Helgarpósturinn - 14.11.1985, Blaðsíða 15

Helgarpósturinn - 14.11.1985, Blaðsíða 15
- FRIÐRIK PÁLSSON NÝRÁÐINN FORSTJÓRISH í HP-VIÐTALI Það væri ofsögum sagt að asnar skiptu megin máli í lífi Friðriks Pálsson- ar, en eigi að síður; hvar sem er í veröldinni vindur hann sér gjarnan inn í báð og biður um asna. Sums staðar verður afgreiðslufólk dálítið hvumsa, en lœtur samt sem ekkert sé; það eigi aftur á móti t.d. hesta og dregur fram úr hillum alls kyns dýr úr gleri eða öðru efni. En asni skal það vera. Engin önnur skepna sómir sér í hundrað asna safninu heima á Vesturbrún. Þar hitti ég þennan snaggaralega Húnvetning, og þegar ég hef afþakkað boð hans um að baka handa mér vöfflu, tyllum við okkur að viðtalssið. Úr vöfflu í fisk; ég œtla að byrja á því að spyrja nýráðinn forstjóra SH um kynni hans af fiskveiðum og söltum sjó. „Engin," svarar hann að bragði. — Og skammast þín ekki minnstu vitund fyrir þaö? „Alls ekki. Þetta hefur ekki háð mér nokkurn skapaðan hlut. Þegar ég byrjaði hjá SÍF lagði ég mikið á mig til að læra allt um fisk, sem kannski varð yfirborðsþekking, en áður hugsaði ég ekk- ert um fisk. Ég hef aldrei farið á sjó í alvöru bát eða skipi. Mér hefur stundum dottið í hug að það gæti verið fróðlegt að fara einn túr, en ekki gert þao, kannski vegna þess að mér hefur þótt ein- hver yfirborðsblær á því.“ — En boröar fisk? „Ég er alger fiskæta." — Ein valdamesta staöa landsins, segja sumir þegar minnst er á forstjórastól SH. Hvaö finnst þér um oröalagiö? „Mér finnst það innantómt. En það hefur æxl- ast þannig að ég hef fengið góð tækifæri. Ég var rétt þrítugur þegar ég varð framkvæmdastjóri SIF og mat það traust mjög mikils. Nokkrir stjórnarmenn sögðu hreinlega við mig að þeir væru að gefa mér stórt tækifæri að takast á við þetta starf, ekki eldri en ég var. Það gaf mér þá hvatningu sem ég þurfti í upphafi, og ég ákvað að leggja mig allan fram. Eg býst við að þessi nýja staða mín sé rökrétt framhald, en í hringið- unni hugsar maður lítið um hvað leiðir af öðru í þessu sambandi. En það tók mig langan tíma að gera upp hug minn." — Af hverju ertu þá aö skipta um stól? „Aðalástæðan er sú að éy held að það sé hollt fyrir mig, já og gott fyrir SIF; gott að fá nýtt blóð og nýjar hugmyndir. Ég er samt ekki að segja að ég sé staðnaður. En ég er búinn að vera þarna í 12 ár, sem er að líkindum þriðjungur af starfs- ævi minni — og hitt starfið er spennandi. En ég er ekkert sannfærður um að ég sé að fara í skemmtilegra starf.“ — Þannig að þú hefur ekki stefnt aö þessu Ijóst eöa leynt? „Það hef ég alls ekki gert. í einni af fyrstu ut- anlandsferðunum fyrir SÍF spurði mig einn um- boðsmanna okkar hvort þetta væri stökkpallur hjá mér í SH. Ég mótmælti því harðlega þá, og leiddi ekki hugann að þessu fyrr en starfið var nefnt við mig. Og ákvörðunin var síður en svo sjálfgefin, eins og margir myndu kannski halda.“ — Sáttur viö störf þín hjá SÍF? „Ég dæmi um það af viðbrögðum annarra, og ég skal vera hreinskilinn; viðbrögðin hafa verið góð, og það fær mig til að trúa að mér hafi geng- ið sæmilega." Sé sjálfan mig ekki i ooru Ijosi — Uppruni, Friörik? „Ég kem norðan úr Húnavatnssýslu, frá Bjargi í Miðfirði, — sennilega ekki kominn í beinan karllegg frá Gretti, þó það sé náttúrlega ósannað mál. Þar ólst ég upp hjá foreldrum mínum og sex systkinum, þar af fjórum eldri systrum. Þú getur ímyndað þér hvernig það er.“ — Nei! „Og lenda svo í því að búa með formanni Jafn- réttisráðs?" — Sem er konan þín, Ólöf Pétursdóttir dóm- ari. Ertu nokkuö kúgaöur á heimili? „Nei, hér er algjört jafnrétti." — Aftur á bak í tímann; tókstu þátt í sveitalíf- inu af hug og hjarta? „Já, ég býst við bví, en ég held það hafi aldrei komið upp í huga minn að verða bóndi. Ég lá í bókum og las aðallega bækurnar um Beverley Grey sem systur mínar áttu og ritsöfnin heima; íslendingasögurnar, Jón Trausta og Guðmund Friðjónsson og Ármann Kr. Einarsson. Basil fursta fékk ég að kíkja í hjá strák sem var í sveit. Þessi rit voru undirstaða minnar menntunar." — Sem varö? „Ég man ekki betur en ég hafi samtals verið þrjár til fimm vikur í barnaskóla, áður en ég lauk fullnaðarprófi. Það kom til af því að ég var mikið mömmubarn og heimakær, og gat ekki hugsað mér að fara í burtu. Að öðru leyti kenndu pabbi og mamma mér heima, og ég læri t.d. biblíusög- urnar þannig að ég gat farið með þær utanbókar og afturábak. En svo lá leiðin í Reykjaskóla og þaðan í Verslunarskólann. Þar tók ég stúdents- próf og fór síðan í viðskiptadeild." — Er ekki ógurlega langt á milli þessa sveita- stráks og 38 ára gamals forstjóra SH? „Ég held það sé í rauninni mikið styttra en maður gerir sér grein fyrir. Ég sé sjálfan mig ekki í öðru ljósi en þegar ég var þar.“ Nú þagnar Friðrik andartak en heldur áfram: „Ég er mikil félagsvera. Mér þykir gaman að deila hlutum með öðrum. Ég á hlut í tveimur flugvélum, ég á bát með félögum mínum og svo keyptum við nokkur saman jörð austur í sveit- um í fyrra, og þar hef ég bókstaflega gengið í barndóm aftur. Ég vil helst vera fyrir austan öll- um stundum. Þar hef ég fengið útrás fyrir þann búskaparáhuga sem ég hefði sennilega átt að hafa fyrir 30 árum.“ Að ná mér í meirapróf og læra að fljúga — Lífiö breyttist á verslunarskólaárunum, ekki satt?Mér skilst þú hafir verið áfullu í félags- lífinu? „Lífið breyttist geysilega mikið. Ég er sann- færður um að þátttaka í félagslífi í skólum hefur meira að segja en menn átta sig á, fyrr en þeir eru miklu lengra komnir í lífinu. Ég kom inn í fyrsta bekk algjör sveitagaur og hræðilega feim- inn, en áður en ég vissi af var búið að draga mig inn í félagslífið. í öðrum bekk lenti ég í framboði fyrir það sem kallað var ritari, og gekk svo upp árið á eftir í harðri kosningu og varð formaður skólafélagsins. Ég var á bólakafi í félagslífi í gegnum allan skólann." — Hvaö varstu annars aö hugsa á þessum ár- um? „Ég held ég hafi hugsað þá eins og alla tíð; til- tölulega praktískt. Mér finnst það einkenni á þeim sem alast upp úti á landi. En hvað ég var að hugsa? Ég hugsaði um að ég yrði að ná mér í meirapróf, af því að mér leiddist að vita að til voru bílar sem ég mátti ekki keyra. Stuttu eftir það fór ég að velta því fyrir mér að ég þyrfti endilega að læra að fljúga líka. Það fór í taugarn- ar á mér til að væru verkfæri sem hægt var að fljúga, en ég hefði ekki réttindi til þess.“ — Ævintýramaöur? „Ég hef gaman af að prófa allt mögulegt. Ég get sagt þér, að einu dagarnir sem mér finnast slæmir, eru þeir sem ekkert sérstakt kemur upp á.“ — Áhugamálin eru í samrœmi viö þaö eöa hvaö? „Flugið tekur nú mest hug minn sem stendur og svo búskapurinn í Hvolshreppi." — En báturinn t.d.? „Ég keypti hann í bríaríi ásamt fleirum og við vorum aðallega á skaki úti á flóa. Það gekk illa að finna nafn á þennan bát. Engar hugmyndir á lofti nema Blíðfari og annað í þeim dúr. Ég kall- aði bátinn Snúð og það festist við hann, og þykir mjög óvirðulegt. I sumar bilaði hjá okkur mótor úti á miðjum flóa. Við urðum að kalla á hjálp og láta draga okkur í land. En við hugsuðum lengi um það áður hvort við ættum ekki heldur að láta fyrirberast, til þess að þurfa ekki að kalla nafnið upp, og vonast til að okkur ræki frekar að landi en út á haf. Fyrir rest kölluðum við þó á björgunarsveit undir kallmerkinu Snúður, sem er ekkert mjög traustvekjandi við þessar að- stæður." — Friörik, er eitthvaö til í því að maöur geti hitt á þig í ófœrö á vetrum aö bisa viö aö draga fasta ökumenn úr snjósköflum? Nú kímir hann. .. „Ég veit ekki hvort ég má segja frá því, orð- inn þetta gamall, en ég geri þetta sannarlega. Ef það er kominn einhver snjór sem heitir, þá set ég fjórar keðjur á jeppann og fer af stað. Það eru mínar ær og kýr." — Átt sumsé jeppa? „Ég hef alltaf átt jeppa að undanskildu einu ári sem ég átti fólksbíl og hálfeyðilagði hann yfir veturinn; hann þoldi ekki átökin." Ég hljóp í skarðið — / fullri hreinskUni; sumir kynnu að segja sem svo aöþú heföir gifst inn í góöa œtt. Tengda- faöir þinn var Pétur Benediktsson fyrrum lands- bankastjóri, bróöir Bjarna Benediktssonar. „Vissulega er það gott fólk.“ — Haföi þaö áhrif á þinn farveg? „Ég fullyrði að svo er ekki. Með því er ég síður en svo að slá rýrð á ættina, eða að segja að það geti ekki haft áhrif á íslandi að tengjast ákveðn- um ættum. Ég hef bara ekki spekúlerað í því eða haft á því skoðun. í mínu tilfelli er málið afskap- lega einfalt; Magnús Gunnarsson skólafélagi minn fékk mig nauðugan viljugan í starfið hjá SÍF, þar sem ég hef unnið alla tíð síðan...“ — .. .bíddu viö? „Það er í rauninni fyndin saga á bak við þetta allt; Magnús hafði verið skrifstofustjóri hjá SÍF í rúmt ár, og var í miðju kafi að ljúka við tölvu- væðingu á birgðabókhaldi og öðrum slíkum hlutum, þegar honum bauðst annað starf. Hann dró mig beint út úr skóla að taka við af sér, og ég féllst á að vera þarna í átta eða níu mánuði. Við Ólöf höfðum alltaf ætlað okkur í framhalds- nám þegar hún lyki lögfræðinni. Reyndin varð sú að ég sat þarna í 12 ár og nú er hann að taka við af mér. Það má eiginlega segja að ég hafi hlaupið í skarðið fyrir hann í 12 ár. Ég býst við að þetta sé einhver lengsta staðgengilsstaða sem menn vita um hér á landi!" — Mistök framkvœmdastjóra SÍF eöa for- stjóra SH gœtu haft alvarlegar afleiðingar. Ertu meövitaöur um þessa ábyrgö? Kvíöinn? „Nei, ég vil ekki segja að ég sé kvíðinn, og ég held að ég eigi ekki erfitt með að taka ákvarð- anir. Vissulega finn ég fyrir ábyrgð, sér í lagi þeg- ar við gerum þessa stærri sölusamninga, og geri mér fyllilega grein fyrir að við erum að fást við stórar tölur sem skipta alla þjóðina máli. En ég hugsa þá stundum að ef ég væri ekki að þessu, þá væri þar einhver annar, og myndi ég treysta honum betur til þess en sjálfum mér? — Ef svarið er vafasamt, af hverju skyldi ég þá hafa áhyggj- ur? Mér finnst þægilegt og hef það nánast fyrir grinsipp að bera ákvarðanir undir fleiri menn. Ég fæ ekkert sérstakt út úr því að taka ákvarðan- ir einn. Mér finnst það yfirleitt heldur heimsku- legt að taka mikilvægar ákvarðanir einn ef ég get borið þær undir aðra sem ég met þess virði." — Hefurðu átt ráögjafa? „Að undanskildum formanni Jafnréttisráðs?" — Já. „í mínu persónulega lífi hef ég átt ráðgjafa sem ég leita til ef á ríður sem er Jóhannes Nor- dal. Hann er gamall fjölskylduvinur og einstak- lega gott að leita til hans.“ Vil hafa líf og fjör í kringum mig — Félagsvera segiröu um sjálfan þig? „Já, ég er óskaplega mikil félagsvera. Mér hundleiðist einum, og ég get lítið verið einn. Mér líkar hópvinna best og ef konan mín er á ferðalögum kem ég aðeins heim að sofa, en plaga vini mína að öðru leyti.“ — Þá er sjálfsagt eitthvaö til í því aö þú hafir eflt félagslífiö í SÍF, og m.a. efnt til hópferöar saltfiskframleiöenda aö sýna þeim framan í er- lenda kaupendur sina? „Já, já, það er mikið til í því. Við efndum til tveggja stórra hópferða til Spánar og Portúgals og Grikklands og Ítalíu. Þar að auki komum við því á fyrir nokkrum árum að halda veglega dansleiki eftir aðalfundi og þeir eru með stærstu böllum sem hér eru haldin; afar skemmtileg og yfirleitt heimatilbúin skemmtiatriði í bland, söngur, grín og gleði. Ég vil helst hafa líf og fjör í kringum mig, þetta er partur af því.“ — Maöur heföi haldiö að í svona starfi breytt- ust menn fljótt í kerfiskarla, og lítið rúm vœri fyrir húmor og manneskjulegheit? „Það er mikið rúm fyrir hvorutveggja. Starfið í SIF hefur boðið upp á mikil mannleg samskipti. Ég loka mig sjaldan inni til að vinna að ákveðn- um verkefnum; starfið byggist á heimsóknum, fundum og ferðalögum og gerir það skemmti- legra." — Hefuröu ekkert breyst? „Ég veit það ekki. Mér finnst ég ekkert hafa breyst." Aftur hugsar Friðrik sig andartak um, hag- ræðir sér í stólnum og segir svo: „Ég hef ein- stöku sinnum í þessu starfi fengið um það ábendingar frá mér eldri mönnum að ég þurfi að taka sjálfan mig alvarlegar en ég geri. Mér finnst gaman að gantast nánast hvenær sem er, þó ég haldi mér í skefjum þegar alvarlegir hlutir eru á ferðinni. Ég hef alltaf stjórnað þessum knöllum eftir aðalfundinn og sjálfsagt reynt að vera ekki mjög leiðinlegur ef ég hef getað. Mér er það minnisstætt að ég fékk athugasemdir frá tveim- ur mönnum á fyrsta aðalfundi eftir að ég varð framkvæmdastjóri; að þó ég hefði getað gert þetta á meðan ég var skrifstofustjóri, hæfði það ekki beinlínis að framkvæmdastjórinn væri með svona gamanmál uppi á sviði fyrir framan 5 hundruð manns, og aðrir ættu að sjá um að vera svona hirðfífl, eða hvað ætti að kalla það. — í hreinskilni sagt þarf ég stundum að taka mig saman í andlitinu til að finnast ég nógu alvöru- gefinn. — Nei, það kæmi mér á óvart ef ég hefði breyst eitthvað." — Vœri ekki vont aö þurfa að fórna hluta af sjálfum sér fyrir starfiö? „Ég held ég myndi aldrei gera það, vegna þess að maður verður að lofa sínum eigin persónu- leika að lifa. Ég held mér ynnist starfið erfiðar ef ég gæti ekki komið fram eins og ég er.“ Samvinnuglaður frjálshyggjumaður — Flokkspólitískar skoöanir? „Ég hef oft velt þessu fyrir mér sjálfur. Ég kem frá sjálfstæðisheimili úr sterkri framsóknarsýslu og hef alla tíð verið sjálfstæðismaður í gegnum þykkt og þunnt. Hins vegar var það mikil lífs- reynsla að uppgötva í Reykjavík að það fór ekki saman að vera sjálfstæðismaður og kaupfélags- maður. Það hafði ekki hvarflað að mér að það væri óeðlilegt að álíta kaupfélögin miðpunkt al- heimsins í verslun og viðskiptum annars vegar en vera hins vegar frá flokkspólitísku sjálfstæð- isheimili kominn. En þetta fór ekki saman á möl- inni. Annars finnst mér gaman að fylgjast með þjóðmálum; ég hef áhuga á fiskinum og öllu sem að honum snýr og fylgist vel með máiefnum bænda. En ef ég á að reyna að skilgreina hvers konar blöndu af pólitískum áhuga ég hef? — Það sagði við mig vinur minn einn að ég væri kannski helst samvinnuglaður frjálshyggjumað- ur, sem er sjálfsagt ekki mjög góð skilgreining." — Litiö um öxl; ertu stoltari af einu en öðru eftir starfiö hjá SÍF? „Ég er fyrst og fremst ánægður með að mér hefur tekist að vinna þar í öll þessi ár án þess að nokkurn tíma hafi orðið sérstakar deilur um þau mál sem ég hef viljað koma í framkvæmd. Ég held við höfum þó oft á tíðum verið að glíma við viðkvæm og erfið mál, en tekist að leysa þau þannig að menn hafi verið sáttir við. Nú kynni þetta að hljóma eins og ein allsherjar lognmolla, og aldrei deilur um mínar ákvarðanir vegna þess að þær hefðu verið svo flatar og einskis virði, en ég held að svo hafi ekki verið. Mér finnst afskáplega gaman að glíma við fólk. Það eina sem ég þoli ekki í mannlegum samskiptum, hef aldrei þolað og mun aldrei þola, er að fólk sé ekki hreinskilið. Ég get tekist á við vandamál déskoti lengi og á ekki erfitt með það svo fremi sem ég er að glíma við hrein- skilið og hreinskiptið fólk.“ — Ég spuröi þig áöan hvort þú heföir breyst — veröuröu var viö aö fólk beri viröingu fyrir þér sem framkvœmdastjóra; titlinum? „Ég vona náttúrulega að fólkið sem vinnur fyrir mig beri svolitla virðingu fyrir mér, en ég vona að þeir sem kunna að bera virðingu fyrir mér geri það mín vegna, en ekki titilsins vegna. En fyrst þú talar um starfsheiti. Ég hef alltaf verið á móti heitinu forstjóri. Mér fannst aldeilis ómögulegt að heita forstjóri, ég hafði alltaf á til- finningunni að framkvæmdastjóri væri maður sem væri að gera eitthvað. En nú lendi ég í því í nýja starfinu að heita forstjóri og ætli það venj- ist ekki eins og annað." — Aö lokum Friörik, áttu þér nokkurn fram- tíöardraum? „Já, ég á mér draum. Mig dreymir um að setjast að á bújörð úti á landi þegar þar að kemur log gera það sem mig langar til. Ólöf heldur því að vísu fram að ég láti aldrei verða af því. Ég svara henni hins vegar með því að kannski gæti ég hugsað mér að verða „sýslu- mannsfrú“!“ eftir Eddu Andrésdóttur mynd Jim Smart

x

Helgarpósturinn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.