós, kolaeldavél og kolaofn
Nei,
ég man ekki eftir
að þetta hafi
verið erfitt
„Eruð þið nokkuð á hraðferð?"
— Neei, e, — við komum nú eigin-
lega til að hitta ...
,,Já, getiði ekki hjálpað mér að
taka upp það sem er eftir hérna af
heyi? Það eru hrífur þarna."
Viðmælandi okkar er lítið eitt
óðamála, — enda sýnist rigning í að-
sigi og þá er um að gera að ná því
heyi sem þurrt er í sátur. Blaða-
menn Helgarpóstsins eru í heim-
sókn hjá náttúrubarninu Önnu Guð-
mundsdóttur á Hesteyri við Mjóa-
fjörð.
Anna er bóndi í einni afskekktustu
byggð landsins, Mjóafirði sem sker
landið milli Norðfjarðar og Seyðis-
fjarðar. Þetta er kona sem fyrst tók
rafmagnið í þjónustu sína fyrir 10
árum og dráttarvél fékk hún um líkt
leyti. Hún segir sjálf að hún sé ekki
mikill bóndi, býr aðallega vegna
þess að henni þykir vænt um skepn-
urnar, — „ekki upp á hagkvæmasta
rnáta," og hlær.
UNDIR SÁTU LIGGUR
GAMALL MAÐUR
í blettinum þar sem við keppumst
nú við að raka með Önnu eru nokk-
ur heysæti og milli þeirra traktor
með múavél aftan í. Undir einni sát-
unni situr, eða nær því liggur, gam-
all maður flötum beinum. Hann er
grannur og máttlítiil að sjá en horfir
kankvíslega til gestanna. Þessi blett-
ur verður okkur, sem komum að
sunnan, eins og utan úr öðrum
heimi.
„Jón Daníelsson hér.“ Sá gamli
kynnir sig og stendur hægt og sein-
lega á fætur. Hann er máttlaus i
vinstra fæti og gengur við hækjur.
Eftir að hafa rabbað við okkur góða
stund bröltir hann með hjálp Ónnu
upp í traktorinn og hefur stöng til
þess að geta beitt hendinni á kúpl-
inguna. Hann er kominn á níræðis-
aldur, þessi karl, og spyr ekki að því
hvort hann hafi heilsu til þess að
standa í heyskapnum með Önnu.
Þegar hann bröltir niður úr dráttar-
vélinni er eins víst að máttlausa
löppin hrökkvi úr liði. „En ég lem
henni þá bara í aftur,... nei, nei, það
er ekki svo sárt, — eða maður venst
því.“
Hann segir okkur að hann sé upp-
runninn að norðan og hafi lengst af
átt heima á höfuðborgarsvæðinu.
Þegar svo íbúðarhúsið brann að
Hesteyri og þær mæðgur, Anna og
móðir hennar, stóðu húsnæðislaus-
ar uppi birtist karli draumkona hans
og sendi hann yfir í þessa afskekktu
og ókunnu byggð, að hjálpa mæðg-
unum á Hesteyri sem hann hafði
aldrei heyrt nefndar. Þetta var 1977
og síðan þá hefur Jón verið hjá
Önnu, hjálpað til við búskapinn og
vélahaldið. Og ekki hvað síst stytt
Önnu stundir eftir að móðir hennar
lést í hárri elli árið 1979.
Þó Jón gamli ^virðist bæði slitinn
og fúinn á líkama þá aftrar það hon-
um ekki í björtum fyrirætlunum.
Hann segist hafa fyrir því áreiðan-
legar heimildir að hann eigi eftir að
hlaupa. Það og margt annað í vit-
und þessa gamla manns kemur úr
heimi sem er okkur framandi og
ekki á okkar færi að rengja. Með
vorinu ætlar Jón að festa kaup á bíl
sem þau tvö geta þá notað sér til
ferðalaga að sumarlagi. Helst segist
hann vilja að Anna taki bílpróf og
sjálf tekur hún ekki illa í það.
VIGDÍS FÉKK MYND
FRÁÖNNU
Við erum komin inn í stofu til
Önnu, í litlu timburhúsi sem reist
var að Hesteyri eftir að íbúðarhúsið
á bænum brann fyrir nokkrum ár-
um. Anna er ekki að afsaka neitt
þegar hún segir okkur að það hafi
verið í nógu öðru að snúast en til-
tektum innanhúss að undanförnu;
heyskapurinn hafi tekið mikinn
tíma í þeirri leiðindatíð sem verið
hefur og þessutan sé hún byrjuð á
síldveiðum. Síldin gengur hérna inn
Mjóafjörðinn og þarf ekki annað en
leggja net rétt úti fyrir landi og vitja
um með árabát.
En þrátt fyrir fáar stundir til til-
tekta, þannig að á borði sem þjónar
jafnt sem borðstofu- og sófaborð
ægir öllu saman, þá er heimilislegt
og hlýlegt að koma á þennan stað.
Þarna er eitthvað af bókum, flösk-
um, matarílátum og einhverstaðar
til hliðar við sjónvarpstæki á enda
borðsins vex gróskumikil potta-
planta. Glugginn sem snýr niöur að
firðinum er sömuleiðis fullur af
blómum en fyrir innan hann hefur
Jón komið upp litlu smíðaborði fyrir
tilfallandi viðgerðir. Á veggjum
hanga myndir í fagurlega skreyttum
kuðungarömmum sem húsfreyjan
og bóndinn hefur sett saman sjálf úr
efnivið sem hún tínir úr eigin fjöru.
Þegar Vigdís forseti var á sínu Aust-
fjarðaferðalagi í vor, vottuðu Mjó-
firðingar henni vináttu með mynd
frá Önnu. Sjálf á hún aðra sömu
gerðar og nú hangir væntanlega
uppi á Bessastöðum. Ljósmyndina
tók hún sjálf og lét stækka af fossi
sem fellur innarlega í Mjóafirði en
ramminn er að sjálfsögðu úr Mjóa-
fjarðarkuðungum.
Anna segir okkur að hún sé fædd
1929 og var einkabarn foreldra
sinna sem bjuggu alla sína búskap-
artíð á Hesteyri. Þegar Anna var að
alast upp var Hesteyri líflegri staður
en nú er. Þá var bújð á þremur bæj-
um þar sem Hesteyri er núna og að
minnsta kosti tvíbýli á einum þeirra.
Aðeins skotspöl frá Hesteyri er svo
Brekkuþorpið þar sem enn er nokk-
ur byggð, en þó lítil miðað við það
sem var.
TÍMDI EKKI AÐ FARA
í SKÓLA
„Það var barnaskóli út frá, að
Brekku, en ég vildi ekki fara í hann
og það fór því þannig að mamma
kenndi mér heima og svo fór ég í
prófin," segir Anna þegar við spyrj-
um út í skólagönguna. í fyrstu gekk
henni námið ekkert alltof vel, segist
sjálf ekki hafa nennt að læra. Þegar
henni var þá sagt að hún yrði að
fara í skólann ef henni færi ekki að
ganga betur þá rættist úr því.
„Þau vildu svo koma mér til
mennta, mamma og pabbi, en ég
spyrnti við með öllum ráðum og þá
varð það svo að vera, þó þeim líkaði
ekki vel.“
— Og þú sérð ekki eftir því núna
aö hafa ekki gengið menntaveginn?
„Nei, það hefi kostað svo margt
annað sem ég hefði orðið að fórna
vegna menntunarinnar að ég hefði
ekki tímt því.“ Anna verður alvöru-
gefin þegar þessa hluti ber á góma
en þegar líf okkar sem búum fyrir
sunnan kemur til tals má heyra að
henni er fyllilega ljóst hvað það er
sem hún hefur farið á mis við í þæg-
indasnauðu og oft á tíðum harðn-
eskjulegu lífi austur í Mjóafirði
„Já, það hefði orðið erfiðara að búa
hér áfram ef þetta hefði átt að vera
eitthvert nám að gagni.“
Og seinna um kvöldið þegar
blaðamaður gengur með bóndan-
um í útihúsin og búskapurinn er í al-
gleymingi segir Anna: „Þegar
maður kemur á veturna í snjóhríð
og gefur á garðann í fjárhúsunum,
fer svo út og hóar saman kindunum
inn í hlýjuna og kemur svo sjálfur
kaldur og hrímugur... Ég vildi ekki
fórna því fyrir mörg lífsþægindi sem
hægt væri að fá ef maður ynni á
skrifstofu."
— Þetta er allt annað Itfsviðhorf
en flest okkar hinna höfum!
Og Anna jánkar því og út úr svari
hennar sem ekki varð fest á blað i
náttmyrkrinu í Mjóafirði má á ein-
hvern hátt lesa að þessi kona hefur
náð að skilja okkar viðmiðanir og
viðhorf en um leið gert sér grein
fyrir að við getum aldrei skilið
hennar. Hún er náttúrubarn sem
veit að feti hún einu sinni út af þeim
þrönga stíg, — eins og með skóla-
göngu, — þá verður tæpast aftur
snúið.
SLÁTRAR ÁNUM SJÁLF
„Erfitt, nei, ekki fannst mér það,
helst það að maður er farinn að bila
í bakinu," segir Anna þegar við
spyrjum út i búskapinn sem lengst af
fór fram með sömu tækni og hefur
verið notuð í Mjóafirðinum og ann-
arstaðar' um aldir. Tún og engjar
slegin með orfi og ljá, rakað með
hrífu og heyið svo flutt með hestum
þegar fólk bar það ekki sjálft á bak-
inu. Heima á bæ var svo olíuljós og
kolaeldavél og kolaofn, allt þangað
til fyrir tæpum áratug. Nei, Anna
man ekki að þetta hafi verið erfitt,
enda ekkert annað þægilegra á boð-
stólum.
Faðir hennar dó 1968 en þær
héldu búskapnum áfram, Anna og
móðir hennar. Á þessum árum var
ekki mikið um ferðalög, en Anna
hafði samt komið í kaupstaði á Aust-
fjörðunum og einu sinni suður til
Reykjavíkur sem barn. Að sumar-
lagi segist hún hafa farið nokkrum
sinnum upp á Hérað og meðal ann-
ars sótt þjóðhátíðina á Eiðum 1974.
Að vetrarlagi er lítið um ferðalög úr
Mjóafirðinum, enda er fjörðurinn
þá ekki í neinu vegasambandi. Helst
að það sé skroppið með póstbátnum
á Norðfjörð fyrir jólin. En Anna seg-
ist hafa farið að stunda svolítið
ferðalög eftir að móðir hennar dó
1979. „Þá varð allt svo leiðinlegt að
ég fór til þess að hrista það af mér,
— annars hef ég alltaf verið heima-
kær.“ Síðustu sumur hafa þau Jón
Dan flakkað lítillega, komu meðal
annars suður á Þingvöll í sumar og
Anna á mýndir sem hún tekur sjálf
úr öllum þessum ferðalögum.
Það dylst engum sem talar við
Önnu að hún og móðir hennar hafa
verið afskaplega samrýndar og enn-
þá minnist hún gömlu konunnar
með söknuði. Hún segir sjálf að lífið
hafi verið sér erfitt fyrst eftir að
móðir hennar dó, — „og hefði alls
ekki verið búandi hérna ef hann
væri ekki,“ segir hún og lítur til Jóns
Dan.
„Þeir gerðu manni svolítið erfitt
fyrir árið 1978. Þá fóru þeir að
amast við sláturhúsinu hér og
skylda okkur til að slátra á
Norðfirði." Við erum farin að tala
um búskapinn, kindurnar sem eru
líf og yndi þessa sérstæða
náttúrubarns. Önnu og ekki síður
móður hennar líkaði það afar illa að
þurfa að setja lömbin á þvæling með
bát til Norðfjarðar, í stað þess að
þær höfðu áður getað fylgt þeim
yfir í sláturhúsið á næsta bæ.
„Ég skrifaði yfirdýralækni, ef það
mætti fást undanþága á einhvern
máta, en það var ekki hægt. Pabbi
hafði sagt að mömmu myndi líka
það illa ef svona færi. Hún myndi þá
ekki lifa lengi eftir þetta og það stóð
heima. Hún hætti að vera með kind-
tir sjálf og þá var stutt eftir."
Leyfisveitingar kerfisins eru Önnu
framandi og henni þykir skrýtið að
kjöt sem var gott eitt árið þannig að
allir sóttust eftir því, var nú orðið
næstum því eitrað. Þó svo að Anna
hafi neyðst til þess að senda lömbin
með bát til slátrunar þá neitar hún
alveg að fara þannig með fullorðnar
ær. Þeim slátrar hún sjálf, handa
sjálfri sér og kunningjum sem rétta
að henni soðningu eða annað í stað-
inn, þannig að það eru kaup kaups.
Og Anna er ekki eini dýravinur-
inn í fjölskyldunni. Hún segir okkur
hróðug frá því að afi hennar, sem
einnig bjó á Hesteyri, hafi einu sinni
farið með kindur til Seyðisfjarðar til
þess að selja þær til Englands —
þangað sem féð var flutt með skip-
um á fæti. En þegar gamli maðurinn
kom aftur þá sagði hann sjálfur að
þetta myndi hann aldrei gera aftur.
Það hefði verið sér ofraun að horfa
á eftir skepnunum í þennan velting.
GET ORÐIÐ EINSETU-
KERLING ÚR ÞVÍ
SEM KOMIÐ ER
Eiríkur föðurbróðir Önnu var svo
einn sá fyrsti sem barðist fyrir því að
kindur væru skotnar en ekki skorn-
ar. Eiríkur þessi dó ungur og
ókvæntur úr berklum en hafði þá
áður byggt steinhús það sem Anna
og foreldrar hennar bjuggu lengst af
í. Nú standa þar brunarústir eftir
eldsvoða árið 1977. Anna var þá
stödd í fjárhúsunum og tókst við ill-
an leik að bjarga móður sinni út en
inni brann allt sem brunnið gat.
Þeir sem komu í heimsókn í
gamla húsið að Hesteyri lýsa því
sem heimsókn inn á sérkennilegt
aldamótaheimili, ferð inn í löngu
liðinn tíma. Önnu kemur þetta í
fyrstu svolítið spánskt fyrir sjónir
þegar við berum þetta undir hana,
en segir svo að allt hafi verið líkt því
og Eiríkur frændi hennar skildi við
það þegar hann dó 1920.
En Eiríkur þessi hefur um margt
verið sérkennilegur maður, því auk
þess að vera dýravinur var hann
mikill áhugamaður um blómarækt
og hafði garð við húsið. Mörg blóm-
anna tók hann svo inn yfir vetrar-
mánuðina. „Nei, það var alls ekki al-
gengt þá að fólk væri með hlóm, —
og alls ekki algengt með karlmenn,"
segir Anna og talar af virðingu um
þennan frænda sinn sem var ungur
að árum þegar berklarnir tóku hann
eins og fleiri áður fyrr. En líklega má
að einhverju leyti rekja það til Eiríks
að ennþá er stofan á Hesteyri þakin
suðrænum blómum.
Við endum spjallið við Önnu með
því að skyggnast inn í framtiðina og
spyrja þennan síðasta bónda á Hest-
eyri hvort hún reikni með að bera
beinin hér í Mjóafirði og hvíla meðal
forfeðra og frænda í fjölskyldugraf-
reit ofan við bæinn.
„Maður veit aldrei hvað lífið ber í
skauti sér. Nei, mig langar ekki í
burtu og kannski getur maður alveg
orðið einsetukerling, úr því maður
er kominn yfir það versta.
Nú, og svo veit maður aldrei nema
þeir sprengi þetta allt saman í loft
upp og þá verður nú hver kyrr þar
sem hann er.“
HELGARPÓSTURINN 11